Ég las hressandi grein á Guardian um 10 bestu nýju skáldsagnahöfunda í Bretlandi í ár, en áður hefur þetta árlega val talið til höfunda eins og Sally Rooney og Bonnie Garmus (höfund Inngangs að efnafræði). Í greininni eru stutt viðtöl við alla höfundana og í mörgum þeirra kemur fram hvernig þau fengu útgefna sína fyrstu bók. Þarna úti er útgáfumenningin líka allt öðruvísi, margir þessara höfunda hafa unnið einhvers konar verðlaun fyrir óbirt efni (eins og fyrstu kafla eða smásögu) og aðrir hafa birt greinar í blöðum og þetta er pikkað upp af agentum sem selja bækurnar til útgáfna.
„Agent, hvað er það?“ gæti fólk á Íslandi spurt sig. Það er ekki langt síðan ég skildi þessa menningu. Agentinn berst fyrir hagsmunum höfundar og selur útgáfum réttinn til að gefa handrit út, oft á uppboðum. Agentinn fær prósentu af sölunni svo hans hagsmunir og höfundar fara saman. Útgáfan hefur svo hagsmuna að gæta þar sem hún hefur eytt pening í höfundinn og hefur því mikinn hvata til að ritstýra og markaðssetja bókina vel. Ég hef heyrt að Ísland sé of lítið fyrir agenta-menningu – en ég er ekki alveg sannfærð. Ég held það sé frekar bara að við séum ekki vön þessu hérna og lítill áhugi hjá útgáfunum að breyta kerfinu. Hérlendis virðist lenskan að henda út mörgum bókum og vonast til að fólk bíti á nokkrar þeirra. Um leið og bók fær athygli (verðlaun, umfjöllun, góða sölu) er svo eytt í markaðssetningu á henni svo hún snjóboltast áfram meðan hinar sökkva.
Skemmtilegt er að í þessari grein er einn rithöfundurinn kúltúrbarn, Aidan Cottrell-Boyce, faðir hans er víst frægur handrits- og rithöfundur og hann er spurður hvort það hafi hjálpað eða hindrað skrifum hans. Aidan svarar að það hafi verið hjálplegt á suma vegu en erfitt að standa undir á aðra vegu. Þetta væri flókið. Virðingarvert svar.
Svo er einn höfundur úr verkalýðsstétt, Michael Magee. Hann fær spurninguna hvort hann haldi að bókmenntir séu of mið-stéttar-legar og hann svarar að hann haldi það ekki, hann viti það. „I’m not pissing on anybody else’s success; there are a lot of really good novelists, regardless of background, whose work I really admire. But I think it’s valid to observe a lack of voices from working-class backgrounds, regardless of ethnicity or gender.“
En hvað það væri gaman að lifa í landi þar sem bókmenntaumfjöllun væri svona ítarleg og krítísk og heiðarleg og málefnaleg.
Allavega, eftir þessa grein og í kjölfar umræðunnar um forréttindi kúltúrbarna fór ég að spá hvað sé hægt að gera til að stíga sín fyrstu skref sem rithöfundur, bæði til að gerast betri rithöfundur (fá endurgjöf) og til að fá útgefið og tók saman það sem mér datt í hug.

Nám í ritlist
Ritlist MA
Margir nýir rithöfundar á Íslandi undanfarin ár hafa komið úr meistaranámi í ritlist við HÍ – þar á meðal ég. Þetta nám var allt það sem ég hefði getað ímyndað mér og meira. Mæli klárlega með. Til að komast inn þarf BA eða BS próf og komast í gegnum inntökuferlið. 16–20 eru tekin inn á hverju ári. Ég fékk neitun í fyrsta sinn, tók svo þá þrjá BA-bókmenntafræðiáfanga sem mig vantaði (því ég var „bara“ með BS) og komst inn í annað sinn. Umsóknir eru sendar inn undir nafni en nafnið er máð áður en þriggja manna inntökunefnd fer yfir, inntökunefndin er líka aldrei eins í hvert sinn sem tryggir fjölbreytileika fólks sem er tekið inn.
Ritlist BA
Það er hægt að taka ritlist sem aukagrein í BA námi í bókmenntafræði, íslensku og ensku að ég held.
Önnur ritlist og námskeið
Það eru ritlistarnámskeið í Endurmenntun og stundum 1–2 daga smiðjur sem ég hef séð auglýst á Facebook. Svikaskáld hafa líka verið með ljóðanámskeið fyrir ungt fólk.
Ritlist er kennd sem val í einhverjum grunnskólum, allavega Hagaskóla. Það væri gaman að vita ef ritlist sé kennd í menntaskólum.
