Vaknaðu!

Í kvöld kemur fjöldi listamanna fram á neyðartónleikum í Hörpu vegna ópíóðafaraldursins sem er að stráfella fólk sem notar þessi efni. Fíkn er flókið vandamál en það hefur sýnt sig að skaðaminnkandi úrræði er ein besta leiðin til að aðstoða fólk í fíknivanda. Það er uppselt á tónleikana en hægt að styrkja Frú Ragnheiði og önnur skaðaminnkandi úrræði með einu símtali eða smsi.

Af þessu tilefni birti ég hér titilsöguna úr smásagnasafninu mínu og hvet fólk til að styrkja þetta mikilvæga málefni. Mannslíf eru í húfi.


Breytt ástand

Það er eitthvað fólk á eftir henni. Hún veit ekki af hverju, veit bara að þetta er vont fólk. Það vill meiða hana. Skuggalegt og slæmt fólk. Hún sér rauðan depil á trénu við hliðina á sér. Leiser. Þau ætla að skjóta hana. Hún hendir sér á raka moldina og skríður áfram. Jörðin og myrkrið rennur saman. Hægri hnefinn er krepptur utan um hnífinn. Þetta er spurning um líf og dauða.

Hún var fimmtán ára þegar hún byrjaði að hanga á bekk niðri í bæ með heimilislausa fólkinu. Fannst það vera lífið. Að þurfa ekki að taka ábyrgð á neinu. Áhyggjulaus. Hún gerði hvað sem var til að komast í breytt ástand. Allt var betra en að líða illa í eigin skinni. Betra en að takast á við allar tilfinningarnar; þennan taugahnykil af reiði, ótta, gremju og þrá sem var svo vandlega flæktur saman að hún vissi ekki hvað var hvað. Kringlóttar pillur með myndum af dollaramerki eða bílum, sumar í laginu eins og hús. Hvítur, gulur og brúnn hraði. Stundum eins og marsipan, oftar eins og þvottaduft. Dísur, konti, moggi og ró ró. Hvað sem þetta hét allt saman. Henni var alveg sama. Tók það sem hún komst í. Upp í nef eða ofan í maga. Skolað niður með vafasömum landa. Fyllti lungun af tímabundinni hamingju. Breyttu ástandi.

Where is my mind?

Where is my mind?

Where is my mind?

Way out in the water

See it swimming

Vinkona hennar reyndi að fá hana til að hætta. Koma með sér í menntaskóla en hún sá ekki tilganginn. Vildi vera öðruvísi. Þetta voru hennar örlög. Hún hafði vitað það frá því hún las Dýragarðsbörnin. Einhvern daginn myndi hún kannski hætta og fara með forvarnarfyrirlestra í grunnskóla. En ekki núna. Ekki strax.

Hún kynntist strák sem var með eins alltétandi svarthol innra með sér. Saman voru þau sterkari. Lífið auðveldara. Heimurinn örlítið minna ógnvekjandi. Þau hlustuðu á tónlist og hurfu upp í himingeiminn. Í fyrsta skipti sem hún hjálpaði honum að sprauta sig hvarflaði að henni að þetta væri kannski ekki lífið eftir allt saman. Þau bjuggu í herbergi með blettóttri dýnu á gólfinu, fötu út í horni og skítugu glerborði þar sem hún dundaði sér við að búa til fullkomna beina línu áður en hún saug hana upp í nefið. Kærastinn benti á að áberandi blágrænu æðarnar hennar væru fullkomnar fyrir nálina. Hans voru farnar að skreppa saman og hverfa. Þremur vikum síðar ákvað hún að slá til og sprautaði sig líka.

Hún skríður undir runna. Leggst á bakið með hendur niður með síðum. Hnífsblaðið kalt upp við lærið. Ætlar að bíða eftir að fólkið fari hjá. Ef hún liggur alveg kyrr sjá þau hana ekki. Í gegnum dökkrauð laufin sér hún stjörnurnar blika á himninum. Veltir fyrir sér hvað það þýðir. Hvort þetta sé eins og mors-kóði. Alheimurinn að reyna að gefa henni svarið. Hún er ekki viss við hverju en það hlýtur að vera eitthvað merkilegt.

Einn morguninn sat hún á bekk í Laugardalnum. Nýbúin að sprauta sig. Það var óvenju hlýtt og sólin sterk en hún sat í hermannagrænni dúnúlpu sem varði hana fyrir heiminum. Í gegnum heyrnartólin söng Placebo beint til hennar:

