Aftur til Bangkok

Ég er ekki duglegur bloggari!! En engar áhyggjur þið öll sem hafið verið að bíða spennt eftir næsta pósti (Íris og Adam allavega…). Hef verið á leiðinni að skrifa annan póst en bara einhvern veginn ekki komist í það. Eftir viku í Phuket á resort hóteli sem var ekki alveg nógu næs (of langt frá bænum og of mikið af háværu nýríku asísku fólki sem hefur engan sans fyrir öðrum – útskýri betur síðar), og kynntumst skuggahliðum Tælands (á leið á pítsu-stað sem ég fann á Google maps lentum við í vændishverfi … BARA eldri hvítir karlmenn, rauðbirknir í yfirvigt, og ungar tælenskar konur … það var óhugnalega óþægilegt, verst var samt að sjá einn hvítan miðaldra mann með unglingstelpu á pitsastaðnum, þá var okkur alveg nóg boðið og fórum skelkuð heim) skelltum við okkur til Koh Phi Phi!

Ef einhver hefur horft á kvikmyndina The Beach, þá er sú strönd á einni af Phi Phi eyjunum, kaldhæðnislega er sú strönd orðin að einni fjölmennustu túrista ströndinni og það má ekki einu sinni fara út í sjóinn.

Maya beach – The Beach ströndin

Það var mjög næs á Koh Phi Phi, umhverfið er PARADÍS, þá síðan urðum við fljótt þreytt á því að vera í svona miklum túristabæ! Það var líka mjög heitt og hótelið sem við vorum búin að bóka fyrstu tvær næturnar var svo ekki laust þegar við komum (klassískt asískt kaos) svo það fór mikill tími – eða réttara sagt ORKA sem er ekki mikið af í 30 stiga hita og raka – í að bóka hótel næstu 5 nætur, við fórum á milli 3 staða, fyrst herbergi sem kostaði bara 2500 kr. nóttin og var alveg furðu fínt – en að sjálfsögðu engin sundlaug eða þjónusta. Við erum alveg orðin háð því að komast í sundlaug í þessum hita … sem betur fer var hægt að kaupa sundlaugar aðgang á nokkrum stöðum.

Verð svo að gera sér póst um allar kisurnar á Koh Phi Phi!!!! Það voru bókstaflega kisur ALLS STAÐAR! Ekki hægt að ímynda sér yndislegri stað 😀

En nú vorum við farin að þrá að komast aftur í stórborg og úr túrismanum, svo við skelltum okkur til Kúala Lúmpur sem er bara í 2 tíma flugi frá Krabi (sem er 2 tíma sigling frá Koh Phi Phi). Við vorum í Malasíu í 5 daga en vorum að koma til Bangkok aftur í dag og verðum hér næstu 6 daga, svo hefst ferðalagið aftur heim. Í stuttu máli var ég mjög glöð að hafa farið til KL en er miklu hrifnari af Bangkok, hér er allt svo frjálst og yndislega kaotískt (sem maður bölvar alveg stundum samt á ferðalaginu, þvöl, heit og þreytt ;)).

Sundlaug á 40. hæð á hótelinu í KL
Batu Caves – góð ástæða til að heimsækja Kuala Lumpur

Þetta átti bara að vera smá tékk inn póstur!! Skrifa meira um alla þessa staði síðar! Erum btw komin á mjög næs hótel núna, herbergið er með skrifborði sem kallar á að vera skrifað við!!

P.S. ég er í alvöru ekki ein á ferðalagi að ímynda mér að ég sé með Steinari Braga, hann vill bara ekki að internetlöggan sé að fylgjast með sér.

Bangkok beint í æð

Þá erum við búin að vera 5 daga á hóteli í Bangkok, strax búin að koma okkur upp vana: vakna um 6, morgunverðarhlaðborð kl. 6:30, liggja við sundlaug og lesa, ræktin, sitja smá í lobbýinu í tölvu, fara út að sýsla (og labba!). Það er eitthvað öryggi í vananum, þannig einföldum við hlutina og höfum meiri tíma til að hugsa um aðra hluti sem skipta máli. Einhver staðar las ég að ef ekki væri fyrir vanann væru ekki til vísindi eða listir.

Það er búið að vera mjög næs hér en við erum bæði tilbúin að halda áfram næsta áfangastað: Phuket! Þar verðum við í viku á resort hóteli við strönd.

Miðbæir og verslunarhverfi í Evrópu eru hverju öðru lík, svo það er mjög hressandi að vera hér í allt öðruvísi menningu. Við lentum til dæmis óvænt í Pokemon Go skreyttri lest um daginn.