Verðlaun
Verðlaun og styrkir geta verið andlegur styrkur sem og fjárhagslegur og geta (mögulega) hjálpað við að fá handrit útgefið. Sum eru undir dulnefni – sem mér finnst vera frábær leið til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og áhrif frá öðru en textanum sjálfum.
Nýræktarstyrkur
Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutar 2–5 Nýræktarstyrkjum á ári, fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri. Hver fær 500.000 kr. Ég held að flest sem vinna og leitast eftir því að vera gefin út fái útgáfu. Nýræktarstyrkhafar voru til dæmis áberandi í jólabókaflóðinu í ár. Mig minnir að þau séu ekki nafnlaus, en endilega leiðréttið mig ef svo er.
Tómasinn
Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, að upphæð 1.000.000 kr, eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að ljóðabók sem er sent inn undir dulnefni. Mér hefur þó sýnst að handritin sem hafa unnið hafi verið komin með útgáfusamning áður en verðlaunin eru afhent og þar af leiðandi búið að lesa þau yfir og vinna mikið. Tel allavega að mín ljóðabókahandrit hafi aldrei átt séns.
Ljóðstafur Jóns úr Vör
Kópavogur er árlega með ljóðakeppnina Ljóðstaf Jóns úr Vör þar sem verðlaunagripurinn, Ljóðstafurinn, er í verðlaun. Öllum skáldum er velkomið að taka þátt, ljóðið má bara ekki hafa verið birt, þannig að það getur verið hörð samkeppni. Ljóðið er þó sent undir dulnefni svo það er alltaf séns. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort þessi verðlaun hjálpi mikið til við útgáfu nýrra höfunda en hef heyrt að það geti hjálpað.
Júlíana bókmenntahátíð – ljóð og smásögur
Júlíana – hátíð sögu og ljóða, er með árleg verðlaun, annað hvort ár fyrir smásögu, hitt árið fyrir ljóð, og í verðlaun er gisting á hóteli og út að borða. Mér hefur þó ekki sýnst þetta endilega nein áhrif á útgáfu. Ég var voða ánægð fyrir 2 árum þegar ég fékk símtal um að hafa unnið sérstaka viðurkenningu ásamt 9 öðrum sem náðum ekki inn í efstu þrjú sætin en þóttu samt skara fram úr – en sú gleði var skammvinn þegar viðurkenningarplaggið sem ég átti að fá til að staðfesta þetta kom svo aldrei. En þetta birtist einhvers staðar á internetinu svo ég er nokkuð viss að mig hafi ekki dreymt þetta.
Nýjar raddir
Nýjar raddir er árleg samkeppni sem Forlagið þar sem höfundar sem ekki hafa gefið út fleiri en eitt prósaverk áður hjá forlagi geta sent inn. Þetta er að vissu leyti besta samkeppnin til að vinna því í verðlaun er ritstjórn, útgáfa hjá Forlaginu og 100.000 kr. fyrirframgreiðsla. Handrit eru send inn með nafni höfundar ásamt kynningu. Þetta hentar samt ekki öllum, mér fannst þetta til dæmis ekki henta Breyttu ástandi. Einnig finnst mér skrýtið að það séu lengdar-takmörk (30.000 orð) á handritum.
Eyrað
Storytel hefur verið með keppni núna undanfarin ár, fyrstu árin fyrir handrit að skáldsögu en síðast var það (að mig minnir) fyrir handrit að „hljóðseríu“. Í verðlaun er ritstjórn, framleiðsla, markaðssetning og fyrirframgreiðsla að upphæð 500.000 kr.
Íslensku barnabókaverðlaunin
Forlagið er líka með árlega samkeppni fyrir handrit að barnabók. Vinningshandritið kemur út hjá Forlaginu og höfundur fær 1.000.000 kr. auk höfundarlauna. Sent er inn undir dulnefni.
Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur
Árleg verðlaun fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók. Verðlaun eru 1.000.000 kr.. Sent inn undir dulnefni.
Jóladagatal Borgarbókasafns og Bókmenntaborgar
Reykjavík og Borgarbókasafn auglýsa á hverju ári eftir handritum af jóladagatali (texta og myndum). Dagatalið er aðgengilegt á vef og í hlaðvarpi Borgarbókasafns. Ég veit ekki hvort það sé sent inn nafnlaust eða hvort það sé greitt fyrir það.
Eigin reynsla
Ég vil taka það fram að ég hef sent inn handrit, ljóð og smásögur í allar þessar samkeppnir, oftar en einu sinni (nema Nýjar raddir, Eyrað og barnabókaverðlaun) og aldrei unnið neitt. Ég hugga mig við það að Steinar Bragi hefur heldur aldrei unnið neitt svo það er ekki samasemmerki á milli þess að vinna og vera góður rithöfundur – þótt það sé alltaf gaman að vinna. Það sem skiptir mestu máli er bara að halda áfram að skrifa, skrifa, skrifa, skrifa.
