Blog

Innbyrðing á íslenskri menningu: ófagmennska og steypiboð

Áður en ég byrjaði í ritlist vann ég á vinnustöðum þar sem enska var fyrsta mál. Þetta er algengt í hugbúnaðargeiranum þar sem oft vinnur erlent starfsfólk með sérþekkingu. Þetta var sérstaklega strangt hjá Plain Vanilla þar sem var með mikið af útlendingum í vinnu og við vildum ekki að þau upplifðu sig utanveltu. Það gerðist oftar en ég hef tölu á að eftir 10 mínútur af enskumælandi fundi fattaði einhver að við vorum öll Íslendingar á fundinum. Ég las mjög mikið á ensku á þessum tíma, enda mikil áhugamanneskja um sæfæ og fantasíur og af þeim er ekki mikið til á íslensku (en er sem betur fer að breytast!).

Þegar ég byrjaði í ritlist sá ég að mig vantaði hreinlega mikla þekkingu á íslenskri menningu, var heldur ekki alin upp á menningarheimili eins og alþjóð veit (þó leyndist alveg einhver klassík í bókaskápnum hans pabba, eins og Þrúgur reiðinnar, Ilmurinn og Fávitinn eftir Dostojevksí – ég lagði reyndar aldrei í þá síðastnefndu). Þannig að ég tók mig til og las mikið af íslenskum bókum og gleypti í mig menningarþætti eins og Kiljuna og Lestina og heyrði fyrst um útvarpsþáttinn Orð um bækur – þáttur sem ég held að margir utan bókmenntakreðsunnar viti hreinlega ekki af. Eftir 2 ár af þessari innbyrðingu gat ég loks farið að mynda mér mína eigin skoðun á mörgu í íslenskri menningu og geta sigtað út það sem mér finnst aktjúallí gott.

Ljóðabókahillan mín og hluti af vísíndaskáldsögunum mínum

Ég hef annars eiginlega ekkert hlustað á Lestina síðan kúltúrbarnaumræðan hófst. Fyrir utan hvað mér finnst bókmenntir fá litla athygli í þætti sem fjallar um menningu blöskraði mér hversu ófagmannlega var staðið að þeirri umræðu. Eftir að Auður Jóns svaraði bloggpóstinum mínum málefnalega á sínu Facebook hringdi Lóa Björk hjá Lestinni í mig og stakk upp á eins konar panel-umræðu um efnið. Ég var til í það, og við vorum báðar sammála um að fá einhvern annan en Auði svo að umræðan yrði ekki persónuleg því þetta málefni og gagnrýni mín er svo miklu stærra en ein manneskja. Daginn eftir, 2 tímum fyrir viðtalið, hefur Lóa Björk svo samband, segist vera búin að skipta um skoðun og vilja fá Auði líka og var búin að hafa samband við hana! Við skulum halda því til haga að ég er nýkomin út á ritvöllinn en Auður er búin að spila þar í 25 ár og ég treysti mér ekki til að tala við hana í útvarpinu um þetta. Lestin hafði stuttu áður verið með mjög málefnalega umræðu um aðgengi og birtingarmyndir fatlaðs fólks í leiklistinni og þá fengu þau EKKI Nínu Hjálmarsdóttir gagnrýnanda og Unni Ösp leikstjóra til að ræða málin. Eftir á að hyggja hefði ég ekkert endilega verið sú besta í þetta heldur. Síðan fór eins og ég óttaðist – umræðan varð persónuleg og svo fór sem fór.

En í dag ákvað ég að hlusta til að heyra pistil frá Jakubi Stachowiak, pólsku ljóðskáldi sem ég kynntist á ljóðahittingum og í ritlist og er algjört gull af manni, og þátturinn í gær var stórgóður! Pistillinn hans Jakubs er mjög flottur, besti gestapistill sem ég hef heyrt þar um langa hríð: um reynslu hans í Covid af lögregluríkinu Abú Dabí þar sem hinsegin fólk fremur glæp með því einu að stíga á jörðina í landinu, síðan var áhugaverður pistill um Tom Waits (sem ég er alltaf á leiðinni að fara að hlusta meira á) og síðast var það umfjöllun Lóu Bjarkar og Hugrúnar Snorradóttur um steypiboð, eða baby-shower, sem mér finnst stórmerkilegt fyrirbæri og er eiginlega bara svolítið á móti.

Það eru að verða 17 ár síðan ég átti Adam og þá var þessi hefð ekki komin til Íslands. Ég hef aldrei farið í steypiboð svo fyrir mér er þetta konsept framandi og kjánalega bandarískt. Ég var mjög sammála umræðunni í Lestinni um að þessi hefð væri líka skref til baka í jafnréttisbaráttunni: konur að halda boð fyrir mömmuna. Eins og væntanleg barneign komi pabbanum eða öðrum körlum í lífi barnsins ekkert við. Svo eru víst líka einhverjir sem halda steypiboð fyrir pabbann, eða daddy-shower, en þá er víst minni áhersla á barnið og meiri á pabbann. Ég hef engan áhuga á barneignum og mjög takmarkaðan áhuga á ungbörnum og finnst alveg nóg að gefa sængurgjöf og/eða nafnaveislugjöf, sem getur bara verið peningur (en mér skilst að gjafirnar í steypiboðum séu frekar hlutir sem barnið þarf að nota og maður þarf þá að setja sig inn í). Mér finnst líka pirrandi með þessa kynjaskiptingu að það sé verið að gera þá kröfu á konur að taka þátt í þessu (og hafa áhuga) meðan karlmenn fá að sleppa (svo eru líka til karlmenn sem hafa mikinn áhuga á barneignum og börnum). Það galnasta sem ég hef heyrt er að samstarfskonum á vinnustað sé boðið í svona steypiboð (sem eru btw alltaf haldin óvænt fyrir mömmuna). Ég myndi mæta í steypiboð hjá mínum nánustu vinkonum en aldrei hjá neinum öðrum. Við þurfum ekki enn eitt klassíska íslenska fermingarboðið sem engan langar til að fara í né halda.