Í fyrradag fékk ég alveg Bangkok beint í æð, við fórum með vatnastrætó upp eftir ánni, stoppuðum við í hofi (þar sem líkamsleifar Búdda liggja – en því halda einnig fram um hundruð annarra hofa í Asíu), fórum í bakpokahverfið, Khao San þar sem Steinar var kominn á Endurminningar Slóð, hann bjó þar í nokkra mánuði á einum af sínum fyrstu ferðalögum í Tælandi. Þar byrjar líka eftirminnilega kvikmyndin The Beach með Leonardo DiCaprio. Þar er mikið af vestrænum túristum og voða kósý – í útjaðrinum – fórum í notaða bókabúð og keyptum alltof mikið af bókum, ég man ekkivarla hvað ég keypti, jú, gamla sæfæ bók með Ray Bradbury, Hyperspace eftir framtíðarfræðinginn Michio Kaku, ljóðabókina Citizen: An American Lyric eftir Claudiu Rankine, The Passage eftir Justin Cronin og einhverjar fleiri. Þær verða samt aðeins að bíða, ég er að klára bókina White Teeth eftir Zadie Smith (sem er btw mjög góð, ótrúlega góð persónusköpun) og næst á listanum er Lungu eftir Pedro Gunnlaug Garcia. Steinar er búinn með hana og er mjög hrifinn. Ég er mjög spennt fyrir henni, fyrri bók hans Málleysingjarnir er ótrúlega góð og hressandi, svo ég hef beðið í ofvæni eftir næstu bók frá honum.

En aftur til Bangkok, frá kósý hverfinu fórum við á Khao San Road, aðalgötuna, og guð minn góður, ég hef aldrei upplifað annað eins álag á skynfærin! Ég get eiginlega ekki lýst því en ætla að reyna: Það var alveg stappað, maður leiddist bara áfram með mannþvögunni, meðfram báðum megin var starfsfólk skemmtistaðanna (allt mjög ungt fólk) að reyna að lokka mann inn á næsta stað, hávær tónlist úr öllum áttum (ég skil ekki hvernig fólk gat setið og talað saman, við Steinar þurftum að tala með líkamstjáningu), básar með grilluðum sporðdrekum og köngulóm, mat, drykk, kannabis, uppi á borði stóð ungur tælenskur strákur að syngja í míkrófón, leiser ljós, DJAMM! Það var svo mikið í gangi, svo mikið að taka inn, að okkur datt ekki einu sinni í hug að taka myndir. Mjög gaman að labba í gegn, en svo þurftum við að labba aftur til baka seinna um kvöldið og þá sogaði umhverfið til sín þá litlu orku sem ég átti eftir. Við tókum svo Tuk tuk heim (Steinar er góður að prútta svo það var mjög ódýrt) og það var líka mjög skemmtileg upplifun.

Í gær fórum við svo í verslunarleiðangur (það er eiginlega ekki hægt að vera úti á daginn þegar það er heitast, þá eru loftkældar kringlur alveg málið) og komum heim um 9 leytið og ég var svo þreytt að ég var dottandi í hálftíma þar til ég játaði mig sigraða og fór að sofa. Steinar sofnaði líka strax, þetta var fyrsta nóttin sem við náðum alveg fullum svefn. Ótrúlegt hvað þotuþreytan situr í manni!

Bangkok í þotuþreytu

Við Steinar komum til Bangkok í gær, eða fyrir tveimur dögum á íslenskum tíma, og erum enn að kljást við þotuþreytuna. Rotuðumst skyndilega klukkan sjö um kvöld áðan, líkaminn hefur haldið að við værum búin að vaka heila nótt. Magnað hvað tímabeltismunurinn ruglar alltaf í manni.

