The 100 day project

Update: Sooooo, I managed to stay in the challenge for 12 days. Then life happened with all its excitements. I went to Kiev with my Impostor Syndrome talk and am currently writing a book on the subject so my focus is there for now. This was still a fun challenge and showed me I can create cool stuff whenever I set my mind to it.


I’m challenging myself to participate in #the100DayProject, creating something each day for 100 days! I chose to write short short stories or short proses and am gonna add them here as well as on my Facebook page. (English versions pending).

#12 Rauður tannbursti

Nýkeypti rauði tannburstinn þinn úr plasti
fer við hliðiná mínum græna og bláa
sem er með skiptanlegum haus
og bambushárum.

Við horfumst í augu í speglinum
og skiptumst þar á brosum
sem eru annars falin undir
tannkremsfroðunni.

Spegilmyndin starir einmanalega á mig
meðan ég þríf maskararákirnar
og nota seinustu orkuna til að
tannbursta mig og reyni að sofna.

Ég sé rautt og er að bilast
af reiði og vanmætti
svo ég tek tannburstann þinn
brýt hann í tvennt og kveiki í honum.

A Red Toothbrush

Your newly bought red plastic toothbrush
goes beside my green and blue one
that has an exchangeable head
and bamboo bristles.

Our eyes meet in the mirror
and exchange smiles
which are otherwise hidden
under the toothpaste foam.

The lonely reflection stares at me
while I clean the bleeding mascara
and use my last energy
to brush my teeth and go to sleep.

I see red and feel like bursting
from anger and powerlessness
so I take your toothbrush
break it and light it on fire.

# 11

Rewrote Still feeling like a fake? Living post-impostor syndrome.

#10

Wrote about the Impostor Syndrome for an article in Fréttablaðið, will add link when it’s published.

#9 Að stíga tilfinningaöldur

Ég stíg tilfinningaöldurnar og held jafnvægi. Alda einmanaleika, alda vonbrigða, alda sorgar, alda reiði. Ég stíg tilfinningaöldurnar, eina af annarri og sjórinn kyrrist á ný. Áður reyndi ég að sigla fram hjá en þá gleyptu þær mig og kaffærðu svo ég næstum drukknaði. Ég stíg tilfinningaöldurnar meðan sólin rís og tunglið vex, meðan vorið fer og sumarið líður hjá. Alda kærleiks, alda þakklætis, alda ástar, alda gleði. Ég stíg tilfinningaöldurnar og nýt saltbragðsins á vörunum.

#8 Geirþrúður bókasafnsfræðingur

Geirþrúður er rúmlega fertugur bókasafnsfræðingur. Henni er mjög mikið í mun að fólki líki vel við sig og það hefur til dæmis leitt til þess að hún hefur fengið ávítur í starfi fyrir að gefa fólki bókasafnskort án þess að rukka þau fyrir. Geirþrúður á bara mjög erfitt með að neita fólki ef það biður um eitthvað. Einn daginn kom Helgi Björns til hennar með bækur sem hann hafði ekki getað tekið sjálfur í sjálfsafgreiðsluvélinni því skírtenið hans var útrunnið. Geirþrúður fer í að endurnýja það svo Helgi geti nú lesið Arnaldinn sinn en þegar hún segir honum að þetta kosti 1800 krónur hallar Helgi sér að henni og segir í hálfum hljóðum “Ég er Helgi fokking Björns, ég þarf ekki að borga fyrir þetta” og starir á hana sjálfsöruggu augnaráði. Geirþrúður fer í kerfi og umlar bara nei nei og klárar að afgreiða hann. Eftir á líður henni ömurlega að hafa verið svona óákveðin og undirlát við þennan hrokagikk. Svo kom þetta auðvitað í ljós í uppgjörinu um kvöldið og yfirmaður hennar horfði á hana eins og hann trúði henni ekki þegar hún stamaði þessari afsökun út úr sér. Geirþrúður vildi oft óska sér að hún væri persóna í einhverri af þessum skáldsögum á safninu, einhver sem hefði alltaf svör á reiðum höndum, einhver sem væri örugg með sjálfa sig og til í að takast á við hvað sem lífið myndi henda í hana.

# 7 Opinberun

Eitt miðvikudagskvöldið er eins og eldingu lýsti niður í mig og ég geri mér grein fyrir því að ég hef eytt hverju einasta miðvikudagskvöldi í 6 ár í að horfa á Americas Next Top Model. Lífið hlýtur að eiga að að snúast um meira en það. Ég er hætt að horfa á raunveruleikaþætti.

