Hvar er Berglind?

Eftir fjöldamargar óskir um að ég segi frá ótímabundna ferðalagi mínu og Steinars er hér hafið að nýju ferðablogg (þegar maður er ekki á samfélagsmiðlum er ekki annað hægt en að verða við þessu).

Ég hitti Steinar í Split, Króatíu 24. júní þar sem við vorum eina nótt áður en við fórum til eyjunnar Hvar – já, það er ekki annað hægt en að grínast með þetta nafn 🙂 Eyjan er undurfögur, gamli bærinn glæsilegur, fallegar strendur og sjórinn alveg tær. Risastórar snekkjur leggja þarna að og ferðamennirnir keppast við að vera eins fallegir og umhverfið.

Okkar upplegg er að festast ekki í íbúð sem okkur líður ekki vel í (umhverfið skiptir svo miklu máli þegar maður er í skapandi vinnu) svo við höfum verið að panta íbúðir með litlum fyrirvara en fljótlega fór eyjan að fyllast af túristum svo það var erfitt að vera lengur en 2-3 daga á hverjum stað. Þegar við leigðum glæsilega íbúð aðeins fyrir utan gamla bæinn (nær ströndum sem við fórum á sem eru í smá fjarlægð) vorum við svo hrifin af íbúðinni, og svæðinu, að okkur datt í hug að það gæti verið magnað að eiga svona íbúð á Hvar.

En fljótlega fórum við að fá leið á öllum glamúrnum sem fylgir þessum lúxus-túrisma. Á daginn eru allir hálfnaktir, konur í rassa-bikiníum að valsa um alla leið inn í bæ, og á kvöldin allir uppstrílaðir – allir að ganga í hægðum sínum og njóta sín í fríi meðan við vorum að vinna.

Planið er að stefna til Albaníu en það kom okkur mjög á óvart hversu flókið er að fljúga eða sigla þangað frá Króatíu. Þannig að við ákváðum að mjaka okkur landleiðina með rútu og fórum til Kotor, í Svartfjallalandi.

Kotor er lítill bær inni í firði – eins konar míni-útgáfa af Dubrovnik þar sem við vorum fyrr í sumar –sem er aðeins ódýrari og með fjölbreyttari ferðamönnum. Sagt er að þar bæti fjöllin upp allar eyjurnar sem Króatía býr yfir. Við höfnina leggur einu sinni á dag risa stórt skemmtiferðaskip sem er nánast stærri en bærinn. Ég ímynda mér að þetta minni svolítið á Ísafjörð á sumrin.

Í Kotor eru kisur út úm allt sem gefur það mjög hlýlegan anda í bæinn. Ég talaði við konu sem rekur búð með kattavörum og hún sagði að það væri reyndar af því að enginn vildi taka kettina að sér – hún hefur eytt síðustu 30 árum af lífi sínu í að reka þessa búð og nota ágóðan meðal annars til að sjá um ketti sem hún tekur til að bólusetja og gelda. Þessa stundina var hún með sex kettlinga í bílskúrnum sínum, auk nokkurra annarra katta sem hún á. En fólkið í Kotor er duglegt að setja út mat og vatn fyrir kisurnar svo það allavega vel hugsað um þær.

Eftir að hafa verið í Berlín þar sem ég var að bögglast við að reyna að tjá mig á þýsku þar sem margir tala ekki ensku kom það þægilega á óvart hvað Króatar og Svartfellingar tala góða ensku, og eru mjög hjálpsamt og vinalegt fólk (sem var ekki beint stemmingin í Berlín). Það er ekki hægt að tala um ferðalag við Íslendinga án þess að minnast á veðrið. Allan tíma hefur verið 28-35 stiga hiti og alltaf sól nema eitt kvöld þar sem kom hellidemba í Hvar (sem var mjög skemmtilegt). Við höfum náð ágætis dampi í skriftum og vinnu eftir að hafa áttað okkur á hvað loftkæling og vindur eru mikilvæg til að ná einbeitingu.

Áður en ég fór til Svartfjallalands fyrr í sumar vissi ég nánast ekki neitt um landið og það kom mér mjög á óvart hversu undurfagurt er hérna og þróaður túrismi (svona er að koma frá lítilli eyju nyrst í Atlantshafi). Í Kotor var líka erfitt að finna íbúðir svo fyrir viku síðan héldum við áfram mjakinu í átt til Albaníu með rútu til Ulcinj. Sú rúta reyndist mjög lítil, ekki með loftkælingu og líklegast engum dempurum. En eftir 3 tíma ferðalag, með stoppi á landamærum þar sem við þurftum að fara tvisvar út með 50 m millibili til að sýna vegabréf, komum við til Ulcinj þar sem við erum stödd nú. Meira um það síðar.

Leave a comment