Útrás
Þá eru öldurnar að lægja í mínu fyrsta alvöru jólabókaflóði – ég hef jú gefið út tvær ljóðabækur áður en sú fyrsta var sjálfsútgáfa og sú síðari semi-sjálfsútgáfa hjá Blekfjelaginu og sú tilfinning var öðruvísi. Þá var ég þakklát fyrir hvern þann sem keypti bókina og að fá eina umfjöllun einhvers staðar alveg nóg.
En með Breytt ástand er það öðruvísi: fyrsta útgáfa hjá forlagi, smásagnasafn (sem selst betur en ljóðabækur – þó ekki eins vel og skáldsögur) og mér finnst það vandaðra en nokkuð sem ég hef gefið út áður (enda fékk ég ritstjórn hjá Steinari Braga og yfirlestur frá Bergþóru Snæbjörns og Hlín Agnars). Þetta smásagnasafn á það samt sameiginlegt með eldri bókunum mínum að þetta er texti sem varð að koma út; sögur sem mér finnst bara ég get sagt og á máta sem er frekar einstakur (stílbrögðin þ.e.).

Það var mjög þægilegt að vera í Tælandi og fá smá fjarlægð frá bókaflóðinu, því eftir að ég kom heim hef ég þurft að passa mig að drukkna ekki í ölduganginum. Með hverjum verðlaunum, Kilju, bókmenntablaði Stundarinnar, reglulegum innlitum á fréttaveiturnar og Goodreads hefst maður á loft, og brotnar svo oftast með öldunni (smá ýkt, en ljóðskáldið í mér kallar). Síðan er ég auðvitað tvöföld í flóðinu, bæði að fylgjast með minni bók og líka Steinars Braga. Ég stefni ekki hærra en 4 stjörnur og það hefði verið gaman að vera einhver spútnik bók sem hefði dottið inn í einhver verðlaun – annað eins hefur gerst – en ég er samt raunsæ og veit að þetta er mín fyrsta bók í flóðinu og bæði er ég óþekkt nafn og á líka eftir að slípast sem rithöfundur. Verra finnst mér hvað Dáin heimsveldi er að fá litla umfjöllun og sölu; öll umfjöllun sem hún hefur fengið er frábær en hefur birst á fáum stöðum. Ég veit að mitt álit mun alltaf missa smá marks sem kærasta Steinars, en ég stend og fell með því að Dáin heimsveldi er besta bókin í ár og þótt lengra væri litið. Hugmyndaflug, innsæi í mannkyn og framtíð þess, söguþráður, persónusköpun og vitsmunirnir í þessari bók standa hinum framar. En markaðurinn er ekki alltaf rétti fyrir list, þannig er það nú bara. Ég hélt kannski að þar sem sæfæ er orðið svo vinsælt í sjónvarpi og kvikmyndum að fólk myndi taka við sér, en fólk sem les og það sem horfir er kannski ekki sama mengið.
Kúltúrbörnin (eða nepotism)
Ein ástæða þess að mér finnst ég eiga erindi sem rithöfundur er að ég kem ekki af menningar- eða listafólki, ég er hreinræktað verkalýðsbarn en rithöfundum úr verkalýðsstétt fer ört fækkandi. Það er ein af ástæðunum fyrir að ég fór í ritlist, ég þráði að kynnast öðru fólki sem væri að skrifa. Það er mjög erfitt að komast að þegar maður þekkir engan, og ég held að kúltúrbörnin geri sér ekki grein fyrir forréttindunum sem þau fæðast inni í: að fá leiðsögn frá einhverjum sem þekkir geirann, vera umkringdur „réttu” bókmenntunum (og skoðunum á þeim), tengslin og reddingarnar. Í ritlistinni kynntist ég fullt af frábæru fólki og það opnar kannski einhver tækifæri seinna meir, en eins og er, stend ég fyrir utan klíkuna. Svo er það líka bara hvernig maður spilar úr hlutunum, til dæmis myndi ég ekki nota kvót frá Steinari í tengslum við mína bók (þótt hann skrifaði það áður en við byrjuðum saman).
Þetta blasti svo augljóslega við þegar ég las síðasta bókablað Stundarinnar, það var einhvern veginn ekki einu sinni verið að reyna að fela þetta. Í fyrsta lagi er mjög skrýtið að rithöfundur ritstýri bókablaðinu (hagsmunaárekstur, einhver?) en svo sem mjög íslenskt.
- Auður Jóns ritstýrir, barnabarn Halldórs Laxness
- Aðalviðtalið í blaðinu er við Halldór teiknara sem var að gefa út bókina Hvað nú – myndasaga um menntun, Halldór frábær maður og teiknari en frekar spes að gefa þessari bók stærsta plássið. Ætli það spili eitthvað inn í að Halldór sé besti vinur fyrrverandi hennar Auðar?
- Kamilla Einars gefur pabba sínum, Einari Kára, pláss í bókakokteilnum sínum og hrósar aðalfyrirmynd sinni í lífinu, henni Auði, í pistlinum sínum.
- Hitt viðtalið í blaðinu er við Ragnar Helga og Kjartan Örn Ólafssyni, um minningu foreldra þeirra sem voru bókaútgefendur, fallegt viðtal við fólk sem er fætt inn í geirann.
Það þarf varla að minnast á að Auður og Kamilla eru mjög áberandi í bókmenntum og virðast auðveldlega fá tilnefningar og tækifæri.
