Innbyrðing á íslenskri menningu: ófagmennska og steypiboð

Áður en ég byrjaði í ritlist vann ég á vinnustöðum þar sem enska var fyrsta mál. Þetta er algengt í hugbúnaðargeiranum þar sem oft vinnur erlent starfsfólk með sérþekkingu. Þetta var sérstaklega strangt hjá Plain Vanilla þar sem var með mikið af útlendingum í vinnu og við vildum ekki að þau upplifðu sig utanveltu. Það gerðist oftar en ég hef tölu á að eftir 10 mínútur af enskumælandi fundi fattaði einhver að við vorum öll Íslendingar á fundinum. Ég las mjög mikið á ensku á þessum tíma, enda mikil áhugamanneskja um sæfæ og fantasíur og af þeim er ekki mikið til á íslensku (en er sem betur fer að breytast!).

Þegar ég byrjaði í ritlist sá ég að mig vantaði hreinlega mikla þekkingu á íslenskri menningu, var heldur ekki alin upp á menningarheimili eins og alþjóð veit (þó leyndist alveg einhver klassík í bókaskápnum hans pabba, eins og Þrúgur reiðinnar, Ilmurinn og Fávitinn eftir Dostojevksí – ég lagði reyndar aldrei í þá síðastnefndu). Þannig að ég tók mig til og las mikið af íslenskum bókum og gleypti í mig menningarþætti eins og Kiljuna og Lestina og heyrði fyrst um útvarpsþáttinn Orð um bækur – þáttur sem ég held að margir utan bókmenntakreðsunnar viti hreinlega ekki af. Eftir 2 ár af þessari innbyrðingu gat ég loks farið að mynda mér mína eigin skoðun á mörgu í íslenskri menningu og geta sigtað út það sem mér finnst aktjúallí gott.

Ljóðabókahillan mín og hluti af vísíndaskáldsögunum mínum

Ég hef annars eiginlega ekkert hlustað á Lestina síðan kúltúrbarnaumræðan hófst. Fyrir utan hvað mér finnst bókmenntir fá litla athygli í þætti sem fjallar um menningu blöskraði mér hversu ófagmannlega var staðið að þeirri umræðu. Eftir að Auður Jóns svaraði bloggpóstinum mínum málefnalega á sínu Facebook hringdi Lóa Björk hjá Lestinni í mig og stakk upp á eins konar panel-umræðu um efnið. Ég var til í það, og við vorum báðar sammála um að fá einhvern annan en Auði svo að umræðan yrði ekki persónuleg því þetta málefni og gagnrýni mín er svo miklu stærra en ein manneskja. Daginn eftir, 2 tímum fyrir viðtalið, hefur Lóa Björk svo samband, segist vera búin að skipta um skoðun og vilja fá Auði líka og var búin að hafa samband við hana! Við skulum halda því til haga að ég er nýkomin út á ritvöllinn en Auður er búin að spila þar í 25 ár og ég treysti mér ekki til að tala við hana í útvarpinu um þetta. Lestin hafði stuttu áður verið með mjög málefnalega umræðu um aðgengi og birtingarmyndir fatlaðs fólks í leiklistinni og þá fengu þau EKKI Nínu Hjálmarsdóttir gagnrýnanda og Unni Ösp leikstjóra til að ræða málin. Eftir á að hyggja hefði ég ekkert endilega verið sú besta í þetta heldur. Síðan fór eins og ég óttaðist – umræðan varð persónuleg og svo fór sem fór.

En í dag ákvað ég að hlusta til að heyra pistil frá Jakubi Stachowiak, pólsku ljóðskáldi sem ég kynntist á ljóðahittingum og í ritlist og er algjört gull af manni, og þátturinn í gær var stórgóður! Pistillinn hans Jakubs er mjög flottur, besti gestapistill sem ég hef heyrt þar um langa hríð: um reynslu hans í Covid af lögregluríkinu Abú Dabí þar sem hinsegin fólk fremur glæp með því einu að stíga á jörðina í landinu, síðan var áhugaverður pistill um Tom Waits (sem ég er alltaf á leiðinni að fara að hlusta meira á) og síðast var það umfjöllun Lóu Bjarkar og Hugrúnar Snorradóttur um steypiboð, eða baby-shower, sem mér finnst stórmerkilegt fyrirbæri og er eiginlega bara svolítið á móti.

Það eru að verða 17 ár síðan ég átti Adam og þá var þessi hefð ekki komin til Íslands. Ég hef aldrei farið í steypiboð svo fyrir mér er þetta konsept framandi og kjánalega bandarískt. Ég var mjög sammála umræðunni í Lestinni um að þessi hefð væri líka skref til baka í jafnréttisbaráttunni: konur að halda boð fyrir mömmuna. Eins og væntanleg barneign komi pabbanum eða öðrum körlum í lífi barnsins ekkert við. Svo eru víst líka einhverjir sem halda steypiboð fyrir pabbann, eða daddy-shower, en þá er víst minni áhersla á barnið og meiri á pabbann. Ég hef engan áhuga á barneignum og mjög takmarkaðan áhuga á ungbörnum og finnst alveg nóg að gefa sængurgjöf og/eða nafnaveislugjöf, sem getur bara verið peningur (en mér skilst að gjafirnar í steypiboðum séu frekar hlutir sem barnið þarf að nota og maður þarf þá að setja sig inn í). Mér finnst líka pirrandi með þessa kynjaskiptingu að það sé verið að gera þá kröfu á konur að taka þátt í þessu (og hafa áhuga) meðan karlmenn fá að sleppa (svo eru líka til karlmenn sem hafa mikinn áhuga á barneignum og börnum). Það galnasta sem ég hef heyrt er að samstarfskonum á vinnustað sé boðið í svona steypiboð (sem eru btw alltaf haldin óvænt fyrir mömmuna). Ég myndi mæta í steypiboð hjá mínum nánustu vinkonum en aldrei hjá neinum öðrum. Við þurfum ekki enn eitt klassíska íslenska fermingarboðið sem engan langar til að fara í né halda.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s