Birting í tímaritum
Þegar ég var að vinna að Berorðað, minni fyrstu ljóðabók, og þekkti ekki neinn í bókmenntaheiminum fékk ég þó ráð hjá þýskum kærasta vinkonu minnar sem var í BA-námi í íslensku sem mælti með að birta ljóð í tímaritum. Ég fékk þá birt í Stínu bókmenntatímariti sem er því miður ekki lengur starfandi. Ég hef einnig birt í Skandala (sem er líka hætt) og í Leirburði, tímariti BA bókmenntanema. Ég er mjög þakklát fyrir þetta ráð því þótt svona birtingar hjálpa ekkert til við útgáfu þá er þetta frábær reynsla – að birta ljóð á prenti fyrir allra augum – þegar maður er að stíga sín fyrstu skref,
En auðvitað er virðingaverst að fá birt í TMM (tímariti Máls og menningar). Ég hef bæði fengið höfnun á efni þar og samþykkt. Ég birti þar eina smásögu úr Breyttu ástandi en verð að viðurkenna að ég fékk engin viðbrögð. Steinar var með sögu í sama tímariti og það sama gerðist fyrir hann. Ég veit ekki hvort að það séu svona fáir sem lesa TMM, fáir sem sýna viðbrögð við efninu þar eða hvort þetta voru bara sögurnar okkar sem vöktu engin viðbrögð.
Fleiri leiðir
Bókasamlagið
Nýlega byrjaði Bókasamlagið sem veitir ráðgjöf og þjónustu til höfunda, sérstaklega þeirra sem gefa út sjálfir. Ráðgjöf um ritstjórn, prófarkalestur, umbrot, markaðssetning og dreifingu. Ég hef ekki nýtt mér þessa þjónustu en þetta hljómar fullkomið fyrir sjálfsútgáfu fyrstu bókar. Þetta er líka mjög næs kaffihús.
Hlaðvarpið Skúffuskáld fjallar um skáld og að stíga sín fyrstu skref, þar var meðal annars talað við Kikku hjá Bókasamlaginu.
Alls konar
Fyrir þau sem skrifa leikrit eru leikhúsin eru líka oft með samkeppnir til að senda inn leikrit, misjafnt er hvaða form er beðið um. Og já, ég hef að sjálfsögðu sent þar inn og fengið höfnun.
Í fyrra rakst ég á eina erlenda samkeppni, First 5 Pages, og fannst tilvalið að fá höfnun erlendis frá. Það tókst! Djók, þetta er bara partur af rithöfundalífinu. Maður er ekki alvöru rithöfundur nema að upplifa reglulega höfnun.
Síðan er langbest að fá yfirlestur! Þegar ég var að vinna að Berorðað hafði enginn lesið ljóðin mín nema fjölskylda og vinir og öllum fannst þetta svo rosa fínt hjá mér sem hjálpaði mér ekki neitt. Ég hugsaði með mér að allar bækur hefðu ritstjóra svo ég fór bara að hafa samband við skáld sem mér líkaði við og bauð þeim litla greiðslu fyrir að lesa yfir fyrir mig. Heiðrún Ólafsdóttir tók það að sér og vá hvað það var geggjað að ræða ljóðin mín við manneskju sem vissi eitthvað um skrif. Ritlistin er svo auðvitað boot-camp í að fá yfirlestur og endurgjöf. Ég hvet höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref að fá yfirlestur frá öðrum rithöfundi. Jafnvel bara prófa að senda á höfund sem ykkur líkar við, hvort sem þið bjóðið greiðslu eða ekki, margir höfundar eru alveg til í að gera þetta þegar þeir hafa tíma. Mér finnst það bæta mig sem rithöfund að lesa yfir fyrir aðra.
Svo er auðvitað bara að senda á útgáfurnar og bíða og vona. Meðmæli frá einhverjum þekktum sem hefur lesið yfir getur verið gagnlegt. Útgáfurnar eru misgóðar í að svara tölvupóstum, það er um að gera að reka bara á eftir meilum, og ef þær lesa handritið yfir getur það tekið alveg 2–3 mánuði (og nokkra tölvupósta til að vera viss að maður hafi ekki gleymst) og vilja helst ekki að annað forlag sé að lesa yfir á sama tíma. Jebbs, þetta er ekki beint uppörvandi ferli. Það þarf taugar og mikla ástríðu til að verða rithöfundur.
Ef ég er að gleyma einhverjum samkeppnum eða leiðum til að vekja athygli á sér og komast „inn“ væri ég endilega til í að heyra það og bæta því við.
(Bloggpósturinn hefur verið uppfærður eftir ábendingar um réttar upplýsingar og fleiri verðlaun)