Að „skrifa“ skáldsögu

Ég er að vinna að minni fyrstu skáldsögu og ferlið er allt öðruvísi en að skrifa ljóð eða smásögur. Þegar fólk spyr mig hvernig gengur veit ég eiginlega ekki hverju ég á að svara. Ég byrjaði með þessa hugmynd fyrir rúmlega ári og skrifaði rúmlega 20.000 orð. Ég var alveg komin með allt í lagi beinagrind og nokkrar spennandi senur en var ekki alveg að ná að skrifa nógu áhugaverðar persónur eða söguþráð og rakst á vegg. Síðan breytti ég hugmyndinni þó nokkuð og er núna komin með mjög spennandi söguþráð, heim og aðalpersónu og hennar baksögu. Við Steinar áttum mjög góða hugmyndavinnu á Tene (oft með freyðivíni, mjög góð leið til að fá hugmyndir) og nú er ég að reyna að koma þessu niður á blað.

Tenetásur og dúfa í hugmyndavinnu

Sumir rithöfundar setjast alltaf niður á morgni og skrifa X mörg orð, aðrir taka tarnir og skrifa fram á rauða nótt, sumir handskrifa (sem mér finnst algjör geðveiki) og enn aðrir gera eitthvað allt annað. Ég er enn að finna út hvernig mín rútína er (fyrir þessa bók allavega). Eftir að við komum frá Tælandi náði ég ágætis rútínu og skrifaði 1000 orð fyrir hádegi og vann svo í launuðu vinnunni minni eftir hádegi. Ég tók líka þriggja daga helgi ein í sumarbústað í janúar og skrifaði 5000 orð – sem var markmiðið mitt.

Í þessum skrifum var ég ekki að skrifa vel heldur að skrifa út söguþráðinn. Það er mjög erfitt að skrifa ekki vel, en það er alltaf möguleiki á þessu stigi að ég muni henda því sem ég er að skrifa svo mér finnst meika sens að eyða ekki of miklum tíma í eitthvað dútl. „Kill your darlings“ segir Stephen King um að skrifa og það hef ég sannarlega verið að læra. Það er bara partur af ferlinu að henda texta (eða geyma hann í öðru skjali í tölvunni í þeirri von að eitthvað í honum verði nothæft síðar). Eftir Tene-hugmyndavinnuna er ég líklegast að fara að henda öllu sem ég skrifaði í des og jan. EN það var samt ekki til einskis, hugmyndin mín er að þróast og ítrast í hvert skipti sem ég sest niður og vinn að henni og ég trúi að með því að eyða nógum tíma í hugmyndina (og gera góða beinagrind) verði lokaútkoman betri.

Ég er heldur ekki að ráðast á garðinn sem hann er lægstur þar sem ég er að skrifa sögu sem gerist í framtíðinni. Ég gæti örugglega sest niður og skrifað raunsæja bók sem gerist í samtímanum og gefið út um jólin en mig langar til að skapa nýjan heim þar sem ég get ákveðið hvernig allt er, samfélag og umhverfi. Stundum verð ég að minna sjálfa mig á það þegar ég stend frammi fyrir enn einni ákvörðuninni um smáatriði í heiminum mínum.

Suma daga get ég sest niður að morgni og skrifað samkvæmt rútínu, en aðra er það bara ekki svo létt. Andinn kemur ekki alltaf þegar kallað er á hann. Núna ætla ég að taka mér tveggja mánaða „ritleyfi“, það er að segja að einbeita mér bara að skrifum og lifa á sparifé og smá airbnb og sjá hvort ég komist ekki á fullt með söguna þá – með allan daginn fyrir mér í að skrifa! Kona verður að bjarga sér þar til hún kemst á ritlaun.

Annars finnst mér vanalega áhugaverðara að heyra um ferlið að skrifa frá rithöfundum sem hafa skrifað margar bækur heldur en nýjum. En það er líka gott að muna hvernig það var að skrifa þá fyrstu – kannski verður ferlið fyrir hverja bók öðruvísi. Vonandi hefur einhver gaman af því að lesa þetta raus í mér. Allavega ég seinna meir.

Það sem ég vildi sagt hafa um kúltúrbörnin …

Um daginn mætti ég í Rauða borðið og spjallaði við Maríu um kúltúrbarnahugtakið. Mig langaði að færa umræðuna aftur til þess sem ég var upprunalega að reyna að koma á framfæri, áður en umræðan afvegaleiddist í persónugervingu kúltúrbarnsins, og segja frá minni upplifun af viðbrögðunum sem bloggpósturinn minn hafði.

Orð sem hitta í mark

Það hefur verið gaman að sjá fólk byrja að nota kúlturbarnahugtakið, bæði til að skilgreina sjálft sig og aðra, en með því setja orð á hluti er auðveldara að tala um þá.

Kúltúrbörn komst inn á lista sem orð ársins, fleiri bloggarar hafa skrifað um það út frá ýmsum sjónarhornum, til dæmis Kennarar, kúltúrbörn og væringjar á Menningarsmygli Ásgeirs H, Okkar eigið kúltúrbarn á bloggi skáldsins Brynjars Jóhannessonar og á Samstöðinni þar sem dæmi má finna um þau fjölmörgu kúltúrbörn í listaheiminum hérlendis (listinn er þó fjarri því að vera tæmandi).

Umræðan um menningarauðmagn og þau völd sem því fylgja er alls ekki ný af nálinni, franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu kom með þessa kenningu á áttunda áratug síðustu aldar, og meira að segja ræddi Auður Jóns þetta í samtali við vinkonu sína, Berglindi Rós, á Kjarnanum fyrir nokkrum árum. Þar er umræðan þó ívíð málefnalegri en hún var núna um jólin. Það er ekki sama hver talar, Berglind eða séra Berglind.

Að komast „inn“

Ég las hressandi grein á Guardian um 10 bestu nýju skáldsagnahöfunda í Bretlandi í ár, en áður hefur þetta árlega val talið til höfunda eins og Sally Rooney og Bonnie Garmus (höfund Inngangs að efnafræði). Í greininni eru stutt viðtöl við alla höfundana og í mörgum þeirra kemur fram hvernig þau fengu útgefna sína fyrstu bók. Þarna úti er útgáfumenningin líka allt öðruvísi, margir þessara höfunda hafa unnið einhvers konar verðlaun fyrir óbirt efni (eins og fyrstu kafla eða smásögu) og aðrir hafa birt greinar í blöðum og þetta er pikkað upp af agentum sem selja bækurnar til útgáfna.