#6 Fyrsti AA-fundurinn

  • Hæ, ég heiti Sólrún og er alkóhólisti.
  • Hæ Sólrún!
  • Ég er ný hérna, eða sko, ég er búin að vera edrú núna í 2 vikur og þetta er minn fyrsti AA fundur…
  • Velkomin!
  • Takk, uu, sko, ég veit ekki hvar ég á að byrja en mér hefur eiginlega bara aldrei dottið í hug að hætta að drekka, hélt aldrei að það væri vandamál hjá mér, en þúst, var bent af sálfræðingi að ég væri líklegast alkóhólisti, samt veit hún ekki einu sinni um allt. Kannski er það bara svona augljóst. Ég veit ekki… Mér var semsé farið að líða mjög illa og var búin að greina mig með þunglyndi og ætlaði bara að fá pillur og fara til sálfræðings og batna… En svo er þetta víst meira mál en það, úff… Hvað gerir fólk eiginlega um helgar sem drekkur ekki? En einmitt þessi spurning og það hvernig ég er búin að vera bregðast við tilhugsuninni að hætta að drekka er soldið að segja mér að þetta sé kannski vandamál. Ég er búin að vera rosa týnd síðan ég var krakki og mjög leitandi. Leitandi í hvað nákvæmlega veit ég ekki, en það er alveg nýtt fyrir mér að hugsa að áfengið sé kannski að hamla mér í að líða vel. Kannski er ekki eðlilegt að fyllast óeirð í matarboðum þar sem er boðið upp á vín því ég vil bara meira og fara að djamma. Ég vil nánast sleppa því frekar að drekka en að fá mér bara eitt glas. Kannski er ekki eðlilegt að grobba sig af því að hafa drukkið í 14 daga í röð. Kannski er ekki eðlilegt að eiga alltaf sterkt áfengi heima til að skella í sig glasi ef konu skyldi líða illa… Kannski… En já, ég hef ekki meira að segja í bili, ég er spennt fyrir að halda áfram að læra svona mikið um sjálfa mig en er samt líka mjög hrædd og stressuð… Takk.
  • Takk og gangi þér vel!

#5 Misskilningurinn við að fullorðnast

Góðan dag, góðan dag, glens og grín það er mitt fag, hopp og hí, trallalí upp á nefið nú ég sný!

Mér fannst ég loks vera orðin fullorðin þegar ég heyrði lítil börn segja frasann “Na-na-na-bú-bú” og ég vissi ekkert hvað það þýddi. Hvað var að gamla góða “Ligga-ligga-lái”? En ég vil ekki verða eins og sumt gamalt fólk sem fannst allt best eins og það var í gamla daga. Svo það er kannski bara betra að hafa fleiri orð og frasa. Það er eitt af merkjunum um að Ísland er að breytast frá því að vera fábreytt sveitalubbaþjóð yfir í að vera fjölmenningarlegt og víðsýnt samfélag. Það er til dæmis ótrúlega stutt síðan einu ávextirnir sem fólk hér á landi fékk voru epli og appelsínur um jólin. Pabbi er nýbúinn að læra hvað mangó og avókadó er. Amma mín myndi aldrei fara á almenningsklósett eftir að svartur maður hefur verið þar inni. Kynslóðabilin í dag eru orðin ansi djúp. Ekki að tala um tölvuvæðingu og allt sem fylgir nýrri tækni. Mér finnst samt gaman hvað mikið af sömu bröndurum, gátum og sögum virðast eiga eilíft líf. Tómatabrandarinn er alltaf fyrsti brandari sem börn læra, frasar eins og “Bara er ekkert svar” og “Ha-ni”.

Þegar ég var barn voru foreldrar mínir Guðir, fólkið sem réð og var ákveðið. En eftir að ég varð foreldri er ég sífellt að upplifa að vera alls ekki viss um að vera gera rétt í uppeldinu og hvort ég sé að skaða barnið eða hjálpa því til lengri tíma litið. Mér líður alls ekki eins og Guði. Smátt og smátt hefur runnið upp fyrir mér ljós að foreldrar mínir voru líklegast líka bara að spila af fingrum fram. Ekki nóg með það heldur er mér farið að finnast ég stundum þurfa að hafa vit fyrir foreldrum mínum, segja þeim að láta ekki bjóða sér hvað sem er á vinnumarkaðinum, að hreyfa sig og hætta að reykja, finnast ég vera tilfinningagreindari en þau. Það er allt saman töluvert sjokk. En áður en ég er að melti þetta allt saman stelst ég í nammiskápinn þegar strákurinn minn er sofnaður eftir að hafa neitað honum um nammi fyrr um kvöldið og fer að kenna mömmu að sækja um vinnur.

