Uppvöxtur Litla trés

Ég er kannski sein um borð í lestina en ég var loksins að lesa bókin Uppvöxtur Litla trés sem kom út 1976 (1999 í íslenskri þýðingu Gyrðis Elíasonar) og fór í ham þegar ég skrifaði umsögn á Goodreads og ákvað að henda þessu inn hér á sofandi bloggið mitt.

Uppvöxtur Litla trés er hugljúf uppvaxtarsaga ungs drengs af indjánaættum sem gerist að mestu leyti á einum vetri þar sem hann býr hjá ömmu sinni og afa, sem eru Cherokee-indjánar, og þau lifa í fjöllunum í samhljómi við náttúruna. Sagan fellur vel að framsæknum umhverfissjónarmiðum og nýaldarsiðum en á sama tíma er hún mjög íhaldsöm og í raun fordómafull. Sagan er einföld og persónurnar sömuleiðis, indjánarnir eru settir fram sem hinn göfugi villimaður gegn hinni illu siðmenningu nútímans.

Það er nauðsynlegt að lesa þessa bók í samhengi við höfundinn, Asa Carter, sem var öfgafullur kynþáttahatari. Hann var viðriðinn Ku Klux Klan og gekk svo langt að hægrið og íhaldið á áttunda áratugnum vildi ekki einu sinni bendla sig við hann. Á sínum efri árum, eftir að hann varð útskúfaður úr pólitík, byrjar hann að skrifa skáldsögur (áður hafði hann verið þekktur fyrir að skrifa áhrifaríkar pólitískar ræður) og það er ekki nóg með að hann taki upp pennanafnið Forrest Carter (Forrest í höfuðið á stofnanda KKK) heldur tekur hann upp gervið í eigin persónu, og leikur þessa persónu gagnvart agentinum sínum og í opinberum framkomum. Hann sagði að Uppvöxtur Litla trés væri hans eigin uppvaxtarsaga sem hún er sannarlega ekki, Asa Carter er ekki einu sinni af indjánaættum.

Fyrst þegar ég heyrði af ævi höfundarins varð ég undrandi yfir því hvernig hvítur kynþáttahatari gæti skrifað fallega sögu frá sjónarhorni indjána þar sem hvíti karlinn er vondi kallinn. Í fyrstu leyfði ég mér að vona að hann hefði fengið einhvers konar uppljómun á seinni árum og komist yfir fordóma sína en því miður virðist Carter hafa verið rasisti, sérstaklega gagnvart svörtum, allt fram á sinn dauðadag. Þegar aðeins er grafið í bæði söguna og ævi höfundarins sést sagan í sínu rétta ljósi og baksaga höfundar er ekki eins furðuleg og ætla mætti. Asa Carter var með íhaldssama rómantíska hugmynd um frumbyggja Ameríku enda er hugmyndin um hinn göfuga villimann uppfull af fordómum. Þetta er sannkallað menningarnám þar sem hann skáldar upp hugtök og siði Cherokee-indjána sem sýnir að hann virðir ekki menningu indjána betur en svo að hafa ekki kynnt sér þá betur.

Ég mæli með að lesa bókina og lesa síðan um höfundinn, til dæmis þessa grein. Það er góð æfing í að fá mann til að líta undir yfirborðið á því sem maður les, spá og spegulera með hver má segja hvaða sögu, er sagan gild ein og sér eða verður að taka sögu höfundarins með í reikninginn? Hvað er hið rétta og ranga sem samfélagið í dag er gjarnt á að dæma fljótt og harðlega – en hlutirnir eru oft flóknari en svo að hægt sé að flokka þá á svo einfaldan hátt.

Leave a comment