„Agent, hvað er það?“ gæti fólk á Íslandi spurt sig. Það er ekki langt síðan ég skildi þessa menningu. Agentinn berst fyrir hagsmunum höfundar og selur útgáfum réttinn til að gefa handrit út, oft á uppboðum. Agentinn fær prósentu af sölunni svo hans hagsmunir og höfundar fara saman. Útgáfan hefur svo hagsmuna að gæta þar sem hún hefur eytt pening í höfundinn og hefur því mikinn hvata til að ritstýra og markaðssetja bókina vel. Ég hef heyrt að Ísland sé of lítið fyrir agenta-menningu – en ég er ekki alveg sannfærð. Ég held það sé frekar bara að við séum ekki vön þessu hérna og lítill áhugi hjá útgáfunum að breyta kerfinu. Hérlendis virðist lenskan að henda út mörgum bókum og vonast til að fólk bíti á nokkrar þeirra. Um leið og bók fær athygli (verðlaun, umfjöllun, góða sölu) er svo eytt í markaðssetningu á henni svo hún snjóboltast áfram meðan hinar sökkva.

Skemmtilegt er að í þessari grein er einn rithöfundurinn kúltúrbarn, Aidan Cottrell-Boyce, faðir hans er víst frægur handrits- og rithöfundur og hann er spurður hvort það hafi hjálpað eða hindrað skrifum hans. Aidan svarar að það hafi verið hjálplegt á suma vegu en erfitt að standa undir á aðra vegu. Þetta væri flókið. Virðingarvert svar.

Svo er einn höfundur úr verkalýðsstétt, Michael Magee. Hann fær spurninguna hvort hann haldi að bókmenntir séu of mið-stéttar-legar og hann svarar að hann haldi það ekki, hann viti það. „I’m not pissing on anybody else’s success; there are a lot of really good novelists, regardless of background, whose work I really admire. But I think it’s valid to observe a lack of voices from working-class backgrounds, regardless of ethnicity or gender.“

En hvað það væri gaman að lifa í landi þar sem bókmenntaumfjöllun væri svona ítarleg og krítísk og heiðarleg og málefnaleg.

Allavega, eftir þessa grein og í kjölfar umræðunnar um forréttindi kúltúrbarna fór ég að spá hvað sé hægt að gera til að stíga sín fyrstu skref sem rithöfundur, bæði til að gerast betri rithöfundur (fá endurgjöf) og til að fá útgefið og tók saman það sem mér datt í hug.

Einhvern veginn fékk ég þessa umfjöllun í Sunnudagsmogganum þegar ég gaf út Berorðað

Nám í ritlist

Ritlist MA

Margir nýir rithöfundar á Íslandi undanfarin ár hafa komið úr meistaranámi í ritlist við HÍ – þar á meðal ég. Þetta nám var allt það sem ég hefði getað ímyndað mér og meira. Mæli klárlega með. Til að komast inn þarf BA eða BS próf og komast í gegnum inntökuferlið. 16–20 eru tekin inn á hverju ári. Ég fékk neitun í fyrsta sinn, tók svo þá þrjá BA-bókmenntafræðiáfanga sem mig vantaði (því ég var „bara“ með BS) og komst inn í annað sinn. Umsóknir eru sendar inn undir nafni en nafnið er máð áður en þriggja manna inntökunefnd fer yfir, inntökunefndin er líka aldrei eins í hvert sinn sem tryggir fjölbreytileika fólks sem er tekið inn.

Ritlist BA

Það er hægt að taka ritlist sem aukagrein í BA námi í bókmenntafræði, íslensku og ensku að ég held.

Önnur ritlist og námskeið

Það eru ritlistarnámskeið í Endurmenntun og stundum 1–2 daga smiðjur sem ég hef séð auglýst á Facebook. Svikaskáld hafa líka verið með ljóðanámskeið fyrir ungt fólk.

Ritlist er kennd sem val í einhverjum grunnskólum, allavega Hagaskóla. Það væri gaman að vita ef ritlist sé kennd í menntaskólum.

Verðlaun

Verðlaun og styrkir geta verið andlegur styrkur sem og fjárhagslegur og geta (mögulega) hjálpað við að fá handrit útgefið. Sum eru undir dulnefni – sem mér finnst vera frábær leið til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og áhrif frá öðru en textanum sjálfum.

Nýræktarstyrkur

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutar 2–5 Nýræktarstyrkjum á ári, fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri. Hver fær 500.000 kr. Ég held að flest sem vinna og leitast eftir því að vera gefin út fái útgáfu. Nýræktarstyrkhafar voru til dæmis áberandi í jólabókaflóðinu í ár. Mig minnir að þau séu ekki nafnlaus, en endilega leiðréttið mig ef svo er.

Tómasinn

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, að upphæð 1.000.000 kr, eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að ljóðabók sem er sent inn undir dulnefni. Mér hefur þó sýnst að handritin sem hafa unnið hafi verið komin með útgáfusamning áður en verðlaunin eru afhent og þar af leiðandi búið að lesa þau yfir og vinna mikið. Tel allavega að mín ljóðabókahandrit hafi aldrei átt séns.

Ljóðstafur Jóns úr Vör

Kópavogur er árlega með ljóðakeppnina Ljóðstaf Jóns úr Vör þar sem verðlaunagripurinn, Ljóðstafurinn, er í verðlaun. Öllum skáldum er velkomið að taka þátt, ljóðið má bara ekki hafa verið birt, þannig að það getur verið hörð samkeppni. Ljóðið er þó sent undir dulnefni svo það er alltaf séns. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort þessi verðlaun hjálpi mikið til við útgáfu nýrra höfunda en hef heyrt að það geti hjálpað.