Góða nótt og sofðu rótt í alla nótt.

#4 Sund

Ég sting mér í vatnið og ég er komin aftur í móðurkviðinn. Vatnið umlykur mig, ég fyllist öryggi og finnst ég vera komin heim. Að læra bringusund er eins og að læra að hjóla, það gleymist aldrei. En skriðsundið er erfiðara. Hvernig eiga hendurnar að hreyfa sig? Hversu hratt eiga fæturnir að buslast? Öndunin gerir á endanum alltaf útaf við mig. Ef mér fipast aðeins í henni missi ég taktinn og verð að grípa aftur í bringusundið. Baksund er líka ótrúlega næs. Ég geri það alltaf í lokin til að slaka á. Þegar eyrun eru ofaní vatninu er eins og maður sé í sínum eigin heimi og ekkert geti truflað mann. Þar til ég klessi á línuna sem aðskilur sundbrautina (hvað sem það apparat kallast), eða á manneskjuna fyrir framan mig. Ég syndi ósjálfrátt alltaf á ská í baksundi. Í bringubaksundi syndi ég alltaf til hægri, en í skriðbaksundi syndi ég alltaf til vinstri. Bringubaksund getur varla heitið það samt þegar ég spái í því, í bringusundi er synt á bringunni, en öfugt bringusund er kannski bara kallað baksund.

Það er alltaf hægt að spotta strax útlendingana sem sitja fyrir framan vatnsnuddið án þess að nota það eða synda löturhægt á sundbrautunum. Það eru svo margar óskráðar reglur í sundi. Sumar brjóta nú samt sjálfumglaðir Íslendingar, eins og að ýta ekki oftar en tvisvar á takkann í vatnsnuddinu þegar það er mikið af fólki til að hleypa öðrum að. Svo eru aðrar skráðar reglur sem þarf að passa að útlendingarnir fylgi, eins og að fara í sturtu og sápa sig, og þurrka sér áður en þau ganga inn í búningsklefann. Sumar brjóta nú líka unglingar og fólk með snjallsímafíkn.

Ég er farin að vera eins og gamla fólkið, með mína sundrútínu sem má helst ekkert breyta út af. Bringu-, skrið-, bringu og bak. Lyfta sér upp á stökkpallinum, fara í vatnsnudd, slaka á í heita, setjast í kalda, fara í gufu og teygja á, fara svo upp úr. Eftir sundið er ég endurfædd, endurræst, tilbúin að takast á við lífið.

#3 Krumlur Hversdagsleika

Myrkar hugsanir eru í endalausum eltingaleik í hausnum á mér.
– Klukk! Þú ert hann! Nú átt þú að hugsast þar til hún getur ekki meir.
Ein er grá, önnur svört, ein hvít en sú litast strax af myrkrinu og dökknar. og dökknar. Leikurinn færist í aukana og hugsanirnar brjótast út og taka yfir raunveruleikann.

Hversdagsleiki er með krumlurnar á hálsinum mínum og er við það að kæfa mig. Ábyrgð stendur hjá okkur og hlær. Hlær að mér því ég er aumingi og mun aldrei getað tekið hana.

Rúm er besti vinur minn. Það tekur mér hlýjum örmum og vefur mér inn í sængurvængi sína. Það huggar mig og ver mig fyrir Áreiti. Rúm sér mig líka fyrir besta meðalinu. Í skiptum fyrir tár færir það mér Svefn og þá verður allt allt í lagi.

Ég er laus við að komast til gangs.
Ég er til í að ganga laus.
Ég geng tillitslaus.

