Síðustu dagarnir í Evrópu

Þetta flakk í sumar er búið að vera skemmtilegt en það tekur alveg sinn toll að vera sífellt að skipta um hótel og vita ekki hvert stefnan er tekin næst (meðan við erum að skrifa og vinna). Það var í raun ekki planað hjá okkur að vera svona lengi í Evrópu heldur æxluðust hlutirnir þannig. Adam sótti um í háskóla í Svíþjóð og við vildum vera nálægt ef hann kæmist inn því þá ætluðum við að vera með honum þar til að byrja með. Síðan bauð Ásta, kona Gumma, pabba Steinars, okkur að koma til Danmerkur í surprise 70-ára afmælishitting hans Gumma í byrjun sept sem hefði passað vel við Svíþjóð. Svarið kom ekki fyrr en um miðjan júlí frá skólanum, en Adam komst ekki inn (það voru svo fáir erlendir nemendur sem komust) svo hann ákvað að fara í stærðfræði í HÍ. Námið og félagslífið þar á mjög vel við hann svo það var líklegast fyrir bestu. Ég leigði út íbúðina mína í langtímaleigu og Adam flutti inn á Lokastíg, í íbúðina hans Steinars, á besta stað í bænum. Ég er enn að átta mig á að litla barnið mitt búi núna einn og sé kominn í háskóla – mér finnst ekkert það langt síðan ég var í HÍ, í sömu stofum og Adam er núna.

Eftir Istanbúl fórum við til Brussel þar sem Hörður bróðir býr með Alexöndru, kærustunni sinni og fengum að vera í íbúðinni þeirra, þar sem þau voru á ferðalagi í Asíu. Við Adam heimsóttum þau á síðasta ári og borgin kom mér skemmtilega á óvart. Ég var með einhverja óljósa hugmynd um kalda borg með pólitíkusum á gangi en borgin er ótrúlega falleg, ódýr, með góðum mat, fullt af söfnum og görðum – og einstaklega gott bjór-úrval. Minnir smá á Berlín – nema bara meira næs og snyrtilegri.

Það var yndislegt að vera komin á heimili aftur (íbúðin þeirra er líka ótrúlega næs með geggjuðum svölum) og komast í smá rútínu. Okkur fannst ekkert betra en að halda upp á 4-ára sambandsafmælið okkar á svölunum með okkar eigið kokteilboð.

Ég elska alltaf að sitja í görðum í Evrópu í sól og fylgjast með fólki. Það eru svo mikil lífsgæði að geta verið utandyra í góðu veðri, stundum skil ég ekki hvernig Íslendingar fara að í myrkrinu og rokinu. Elli, vinur Steinars, og Hulda konan hans komu til Brussel síðustu 3 dagana okkar þar í tilefni af fimmtugsafmæli Ella (og Steinars fyrr í ágúst). Það var mikið hlegið, rifjað upp gamla tíma, borðað góðan mat og drukkið bjór og freyðivín.

Við flugum ekki beint til Danmerkur heldur til Stokkhólms á smá bisness-fund varðandi verk sem við Steinar kláruðum í sumar. Meira um það síðar! Það var mjög súrrealískt að vera komin aftur til Skandinavíu eftir allt þetta ferðalag, allt kunnuglegt en samt ekki. Þar vorum við bara í 2 nætur og tókum síðan lest til Kaupmannahafnar (lestir eru svo frábær ferðamáti!) og þaðan aðra lest í sumarbústaðahverfi sem Ásta og Gummi eiga bústað. Allt þetta plan var vel þess virði til að sjá svipinn á Gumma þegar við læddumst upp að honum í garðinum! Næstu tvo daga var aftur borðaður góður matur (smörrebröd að sjálfsögðu), drukkinn bjór og spilað í góðum félagsskap.

Þetta sumar er búið að vera ævintýralegt en við vorum alltaf í biðstöðu sem er nú loks lokið. Frá Danmörku flúðum við haustið í Evrópu og fórum við til Bangkok, þangað sem ferðinni var alltaf heitið. Hér verðum við í nokkra mánuði – eða þar til ferðafiðringur fer mögulega að kitla aftur. Það er eitthvað við Bangkok sem fær okkur Steinar til að líða eins og við séum komin heim. Kop khun ka!

One thought on “Síðustu dagarnir í Evrópu

Leave a comment