Við vorum fyrstu vikuna í Bangkok á hinu fallega Shangri-La hóteli við ána. Það var fullkomið til að ná úr sér þotuþreytunni og slaka aðeins á eftir hið mikla flakk-sumar.






Við fundum svo mjög fína íbúð á besta stað í bænum og erum búin að leigja hana í hálft ár!

Þessi vika er búin að fara í að klára listamannalaunaumsókn, meðfram því að vinna og gera íbúðina okkar heimilislega (vefverslunin Shopee hefur komið þar sterkt inn). Þannig að ég hef ekki mikla orku í að skrifa mikið um Bangkok í bili en læt fylgja hér með myndir frá fyrstu vikunum inn á milli þess að tala um hvað ég sé búin að vera gera annað en að ferðast.




Ég gæti svo sem skrifað heilan póst um gallana við listamannalaun, þau hafa hækkað mikið minna en launavísitala síðustu 10-20 ár. Á síðasta ári voru þau 560.000 kr. sem verktakalaun (sem er svipað og vera með 350 þús. útborgað). Umsóknin er á versta tíma ársins fyrir rithöfunda sem eru nýbúnir að klára verk fyrir jólabókaflóðið og verða þá að vera tilbúnir með hugmynd að næstu og útfæra í umsókninni, en þannig virkar ekki sköpunarferlið. Hluti vinnunnar við að gera umsókn getur gagnast til að skerpa á sögunni, hluti er bara leiðinleg handavinna. Allavega, ég hef einu sinni fengið 3 mánuði og ef ég fæ aftur 3 – eða vonandi 6 – verð ég mjög þakklát fyrir að geta tekið mér tíma í að sinna skrifunum meira.

Skáldsagan mín er búin að mjakast heilmikið áfram í sumar þar sem ég var með lítið af verkefnum, en það er alltaf meira eftir en ég held. Það er sagt í hugbúnaðarþróun að síðustu 10 prósentin taki 90% af tímanum og það á greinilega við skáldsöguna líka. Ég reyni að vera ekki með FOMO yfir því að hafa ekki gefið út neitt í 3 ár og gefa mér smá slaka þar sem ég er að vinna meðfram skrifunum og næ oft bara að taka skurk inn á milli. Ég vil líka frekar skrifa bók sem ég er fullkomlega ánægð með frekar en að gefa eitthvað út bara til að gefa út. Ég kláraði reyndar eitt prósaverk síðasta sumar sem ég hef ekki getað gefið út vegna óviðráðanlegra ástæðna, en vonandi lítur það einn daginn ljós. Bangkok er allavega ein besta borgin til að skrifa vísindaskáldsögu í.
Í vor tók ég þátt í útboði Stafræns Íslands með Aranja sem efnisstjóri og verkefnið átti að byrja í sumar. Útboðið fór þannig fram að hugbúnaðarfyrirtæki fengu öll sama verkefnið á sama tíma og fengu 4 daga til að skila (fyrir aðeins 200 þúsund krónur á heilt teymi …). 10 efstu fyrirtækin í tveimur mismunandi teymum fá svo giggið. Ferlið var krefjandi en mjög skemmtilegt, þetta minnti mig á gamla tíma sem forritari hjá Plain Vanilla. Það er langt síðan ég hef verið á vinnustað og tekið þátt í svona tækni-crunchi, og fólkið hjá Aranja er mjög þægilegt í samstarfi og ég hlakka til að vinna áfram með þeim. En útboðið var kært vegna óánægju nokkurra vefstofa sem komust ekki að vegna ósamræmis í stigagjöf (sem virðist vera alveg rétt hjá kærendunum samkvæmt fyrstu niðurstöðu kærunefndar) þannig að allt er enn í biðstöðu með það.


Annars eru alltaf einhver verkefni í gangi hjá mér. Ég vinn reglulega með Möggu Dóru hjá Mennskri ráðgjöf og Hafnarfjarðarbæ. Núna í ágúst vann ég líka skemmtilegt verkefni fyrir Umhverfis- og orkustofnun við að skilgreina Rödd og tón og skrifa efnisleiðarvísi fyrir þau. Þau voru mjög áhugasöm um að skrifa gott efni og taka þátt í að skilgreina sinn tón svo ég fékk Höllu Hrund, efnisstjóra hjá Stefnu (hún skrifaði meðal annars frábæra efnisstefnu Ísland.is), til liðs við mig til að halda vinnustofu þar sem Rödd þeirra og tónn voru skilgreind.
Vinnustofan gekk gríðarlega vel og ég vona að við Halla fáum fleiri tækifæri til að aðstoða stofnanir og fyrirtæki við að finna sína rödd og tón með þessu móti. Halla er algjör snillingur í að stýra vinnustofum á netinu auk þess að vera góður notendamiðaður textasmiður og við vinnum mjög vel saman.




Við Steinar erum líka alltaf að skapa og koma með alls konar hugmyndir að verkum sem verður gaman að segja frá þegar þau eru lengra komin.