Júlíana bókmenntahátíð – ljóð og smásögur

Júlíana – hátíð sögu og ljóða, er með árleg verðlaun, annað hvort ár fyrir smásögu, hitt árið fyrir ljóð, og í verðlaun er gisting á hóteli og út að borða. Mér hefur þó ekki sýnst þetta endilega nein áhrif á útgáfu. Ég var voða ánægð fyrir 2 árum þegar ég fékk símtal um að hafa unnið sérstaka viðurkenningu ásamt 9 öðrum sem náðum ekki inn í efstu þrjú sætin en þóttu samt skara fram úr – en sú gleði var skammvinn þegar viðurkenningarplaggið sem ég átti að fá til að staðfesta þetta kom svo aldrei. En þetta birtist einhvers staðar á internetinu svo ég er nokkuð viss að mig hafi ekki dreymt þetta.

Nýjar raddir

Nýjar raddir er árleg samkeppni sem Forlagið þar sem höfundar sem ekki hafa gefið út fleiri en eitt prósaverk áður hjá forlagi geta sent inn. Þetta er að vissu leyti besta samkeppnin til að vinna því í verðlaun er ritstjórn, útgáfa hjá Forlaginu og 100.000 kr. fyrirframgreiðsla. Handrit eru send inn með nafni höfundar ásamt kynningu. Þetta hentar samt ekki öllum, mér fannst þetta til dæmis ekki henta Breyttu ástandi. Einnig finnst mér skrýtið að það séu lengdar-takmörk (30.000 orð) á handritum.

Eyrað

Storytel hefur verið með keppni núna undanfarin ár, fyrstu árin fyrir handrit að skáldsögu en síðast var það (að mig minnir) fyrir handrit að „hljóðseríu“. Í verðlaun er ritstjórn, framleiðsla, markaðssetning og fyrirframgreiðsla að upphæð 500.000 kr.

Íslensku barnabókaverðlaunin

Forlagið er líka með árlega samkeppni fyrir handrit að barnabók. Vinningshandritið kemur út hjá Forlaginu og höfundur fær 1.000.000 kr. auk höfundarlauna. Sent er inn undir dulnefni.

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Árleg verðlaun fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók. Verðlaun eru 1.000.000 kr.. Sent inn undir dulnefni.

Jóladagatal Borgarbókasafns og Bókmenntaborgar

Reykjavík og Borgarbókasafn auglýsa á hverju ári eftir handritum af jóladagatali (texta og myndum). Dagatalið er aðgengilegt á vef og í hlaðvarpi Borgarbókasafns. Ég veit ekki hvort það sé sent inn nafnlaust eða hvort það sé greitt fyrir það.

Eigin reynsla

Ég vil taka það fram að ég hef sent inn handrit, ljóð og smásögur í allar þessar samkeppnir, oftar en einu sinni (nema Nýjar raddir, Eyrað og barnabókaverðlaun) og aldrei unnið neitt. Ég hugga mig við það að Steinar Bragi hefur heldur aldrei unnið neitt svo það er ekki samasemmerki á milli þess að vinna og vera góður rithöfundur – þótt það sé alltaf gaman að vinna. Það sem skiptir mestu máli er bara að halda áfram að skrifa, skrifa, skrifa, skrifa.

Birting í tímaritum

Þegar ég var að vinna að Berorðað, minni fyrstu ljóðabók, og þekkti ekki neinn í bókmenntaheiminum fékk ég þó ráð hjá þýskum kærasta vinkonu minnar sem var í BA-námi í íslensku sem mælti með að birta ljóð í tímaritum. Ég fékk þá birt í Stínu bókmenntatímariti sem er því miður ekki lengur starfandi. Ég hef einnig birt í Skandala (sem er líka hætt) og í Leirburði, tímariti BA bókmenntanema. Ég er mjög þakklát fyrir þetta ráð því þótt svona birtingar hjálpa ekkert til við útgáfu þá er þetta frábær reynsla – að birta ljóð á prenti fyrir allra augum – þegar maður er að stíga sín fyrstu skref,

En auðvitað er virðingaverst að fá birt í TMM (tímariti Máls og menningar). Ég hef bæði fengið höfnun á efni þar og samþykkt. Ég birti þar eina smásögu úr Breyttu ástandi en verð að viðurkenna að ég fékk engin viðbrögð. Steinar var með sögu í sama tímariti og það sama gerðist fyrir hann. Ég veit ekki hvort að það séu svona fáir sem lesa TMM, fáir sem sýna viðbrögð við efninu þar eða hvort þetta voru bara sögurnar okkar sem vöktu engin viðbrögð.

Fleiri leiðir

Bókasamlagið

Nýlega byrjaði Bókasamlagið sem veitir ráðgjöf og þjónustu til höfunda, sérstaklega þeirra sem gefa út sjálfir. Ráðgjöf um ritstjórn, prófarkalestur, umbrot, markaðssetning og dreifingu. Ég hef ekki nýtt mér þessa þjónustu en þetta hljómar fullkomið fyrir sjálfsútgáfu fyrstu bókar. Þetta er líka mjög næs kaffihús.

Hlaðvarpið Skúffuskáld fjallar um skáld og að stíga sín fyrstu skref, þar var meðal annars talað við Kikku hjá Bókasamlaginu.

Alls konar

Fyrir þau sem skrifa leikrit eru leikhúsin eru líka oft með samkeppnir til að senda inn leikrit, misjafnt er hvaða form er beðið um. Og já, ég hef að sjálfsögðu sent þar inn og fengið höfnun.

Í fyrra rakst ég á eina erlenda samkeppni, First 5 Pages, og fannst tilvalið að fá höfnun erlendis frá. Það tókst! Djók, þetta er bara partur af rithöfundalífinu. Maður er ekki alvöru rithöfundur nema að upplifa reglulega höfnun.