3 tíma flug til London (Luton svo rúta til Heathrow) svo 12 tíma flug þaðan til Bangkok með Eva airlines, ekki-lágfargjaldsflugfélagi. Tveir málsverðir innifalnir, skjár í sæti, ágætis sæti og rakakrem inni á baði. Við vorum minnt á hversu margar slæmar bíómyndir eru til, byrjuðum á Moonfall (alveg hræðilega illa skrifuð), Bullet Train og svo kíkti ég líka á Elvis, en gafst upp á þeim öllum. Byrjaði á Driving My Car, 3 tíma bíómynd byggð á smásögu eftir Murakami, sem ég ætla að klára síðar þí ég hafi ekki enst núna – hún er á mjög rólegu tempói. Þá er nú gott að vera með bækur með sér, ég er að klára þriðju bókina í Night’s Dawn trílógíunni eftir Peter Hamilton (er að lesa hana í annað sinn) og sem betur fer er hún líka sem rafbók á Scribd, það hefði verið brösulegt að fara með 1300 bls. kilju-hlunkinn með mér. Þetta er alveg frábær geimópera – en svona við annan lestur verð ég að viðurkenna að Hamilton hefði alveg mátt skrapa 2-300 blaðsíður af hverri bók (þær eru allar af þessari lengd). Svo gluggaði ég á leiðinni í nýtt smáprósasafn eftir Gyrði Elíasson, Þöglu myndirnar, sem Steinar keypti í fríhöfninni. Ég varð fyrir smá vonbrigðum með það, þetta er meira eins og brandarabók fyrir gáfaða fólkið heldur en prósar. En það er gott að lesa íslenskuna, það er alveg nauðsynlegt þegar ég er að skrifa.

Þetta er fyrsta skipti sem ég ferðast út fyrir vestræna menningu. Tími til kominn að fara út fyrir boxið sem maður er fæddur í! Fólkið hérna er voða rólegt og kurteist, fallegt og fíngert. Engin egó eins og á Vesturlöndum. Okkur Steinari líður báðum vel í þessu umhverfi. Fyrsta kvöldið fórum við á þakbar á hótelinu og mér leið eins og ég væri í sæfæ mynd. Barinn var reyndar mjög dýr, nánast íslensk verð! Enda gerðum við vel við okkur fyrstu dagana og erum á mjög fínu Hilton hóteli við ána.

Við vöknuðum klukkan 6 í morgun og fórum á besta morgunverðahlaðborð sem ég hef farið á! Allt frá eggjum, beikonum og jógúrti til sushi og indversks matar. Smakkaði í fyrsta skipti ferskt papaya og namm hvað það var gott. Við borðuðum svo mikið að næsti málsverður var ekki fyrr en seint um kvöld, grilluð bbq spjót í lítilli kringlu hér rétt hjá, þar sem er götumatur, en samt allt hreint og fínt.

Steinar vann því miður ekki bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Truflunina, en fékk að vita sama kvöld að það er búið að ráða mjög flotta handritshöfunda fyrir Truflunina! Sömu og skrifuðu Humans. Það þýðir að það sé enn líklegra að hún fari í framleiðslu. Fyrir þá sem ekki vita er framleiðslufyrirtæki í Hollywood – eOne sem meðal annars Peter Dinklage stjórnar búið að kaupa réttinn til að búa til sjónvarpsþætti eftir bókinni. Ég verð að minnast á að þegar Steinar fékk persónulegan tölvupóst frá Peter að hrósa Trufluninni fékk ég stjörnur í augun. Við vorum sammála um að þessar fréttir hefðu verið betri en verðlaunin.

Það eru mjög þægilegar samgöngur hér, „Sky train“ lestir þar sem útsýnið yfir borgina er frábært. Þar sem það kostar 1000 krónur á dag að geta notað símanetið (það er ekki einu sinni í boði reyndar hjá Hringdu sem er símafyrirtækið mitt) erum við að prófa að vera netlaus. Þá er mjög gott að hafa góðar samgöngur! Ég er mjög háð því að nota Google maps á ferðalögum og var smá stressuð fyrir þessu, en svo er þetta lítið mál – bara smá skipulagning. Annars tókum við því rólega í dag, fórum í eina kringlu en vorum of þreytt fyrir nokkuð annað en að fara í bókabúð. Ég keypti tvær sæfæ bækur sem ég held að verði innblástur fyrir söguna sem ég er að skrifa, svo myndasögu fyrir Adam. Við ætlum svo aftur seinna að kaupa meira. Það er mjög hentugt hvað við Steinar elskum bæði jafn mikið að versla bækur!

Við lágum við sundlaugina í dag eftir verslunarferðina. Minnst í sól, það er eiginlega bara of heitt og líka gott að fara sér rólega í sólinni (Steinar er skynsamur með það, passar að ég brenni ekki). Ég fékk mér reyndar smá vorrúllur þar, ég er með lágan blóðsykur og annað hvort sóna ég út eða verð hangry þegar ég borða ekki reglulega.

Það er rúmlega 30 stiga hiti á daginn

Þetta er kannski ekkert mjög spennandi blogg enn sem komið er en ég held það verði gaman að eiga svona ferðadagbók seinna meir. 🙂

Ég verð svo að enda á mynd af hótelganginum, en hann er nánast alveg eins og í Ruben Östlund myndinni: Force Majeure!