Ég hef allavega ekki fengið umfjöllun í þremur bókablöðum Stundarinnar, hverju svo sem það sætir. Auðvitað eiga ekkert allir höfundar „rétt” á því að fá umfjöllun þar en Breytt ástand hefur vakið athygli og fengið lof svo ég já, bjóst eiginlega við að fá gagnrýni þarna.
Þetta eflir mig samt bara í að skrifa betri bækur og stefna líka á útlönd. Geirinn hérna heima er svo pínku pínku lítill.
Kisur
Ef það er eitthvað sem getur peppað mann upp eru það kisur! Á Koh Phi Phi eyju sem við fórum á í Tælandi voru kisur út um allt! Mér leið eins og ég væri komin inn í einhvern annan heim. Ég gúglaði þetta um daginn og þá er reyndar ástæðan að 1000 kisur voru skildar eftir í byrjun Covid-faraldursins þegar eigendurnir, ferðafólk og fólk sem vann í ferðageiranum (öll starfsemi á eyjunni er tengd túrisma) hélt þau þyrftu bara að skreppa í smá tíma sem varð lengri, eins og þau sem hafa ekki grafið yfir Covid-árin muna. En fólkið sem bjó áfram á eyjunni tók sig til, tók að sér ketti og söfnuðu peningi til að fæða villikettina.
















Góðan daginn! Hressandi pælingar hér. Og þarfar. En ég ætla að leyfa mér að pæla smá líka, ekki síst þar sem mér finnst aðeins vegið að viðmælendum mínum. Já, Halldór er æskuvinur manns sem ég skildi við fyrir meira en fimm árum. En Halldór er aðeins kunningi minn, ég raunar þekki hann ekki mikið. Ég þekki hins vegar verk hans og mér þykir þessi bók frumlegra en margt annað því höfundur leikur sér að frekar nýstárlegu formi hér á landi. Með bók sem sker sig aldeilis úr að því leyti, auk þess sem myndmál fær fátæklega litla og einhæfa umfjöllun. Að því sögðu þá er ekki hjá því komist þegar maður hefur gefið út bækur í 25 ár að vera á einn eða annan hátt kunnugur mjög mörgum sem gefa út bækur. Hjá sumum hefur maður sofið hjá, rifist við aðra og/eða faðmað þá, ferðast með slatta, drukkið í sig áhrif frá mörgum og svo framvegis. Ég hefði gefið allt fyrir að það hefði verið ritlistarnám í boði þegar ég byrjaði að skrifa, þannig örvandi og á vissan hátt verndaður vettvangur. Ástæða þess að það er viðtal við þessa syni útgefanda er að þeir geta gefið innsýn í sögu og þróun útgáfu á Íslandi, á sérstakan hátt, en tilgangurinn með blaðinu er að sýna aðeins þennan heim, bæði höfunda og bransa, og miklar breytingar sem hafa orðið í honum, einmitt til að reyna að skilja þær. Hvorugur þeirra er að plögga bók. Hvað varðar Kamillu, þá er hún óvenju fyndinn penni og mér finnst að fyndni þurfa að vera með, líka til að tendra áhuga. Og fyllsta ástæða til að hún viðri pistlaskrif eins og henni er lagið, en ég skipti mér ekki af því sem hún skrifar, frekar en af skrifum gagnrýnenda sem koma úr mörgum áttum. Það að ég sé barnabarn afa míns hefur verið notað gegn mér síðan ég man eftir mér, fyrstu árin oft til að gera lítið úr því að ég vildi skrifa, smætta skrifin eða til að gera grín að mér. Svo það eru tvær hliðar á því. Það var ég sem stakk Einari Kárasyni inn sem kokkteili blaðsins á síðustu stundu, því plássið í blaðinu bauð ekki upp á meira, og þetta var skyndiredding, vísun í bók sem kom út fyrir að verða tuttugu árum síðan. Að þessu sögðu minnir mig að einn af gagnrýnendunum sé einmitt að rýna bókina þína fyrir síðasta blaðið af þessum fjórum, en það eru 682 bækur að koma út og aðeins pláss fyrir brot í fjórum blöðum, þar sem ég hef reynt eftir fremsta megni að dreifa rýminu á útgefendur, kyn, tegundir bóka og um leið þjóna aðeins áhuga lesenda líka.
LikeLike
Takk fyrir að gefa þér tíma til að svara Auður. Ég trúi því alveg að það hafi ekki verið með ásettu ráði hvernig efnið í þessu blaði Stundarinnar raðaðist upp en svona kom þetta mér, og mörgum öðrum, samt fyrir sjónir. Kannski hefði verið sniðugra að vísa í einhvern annan en pabba Kamillu við hliðina á prófílmyndinni af henni 🙂 Það er staðreynd að þau sem ég kalla kúlturbörn fái greiðari leið inn í listirnar, þetta er samt alls ekki einskorðað við bókmenntir né við Ísland. Það þýðir ekki að þetta fólk sé ekki með hæfileika heldur einfaldlega að þau fái greiðari leið inn í menninguna, til dæmis að útgefendur gefi sér tíma til að lesa handrit þeirra, þau fá frekar birt í bókmenntatímaritum, nái til fleiri lesenda vegna ættarnafns eða sögu, eða hvað sem það er. Fólk sem stendur fyrir utan fær oft ekki einu sinni svör frá hliðvörðum menningarinnar. Ég vildi bara vekja fólk til meðvitundar um þetta svo að við getum betur reynt að bjóða öllum svipuð tækifæri og virðingu.
LikeLike