#2 Hversdagur

Einar kom þreyttur heim eftir erfiðan vinnudag og rétt náði að taka af sér skóna áður en hann hlammaði sér í sófann.
– Ég er kominn heim elskan.
María, konan hans, svaraði óræðu svari til hans innan úr eldhúsinu. Einar hafði þurft að díla við einstaklega erfiða tappa í fyrirtækjaþjónustunni í bankanum í dag. Sumir gaurar halda að þeir geti allt og að heimurinn vilji gera allt fyrir þá líka. Það hafði tekið á að halda kúlinu og vera vingjarnlegur og reyna að gera vel við þá þrátt fyrir fáránlega tilætlunarsemi af þeirra hálfu ofan á hvað þeir voru miklar gufur. Einar var feginn að vera kominn heim og hlakkaði til að horfa á nýja Game of Thrones þáttinn á eftir með Maríu. Svínið þeirra, Síta, rumdi og labbaði til hans til að fá hann til að klóra sér bakvið eyrun, það var það besta sem hún vissi. Með kröfuharða starfið hans Einars og tímafreka starfið hennar Maríu sem safnstjóri þá höfðu þau ekki gefið sér tíma í að eignast börn þótt þau væru að nálgast fimmtugsaldurinn. Því höfðu þau ákveðið fyrir nokkrum árum að fá sér gæludýr og varð Síta fyrir valinu. Þau voru bæði miklu meiri svínafólk heldur en kinda. Fyndið hvað fólk skiptist upp í svona hópa. Eftir að hafa hvílt sig í dálitla stund stóð Einar upp og gekk á ilminn í eldhúsinu.
– Hvað ertu að elda svona gott í kvöld elskan?
– Þetta er grillaður köttur, franskar og maísstönglar, ég nennti nú ekki að gera eitthvað flóknara en það svona á mánudegi.
– Það hljómar bara mjög vel, komdu hérna og kysstu mig.
Einar greip um Maríu og þau kysstust ástúðlega. Hann hugsaði með sér hversu þakklátur hann var eftir 10 ára sambúð hvað þau voru enn ástfangin af hvort öðru og viðhöfðu góð samskipti. Helmingur vina hans var búinn að skilja og virtust annað hvort vera gengnir í barndóm eða hafa það frekar skítt. Skilnaður gekk greinilega í bylgjum, alveg eins og ólétta og brúðkaup. Eftir matinn kúrðu þau sátt upp í sófa með Sítu við hlið sér og horfðu á sjónvarpið og nutu þess að vera til.

#1 Konan í stigaganginum mínum

Það er kona í stigaganginum mínum sem sér dáið fólk. Hún er mjög næm og getur líka túlkað drauma. Ég er að sjálfsögðu búin að setja hana í kassann “Nett klikkuð en samt gaman að” með fólki eins gaurnum á Esso sem spyr mig alltaf hvort ég hafi séð geimverurnar í Norðurljósunum og systir hennar ömmu sem les í bolla og spáir fyrir öllu fólki að það sé annað hvort alveg að vinna í lottó eða missa vinnuna. Kaffidreggjamynstrin fyrir þessa atburði eru víst áþekk. En aftur að konunni í stigaganginum, ég er í sjálfskipaðri herferð að reyna að endurvekja nágrannavináttu eins og hún var þegar ég var barn, svo ég geri í því að heilsa fólki og spjalla um daginn og veginn og finnst sérstaklega gaman að henni. Hún er oftast nær mjög hress og hefur alltaf frá einhverju skemmtilegu að segja. Það er líka alveg rétt hjá henni að hún er næm, hún finnur alltaf á sér hvernig mér líður, nema ég sé það sem að hún er næm á líðan fólks meðan hún segir að dáinn afi minn sé að segja henni frá hvernig mér líður. En í gær varð ég mjög reið út í hana. Ég segi henni stundum í gamni frá draumunum mínum og sagði henni í gær frá draumi þar sem ég missti tennurnar eina af annarri og var allan drauminn að tína þær upp og reyna að festa þær aftur upp í mig, en þær hrundu bara alltaf úr aftur. Konan varð mjög alvarleg og sagði í ásakandi tón að nú þyrfti ég taka mig taki og hætta að sofa hjá þessum gifta manni því annars myndi sonur hans deyja. Afi minn segði líka það sama. Ég sem hef alltaf verið vingjarnleg við hana og hún dirfist að koma með svona rugl! Hvernig dirfist hún að láta mig fá enn meira samviskubit yfir að vera að sofa hjá honum! Á ég nú að valda dauða sonar hans í þokkabót? Ég verð að komast að því hvernig hún þekkir hann. Ekki hef ég sagt henni frá þessu svo hún hlýtur að hafa séð hann koma í heimsókn til mín, þótt hann kemur vanalega inn bakdyramegin. Nú er hún komin í kassann “Klikkuð og biturt kellingaskass”.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s