Síðan er langbest að fá yfirlestur! Þegar ég var að vinna að Berorðað hafði enginn lesið ljóðin mín nema fjölskylda og vinir og öllum fannst þetta svo rosa fínt hjá mér sem hjálpaði mér ekki neitt. Ég hugsaði með mér að allar bækur hefðu ritstjóra svo ég fór bara að hafa samband við skáld sem mér líkaði við og bauð þeim litla greiðslu fyrir að lesa yfir fyrir mig. Heiðrún Ólafsdóttir tók það að sér og vá hvað það var geggjað að ræða ljóðin mín við manneskju sem vissi eitthvað um skrif. Ritlistin er svo auðvitað boot-camp í að fá yfirlestur og endurgjöf. Ég hvet höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref að fá yfirlestur frá öðrum rithöfundi. Jafnvel bara prófa að senda á höfund sem ykkur líkar við, hvort sem þið bjóðið greiðslu eða ekki, margir höfundar eru alveg til í að gera þetta þegar þeir hafa tíma. Mér finnst það bæta mig sem rithöfund að lesa yfir fyrir aðra.

Svo er auðvitað bara að senda á útgáfurnar og bíða og vona. Meðmæli frá einhverjum þekktum sem hefur lesið yfir getur verið gagnlegt. Útgáfurnar eru misgóðar í að svara tölvupóstum, það er um að gera að reka bara á eftir meilum, og ef þær lesa handritið yfir getur það tekið alveg 2–3 mánuði (og nokkra tölvupósta til að vera viss að maður hafi ekki gleymst) og vilja helst ekki að annað forlag sé að lesa yfir á sama tíma. Jebbs, þetta er ekki beint uppörvandi ferli. Það þarf taugar og mikla ástríðu til að verða rithöfundur.

Ef ég er að gleyma einhverjum samkeppnum eða leiðum til að vekja athygli á sér og komast „inn“ væri ég endilega til í að heyra það og bæta því við.

(Bloggpósturinn hefur verið uppfærður eftir ábendingar um réttar upplýsingar og fleiri verðlaun)

Svar við pósti Auðar Jóns

Kæra Auður, svo við erum ekki að fara að skrifa bók saman eftir allt?

Þú getur rakið sorgarsögu þína þar til þú ert blá í framan og þóst vita eitthvað um líf mitt. Þú ert samt kúltúrbarn. Það skiptir engu máli hvort ég sé edrú eða ekki, hvort ég sé með rekstur (ég vinn sem frílansari) eða sé einstæð móðir. Þú ert samt kúltúrbarn. Það skiptir ekki máli að þú og Kamilla séu einstæðar mæður. Þið eruð samt kúltúrbörn. Hver gaf þér annars leyfi til að deila þinni útgáfu af mínu lífi með tæplega 5000 fylgjendum á Facebook og er svo pikkað upp af fjölmiðlum?

Það er þitt val að taka þessu svona persónulega, eins og ég hefði sagt að þú værir slæmur rithöfundur, ég hef aldrei sagt hvað mér finnst um það. Þú ert vinsæll metsöluhöfundur með hrúgu af verðlaunum og viðurkenningum, af hverju stendurðu bara ekki með þér og ferð ekki í kerfi þegar bókmenntablað sem þú ritstýrir er gagnrýnt.

Þú talar um ærumeiðingar, var það kafli í bókinni þinni um tjáningarfrelsi? Að þegar ungur rithöfundur sem er að fóta sig í bókmenntaheiminum gagnrýnir valdafólk, séu það ærumeiðingar? Nú skil ég betur af hverju rithöfundar þora ekki að gagnrýna neitt í okkar geira – út af viðbrögðum eins og þínum og hvernig þú notar „menningarauðmagn” þitt til að kæfa gagnrýni.

Umræðan um kúltúrbörn er ekki persónuleg herferð gegn þér eða öðrum kúltúrbörnum sem hafið baköpp í meðfæddu menningarauðmagni (btw, fólk eins og ég sem stend fyrir utan bókmenntaelítuna vissi ekki fyrr en nýlega hvað þetta háfleyga orð þýðir. Eitt dæmi um gjá sem kúlturbarn sér ekki. Fyrir ykkur sem skiljð þetta ekki, þá þýðir þetta það menningarlega ríkidæmi og vald sem fólk hefur – og sem kúltúrbörn fæðast með og aðrir geta að einhverju leyti unnið sér inn – nú eða keypt sér, með því að komast að í menningunni og öðlast virðingu). Heimurinn vill ræða þetta, þótt þú virðist vera ófær um það.

Jólabókaflóðakvíði (og kisur)

Útrás

Þá eru öldurnar að lægja í mínu fyrsta alvöru jólabókaflóði – ég hef jú gefið út tvær ljóðabækur áður en sú fyrsta var sjálfsútgáfa og sú síðari semi-sjálfsútgáfa hjá Blekfjelaginu og sú tilfinning var öðruvísi. Þá var ég þakklát fyrir hvern þann sem keypti bókina og að fá eina umfjöllun einhvers staðar alveg nóg.

En með Breytt ástand er það öðruvísi: fyrsta útgáfa hjá forlagi, smásagnasafn (sem selst betur en ljóðabækur – þó ekki eins vel og skáldsögur) og mér finnst það vandaðra en nokkuð sem ég hef gefið út áður (enda fékk ég ritstjórn hjá Steinari Braga og yfirlestur frá Bergþóru Snæbjörns og Hlín Agnars). Þetta smásagnasafn á það samt sameiginlegt með eldri bókunum mínum að þetta er texti sem varð að koma út; sögur sem mér finnst bara ég get sagt og á máta sem er frekar einstakur (stílbrögðin þ.e.).

