Ég er að vinna að minni fyrstu skáldsögu og ferlið er allt öðruvísi en að skrifa ljóð eða smásögur. Þegar fólk spyr mig hvernig gengur veit ég eiginlega ekki hverju ég á að svara. Ég byrjaði með þessa hugmynd fyrir rúmlega ári og skrifaði rúmlega 20.000 orð. Ég var alveg komin með allt í lagi beinagrind og nokkrar spennandi senur en var ekki alveg að ná að skrifa nógu áhugaverðar persónur eða söguþráð og rakst á vegg. Síðan breytti ég hugmyndinni þó nokkuð og er núna komin með mjög spennandi söguþráð, heim og aðalpersónu og hennar baksögu. Við Steinar áttum mjög góða hugmyndavinnu á Tene (oft með freyðivíni, mjög góð leið til að fá hugmyndir) og nú er ég að reyna að koma þessu niður á blað.

Sumir rithöfundar setjast alltaf niður á morgni og skrifa X mörg orð, aðrir taka tarnir og skrifa fram á rauða nótt, sumir handskrifa (sem mér finnst algjör geðveiki) og enn aðrir gera eitthvað allt annað. Ég er enn að finna út hvernig mín rútína er (fyrir þessa bók allavega). Eftir að við komum frá Tælandi náði ég ágætis rútínu og skrifaði 1000 orð fyrir hádegi og vann svo í launuðu vinnunni minni eftir hádegi. Ég tók líka þriggja daga helgi ein í sumarbústað í janúar og skrifaði 5000 orð – sem var markmiðið mitt.
Í þessum skrifum var ég ekki að skrifa vel heldur að skrifa út söguþráðinn. Það er mjög erfitt að skrifa ekki vel, en það er alltaf möguleiki á þessu stigi að ég muni henda því sem ég er að skrifa svo mér finnst meika sens að eyða ekki of miklum tíma í eitthvað dútl. „Kill your darlings“ segir Stephen King um að skrifa og það hef ég sannarlega verið að læra. Það er bara partur af ferlinu að henda texta (eða geyma hann í öðru skjali í tölvunni í þeirri von að eitthvað í honum verði nothæft síðar). Eftir Tene-hugmyndavinnuna er ég líklegast að fara að henda öllu sem ég skrifaði í des og jan. EN það var samt ekki til einskis, hugmyndin mín er að þróast og ítrast í hvert skipti sem ég sest niður og vinn að henni og ég trúi að með því að eyða nógum tíma í hugmyndina (og gera góða beinagrind) verði lokaútkoman betri.
Ég er heldur ekki að ráðast á garðinn sem hann er lægstur þar sem ég er að skrifa sögu sem gerist í framtíðinni. Ég gæti örugglega sest niður og skrifað raunsæja bók sem gerist í samtímanum og gefið út um jólin en mig langar til að skapa nýjan heim þar sem ég get ákveðið hvernig allt er, samfélag og umhverfi. Stundum verð ég að minna sjálfa mig á það þegar ég stend frammi fyrir enn einni ákvörðuninni um smáatriði í heiminum mínum.
Suma daga get ég sest niður að morgni og skrifað samkvæmt rútínu, en aðra er það bara ekki svo létt. Andinn kemur ekki alltaf þegar kallað er á hann. Núna ætla ég að taka mér tveggja mánaða „ritleyfi“, það er að segja að einbeita mér bara að skrifum og lifa á sparifé og smá airbnb og sjá hvort ég komist ekki á fullt með söguna þá – með allan daginn fyrir mér í að skrifa! Kona verður að bjarga sér þar til hún kemst á ritlaun.
Annars finnst mér vanalega áhugaverðara að heyra um ferlið að skrifa frá rithöfundum sem hafa skrifað margar bækur heldur en nýjum. En það er líka gott að muna hvernig það var að skrifa þá fyrstu – kannski verður ferlið fyrir hverja bók öðruvísi. Vonandi hefur einhver gaman af því að lesa þetta raus í mér. Allavega ég seinna meir.