Það var mjög þægilegt að vera í Tælandi og fá smá fjarlægð frá bókaflóðinu, því eftir að ég kom heim hef ég þurft að passa mig að drukkna ekki í ölduganginum. Með hverjum verðlaunum, Kilju, bókmenntablaði Stundarinnar, reglulegum innlitum á fréttaveiturnar og Goodreads hefst maður á loft, og brotnar svo oftast með öldunni (smá ýkt, en ljóðskáldið í mér kallar). Síðan er ég auðvitað tvöföld í flóðinu, bæði að fylgjast með minni bók og líka Steinars Braga. Ég stefni ekki hærra en 4 stjörnur og það hefði verið gaman að vera einhver spútnik bók sem hefði dottið inn í einhver verðlaun – annað eins hefur gerst – en ég er samt raunsæ og veit að þetta er mín fyrsta bók í flóðinu og bæði er ég óþekkt nafn og á líka eftir að slípast sem rithöfundur. Verra finnst mér hvað Dáin heimsveldi er að fá litla umfjöllun og sölu; öll umfjöllun sem hún hefur fengið er frábær en hefur birst á fáum stöðum. Ég veit að mitt álit mun alltaf missa smá marks sem kærasta Steinars, en ég stend og fell með því að Dáin heimsveldi er besta bókin í ár og þótt lengra væri litið. Hugmyndaflug, innsæi í mannkyn og framtíð þess, söguþráður, persónusköpun og vitsmunirnir í þessari bók standa hinum framar. En markaðurinn er ekki alltaf rétti fyrir list, þannig er það nú bara. Ég hélt kannski að þar sem sæfæ er orðið svo vinsælt í sjónvarpi og kvikmyndum að fólk myndi taka við sér, en fólk sem les og það sem horfir er kannski ekki sama mengið.

Kúltúrbörnin (eða nepotism)

Ein ástæða þess að mér finnst ég eiga erindi sem rithöfundur er að ég kem ekki af menningar- eða listafólki, ég er hreinræktað verkalýðsbarn en rithöfundum úr verkalýðsstétt fer ört fækkandi. Það er ein af ástæðunum fyrir að ég fór í ritlist, ég þráði að kynnast öðru fólki sem væri að skrifa. Það er mjög erfitt að komast að þegar maður þekkir engan, og ég held að kúltúrbörnin geri sér ekki grein fyrir forréttindunum sem þau fæðast inni í: að fá leiðsögn frá einhverjum sem þekkir geirann, vera umkringdur „réttu” bókmenntunum (og skoðunum á þeim), tengslin og reddingarnar. Í ritlistinni kynntist ég fullt af frábæru fólki og það opnar kannski einhver tækifæri seinna meir, en eins og er, stend ég fyrir utan klíkuna. Svo er það líka bara hvernig maður spilar úr hlutunum, til dæmis myndi ég ekki nota kvót frá Steinari í tengslum við mína bók (þótt hann skrifaði það áður en við byrjuðum saman).

Þetta blasti svo augljóslega við þegar ég las síðasta bókablað Stundarinnar, það var einhvern veginn ekki einu sinni verið að reyna að fela þetta. Í fyrsta lagi er mjög skrýtið að rithöfundur ritstýri bókablaðinu (hagsmunaárekstur, einhver?) en svo sem mjög íslenskt.

  • Auður Jóns ritstýrir, barnabarn Halldórs Laxness
  • Aðalviðtalið í blaðinu er við Halldór teiknara sem var að gefa út bókina Hvað nú – myndasaga um menntun, Halldór frábær maður og teiknari en frekar spes að gefa þessari bók stærsta plássið. Ætli það spili eitthvað inn í að Halldór sé besti vinur fyrrverandi hennar Auðar?
  • Kamilla Einars gefur pabba sínum, Einari Kára, pláss í bókakokteilnum sínum og hrósar aðalfyrirmynd sinni í lífinu, henni Auði, í pistlinum sínum.
  • Hitt viðtalið í blaðinu er við Ragnar Helga og Kjartan Örn Ólafssyni, um minningu foreldra þeirra sem voru bókaútgefendur, fallegt viðtal við fólk sem er fætt inn í geirann.

Það þarf varla að minnast á að Auður og Kamilla eru mjög áberandi í bókmenntum og virðast auðveldlega fá tilnefningar og tækifæri.

Ég hef allavega ekki fengið umfjöllun í þremur bókablöðum Stundarinnar, hverju svo sem það sætir. Auðvitað eiga ekkert allir höfundar „rétt” á því að fá umfjöllun þar en Breytt ástand hefur vakið athygli og fengið lof svo ég já, bjóst eiginlega við að fá gagnrýni þarna.

Þetta eflir mig samt bara í að skrifa betri bækur og stefna líka á útlönd. Geirinn hérna heima er svo pínku pínku lítill.

Kisur

Ef það er eitthvað sem getur peppað mann upp eru það kisur! Á Koh Phi Phi eyju sem við fórum á í Tælandi voru kisur út um allt! Mér leið eins og ég væri komin inn í einhvern annan heim. Ég gúglaði þetta um daginn og þá er reyndar ástæðan að 1000 kisur voru skildar eftir í byrjun Covid-faraldursins þegar eigendurnir, ferðafólk og fólk sem vann í ferðageiranum (öll starfsemi á eyjunni er tengd túrisma) hélt þau þyrftu bara að skreppa í smá tíma sem varð lengri, eins og þau sem hafa ekki grafið yfir Covid-árin muna. En fólkið sem bjó áfram á eyjunni tók sig til, tók að sér ketti og söfnuðu peningi til að fæða villikettina.

Aftur til Bangkok

Ég er ekki duglegur bloggari!! En engar áhyggjur þið öll sem hafið verið að bíða spennt eftir næsta pósti (Íris og Adam allavega…). Hef verið á leiðinni að skrifa annan póst en bara einhvern veginn ekki komist í það. Eftir viku í Phuket á resort hóteli sem var ekki alveg nógu næs (of langt frá bænum og of mikið af háværu nýríku asísku fólki sem hefur engan sans fyrir öðrum – útskýri betur síðar), og kynntumst skuggahliðum Tælands (á leið á pítsu-stað sem ég fann á Google maps lentum við í vændishverfi … BARA eldri hvítir karlmenn, rauðbirknir í yfirvigt, og ungar tælenskar konur … það var óhugnalega óþægilegt, verst var samt að sjá einn hvítan miðaldra mann með unglingstelpu á pitsastaðnum, þá var okkur alveg nóg boðið og fórum skelkuð heim) skelltum við okkur til Koh Phi Phi!

Ef einhver hefur horft á kvikmyndina The Beach, þá er sú strönd á einni af Phi Phi eyjunum, kaldhæðnislega er sú strönd orðin að einni fjölmennustu túrista ströndinni og það má ekki einu sinni fara út í sjóinn.

Maya beach – The Beach ströndin

Það var mjög næs á Koh Phi Phi, umhverfið er PARADÍS, þá síðan urðum við fljótt þreytt á því að vera í svona miklum túristabæ! Það var líka mjög heitt og hótelið sem við vorum búin að bóka fyrstu tvær næturnar var svo ekki laust þegar við komum (klassískt asískt kaos) svo það fór mikill tími – eða réttara sagt ORKA sem er ekki mikið af í 30 stiga hita og raka – í að bóka hótel næstu 5 nætur, við fórum á milli 3 staða, fyrst herbergi sem kostaði bara 2500 kr. nóttin og var alveg furðu fínt – en að sjálfsögðu engin sundlaug eða þjónusta. Við erum alveg orðin háð því að komast í sundlaug í þessum hita … sem betur fer var hægt að kaupa sundlaugar aðgang á nokkrum stöðum.

Verð svo að gera sér póst um allar kisurnar á Koh Phi Phi!!!! Það voru bókstaflega kisur ALLS STAÐAR! Ekki hægt að ímynda sér yndislegri stað 😀

En nú vorum við farin að þrá að komast aftur í stórborg og úr túrismanum, svo við skelltum okkur til Kúala Lúmpur sem er bara í 2 tíma flugi frá Krabi (sem er 2 tíma sigling frá Koh Phi Phi). Við vorum í Malasíu í 5 daga en vorum að koma til Bangkok aftur í dag og verðum hér næstu 6 daga, svo hefst ferðalagið aftur heim. Í stuttu máli var ég mjög glöð að hafa farið til KL en er miklu hrifnari af Bangkok, hér er allt svo frjálst og yndislega kaotískt (sem maður bölvar alveg stundum samt á ferðalaginu, þvöl, heit og þreytt ;)).

Sundlaug á 40. hæð á hótelinu í KL
Batu Caves – góð ástæða til að heimsækja Kuala Lumpur

Þetta átti bara að vera smá tékk inn póstur!! Skrifa meira um alla þessa staði síðar! Erum btw komin á mjög næs hótel núna, herbergið er með skrifborði sem kallar á að vera skrifað við!!

P.S. ég er í alvöru ekki ein á ferðalagi að ímynda mér að ég sé með Steinari Braga, hann vill bara ekki að internetlöggan sé að fylgjast með sér.

Bangkok beint í æð

Þá erum við búin að vera 5 daga á hóteli í Bangkok, strax búin að koma okkur upp vana: vakna um 6, morgunverðarhlaðborð kl. 6:30, liggja við sundlaug og lesa, ræktin, sitja smá í lobbýinu í tölvu, fara út að sýsla (og labba!). Það er eitthvað öryggi í vananum, þannig einföldum við hlutina og höfum meiri tíma til að hugsa um aðra hluti sem skipta máli. Einhver staðar las ég að ef ekki væri fyrir vanann væru ekki til vísindi eða listir.

Það er búið að vera mjög næs hér en við erum bæði tilbúin að halda áfram næsta áfangastað: Phuket! Þar verðum við í viku á resort hóteli við strönd.

Miðbæir og verslunarhverfi í Evrópu eru hverju öðru lík, svo það er mjög hressandi að vera hér í allt öðruvísi menningu. Við lentum til dæmis óvænt í Pokemon Go skreyttri lest um daginn.

Í fyrradag fékk ég alveg Bangkok beint í æð, við fórum með vatnastrætó upp eftir ánni, stoppuðum við í hofi (þar sem líkamsleifar Búdda liggja – en því halda einnig fram um hundruð annarra hofa í Asíu), fórum í bakpokahverfið, Khao San þar sem Steinar var kominn á Endurminningar Slóð, hann bjó þar í nokkra mánuði á einum af sínum fyrstu ferðalögum í Tælandi. Þar byrjar líka eftirminnilega kvikmyndin The Beach með Leonardo DiCaprio. Þar er mikið af vestrænum túristum og voða kósý – í útjaðrinum – fórum í notaða bókabúð og keyptum alltof mikið af bókum, ég man ekkivarla hvað ég keypti, jú, gamla sæfæ bók með Ray Bradbury, Hyperspace eftir framtíðarfræðinginn Michio Kaku, ljóðabókina Citizen: An American Lyric eftir Claudiu Rankine, The Passage eftir Justin Cronin og einhverjar fleiri. Þær verða samt aðeins að bíða, ég er að klára bókina White Teeth eftir Zadie Smith (sem er btw mjög góð, ótrúlega góð persónusköpun) og næst á listanum er Lungu eftir Pedro Gunnlaug Garcia. Steinar er búinn með hana og er mjög hrifinn. Ég er mjög spennt fyrir henni, fyrri bók hans Málleysingjarnir er ótrúlega góð og hressandi, svo ég hef beðið í ofvæni eftir næstu bók frá honum.

En aftur til Bangkok, frá kósý hverfinu fórum við á Khao San Road, aðalgötuna, og guð minn góður, ég hef aldrei upplifað annað eins álag á skynfærin! Ég get eiginlega ekki lýst því en ætla að reyna: Það var alveg stappað, maður leiddist bara áfram með mannþvögunni, meðfram báðum megin var starfsfólk skemmtistaðanna (allt mjög ungt fólk) að reyna að lokka mann inn á næsta stað, hávær tónlist úr öllum áttum (ég skil ekki hvernig fólk gat setið og talað saman, við Steinar þurftum að tala með líkamstjáningu), básar með grilluðum sporðdrekum og köngulóm, mat, drykk, kannabis, uppi á borði stóð ungur tælenskur strákur að syngja í míkrófón, leiser ljós, DJAMM! Það var svo mikið í gangi, svo mikið að taka inn, að okkur datt ekki einu sinni í hug að taka myndir. Mjög gaman að labba í gegn, en svo þurftum við að labba aftur til baka seinna um kvöldið og þá sogaði umhverfið til sín þá litlu orku sem ég átti eftir. Við tókum svo Tuk tuk heim (Steinar er góður að prútta svo það var mjög ódýrt) og það var líka mjög skemmtileg upplifun.

Í gær fórum við svo í verslunarleiðangur (það er eiginlega ekki hægt að vera úti á daginn þegar það er heitast, þá eru loftkældar kringlur alveg málið) og komum heim um 9 leytið og ég var svo þreytt að ég var dottandi í hálftíma þar til ég játaði mig sigraða og fór að sofa. Steinar sofnaði líka strax, þetta var fyrsta nóttin sem við náðum alveg fullum svefn. Ótrúlegt hvað þotuþreytan situr í manni!

Bangkok í þotuþreytu

Við Steinar komum til Bangkok í gær, eða fyrir tveimur dögum á íslenskum tíma, og erum enn að kljást við þotuþreytuna. Rotuðumst skyndilega klukkan sjö um kvöld áðan, líkaminn hefur haldið að við værum búin að vaka heila nótt. Magnað hvað tímabeltismunurinn ruglar alltaf í manni.

3 tíma flug til London (Luton svo rúta til Heathrow) svo 12 tíma flug þaðan til Bangkok með Eva airlines, ekki-lágfargjaldsflugfélagi. Tveir málsverðir innifalnir, skjár í sæti, ágætis sæti og rakakrem inni á baði. Við vorum minnt á hversu margar slæmar bíómyndir eru til, byrjuðum á Moonfall (alveg hræðilega illa skrifuð), Bullet Train og svo kíkti ég líka á Elvis, en gafst upp á þeim öllum. Byrjaði á Driving My Car, 3 tíma bíómynd byggð á smásögu eftir Murakami, sem ég ætla að klára síðar þí ég hafi ekki enst núna – hún er á mjög rólegu tempói. Þá er nú gott að vera með bækur með sér, ég er að klára þriðju bókina í Night’s Dawn trílógíunni eftir Peter Hamilton (er að lesa hana í annað sinn) og sem betur fer er hún líka sem rafbók á Scribd, það hefði verið brösulegt að fara með 1300 bls. kilju-hlunkinn með mér. Þetta er alveg frábær geimópera – en svona við annan lestur verð ég að viðurkenna að Hamilton hefði alveg mátt skrapa 2-300 blaðsíður af hverri bók (þær eru allar af þessari lengd). Svo gluggaði ég á leiðinni í nýtt smáprósasafn eftir Gyrði Elíasson, Þöglu myndirnar, sem Steinar keypti í fríhöfninni. Ég varð fyrir smá vonbrigðum með það, þetta er meira eins og brandarabók fyrir gáfaða fólkið heldur en prósar. En það er gott að lesa íslenskuna, það er alveg nauðsynlegt þegar ég er að skrifa.

Þetta er fyrsta skipti sem ég ferðast út fyrir vestræna menningu. Tími til kominn að fara út fyrir boxið sem maður er fæddur í! Fólkið hérna er voða rólegt og kurteist, fallegt og fíngert. Engin egó eins og á Vesturlöndum. Okkur Steinari líður báðum vel í þessu umhverfi. Fyrsta kvöldið fórum við á þakbar á hótelinu og mér leið eins og ég væri í sæfæ mynd. Barinn var reyndar mjög dýr, nánast íslensk verð! Enda gerðum við vel við okkur fyrstu dagana og erum á mjög fínu Hilton hóteli við ána.

Við vöknuðum klukkan 6 í morgun og fórum á besta morgunverðahlaðborð sem ég hef farið á! Allt frá eggjum, beikonum og jógúrti til sushi og indversks matar. Smakkaði í fyrsta skipti ferskt papaya og namm hvað það var gott. Við borðuðum svo mikið að næsti málsverður var ekki fyrr en seint um kvöld, grilluð bbq spjót í lítilli kringlu hér rétt hjá, þar sem er götumatur, en samt allt hreint og fínt.

Steinar vann því miður ekki bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Truflunina, en fékk að vita sama kvöld að það er búið að ráða mjög flotta handritshöfunda fyrir Truflunina! Sömu og skrifuðu Humans. Það þýðir að það sé enn líklegra að hún fari í framleiðslu. Fyrir þá sem ekki vita er framleiðslufyrirtæki í Hollywood – eOne sem meðal annars Peter Dinklage stjórnar búið að kaupa réttinn til að búa til sjónvarpsþætti eftir bókinni. Ég verð að minnast á að þegar Steinar fékk persónulegan tölvupóst frá Peter að hrósa Trufluninni fékk ég stjörnur í augun. Við vorum sammála um að þessar fréttir hefðu verið betri en verðlaunin.

Það eru mjög þægilegar samgöngur hér, „Sky train“ lestir þar sem útsýnið yfir borgina er frábært. Þar sem það kostar 1000 krónur á dag að geta notað símanetið (það er ekki einu sinni í boði reyndar hjá Hringdu sem er símafyrirtækið mitt) erum við að prófa að vera netlaus. Þá er mjög gott að hafa góðar samgöngur! Ég er mjög háð því að nota Google maps á ferðalögum og var smá stressuð fyrir þessu, en svo er þetta lítið mál – bara smá skipulagning. Annars tókum við því rólega í dag, fórum í eina kringlu en vorum of þreytt fyrir nokkuð annað en að fara í bókabúð. Ég keypti tvær sæfæ bækur sem ég held að verði innblástur fyrir söguna sem ég er að skrifa, svo myndasögu fyrir Adam. Við ætlum svo aftur seinna að kaupa meira. Það er mjög hentugt hvað við Steinar elskum bæði jafn mikið að versla bækur!

Við lágum við sundlaugina í dag eftir verslunarferðina. Minnst í sól, það er eiginlega bara of heitt og líka gott að fara sér rólega í sólinni (Steinar er skynsamur með það, passar að ég brenni ekki). Ég fékk mér reyndar smá vorrúllur þar, ég er með lágan blóðsykur og annað hvort sóna ég út eða verð hangry þegar ég borða ekki reglulega.

Það er rúmlega 30 stiga hiti á daginn

Þetta er kannski ekkert mjög spennandi blogg enn sem komið er en ég held það verði gaman að eiga svona ferðadagbók seinna meir. 🙂

Ég verð svo að enda á mynd af hótelganginum, en hann er nánast alveg eins og í Ruben Östlund myndinni: Force Majeure!