Day’s dawning, skin‘s crawling

Day’s dawning, skin‘s crawling

Day’s dawning, skin‘s crawling

Pure morning

Ung hjón með barnavagn gengu framhjá henni. Hún vorkenndi þeim. Þau voru svo leiðinlega eðlileg. Vissu ekki af hverju þau voru að missa. Líf þeirra var ekkert annað en steypuklumpur í Grafarvoginum sem þau þóttust eiga meðan það var bankinn sem átti þau, steisjonbíll sem átti að færa þeim frelsi en var ekkert nema fangelsi á hjólum, sjónvarpsgláp á kvöldin í staðinn fyrir kynlíf því allar hugleiðslurnar, ræktin, uppeldið, vinnan, bónusferðirnar, vinirnir, göngurnar, ferðalögin og netvafrið taka frá þeim svo mikla orku að þau hafa ekkert eftir fyrir hvort annað, þau fróa sér í leyni um leið og tækifæri gefst til en viðurkenna það aldrei fyrir neinum, barnið eignast alltof mikið af dóti, vex of hratt úr grasi, leggur önnur börn í einelti, fer í Versló, síðan í viðskiptafræði í HR og endar í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að geta haldið áfram að níðast á minni máttar.

Henni bauð við svona fólki.

Þannig leið árið. Allur tími og orka fóru í að reyna að redda næsta skammti. Nálin var betri en kynlíf. Tilfinningarnar samtvinnuðust. Kærastinn hrinti henni á stofuborðið og þar sem hún lá á glerbrotunum hló hún í fyrsta skipti í langan tíma. Sambandið slitnaði og byrjaði aftur. Stundum rúntaði hún stjörf um í hringi eða sat kyrr og starði tómum augum út í loftið. Þroskinn staðnaði. Sjálfsvirðingin og siðferðið hvarf. Líklegast hluti af henni með. Þegar kærastinn fór í fangelsi fyrir líkamsárás ákvað hún að breyta til. Fór til Póllands með fimmtán þúsund kall í vasanum og rifinn Krónupoka með fötum sem hún átti ekki sjálf. Hélt að hún gæti skilið fíknina eftir heima en fíknin elti og dró hana í miklu harðari heim. Gatan gleypti hana í sig og sýndi enga miskunn. Hún strípaði sig uppi á sviði. Dansaði og beraði sálina. Eftir nokkra mánuði kom stjúppabbi hennar út og sótti hana, gangandi beinagrind með lifrarbólgu C.

Hún stendur varlega upp. Dustar laufblöð og mold af peysunni og berum leggjunum. Tærnar moldugar. Kaldar. Dofnar. Hún heyrir ekkert nema hvíslið í vindinum. Stjörnurnar eru þagnaðar. Hún gengur áfram. Þarf að komast á öruggan stað. Í skjól þar sem hún getur varist. Skógurinn endar og í fjarska sér hún flöktandi ljós. Frá því stafar gulum, rauðum, appelsínugulum hita. Hún stefnir þangað. Ætlar ekki að leyfa þeim að sigra.

Hún vildi gera tilraun til annars lífs eftir að hafa kynnst martröð sem var verri en að vera eðlileg. Langaði til að fara í meðferð. Fékk að búa hjá mömmu sinni og stjúpa á meðan hún sprautaði sig ekki. Lét áfengið og stuðið duga meðan hún beið eftir að komast í afvötnun. Reyndi að þræta ekki undir sligandi reglunum. Siðapredikunum. Gleypti kúlur í eitt skipti þegar hún gat ekki meir og lá ber að ofan uppi í rúmi, saug ungbarnasnuð og hlustaði á Portishead.

Ohh, can’t anybody see

We’ve got a war to fight

Never found our way

Regardless of what they say

How can it feel, this wrong

From this moment

Óttinn við að lenda aftur í helvítinu hélt henni inni á Vogi. Tárin sviðu meðan líkaminn öskraði eftir efnunum sem höfðu haldið henni gangandi síðustu ár, án þeirra hafnaði líkaminn sjálfinu, vildi æla því út – hver einasta fruma þjáðist og logaði í helvíti en það var allavega helvíti sem hún sá fyrir endann á. Á hverjum degi hringdi hún í mömmu sína. Fyrirgaf. Þurfti að vita að einhverjum þætti vænt um hana. Gat þetta ekki ein.

Hún fékk inni á Krýsuvík og eftir nokkrar vikur örlaði á lífsgleði innra með henni í fyrsta sinn í langan tíma. Tilfinning sem hafði ekki látið sjá sig síðan herbergisdyrnar höfðu opnast um miðja nótt þegar hún var átta ára. Krýsuvík var síðasti séns. Það kom enginn inn í þessa sex mánaða meðferð nema hafa reynt allt annað. Hér var mikið sporaprógramm. Margt hægt að hafa fyrir stafni. Allt reynt til að koma fólki aftur á fætur. Hún gaf fiskunum og fylgdist með þeim synda um búrið. En í hvert sinn sem einhver nýr kom inn barst gustur af taugatrekkingi sem bjagaði andrúmsloftið. Eftir þrjá mánuði fór gamalkunni óróinn að gera vart við sig. Eirðarleysið í beinunum. Hatrið í hjartanu. Kliðurinn í hausnum. Loks gat hún ekki lengur haldið kyrru fyrir. Sturtaði fiskamatnum ofan í búrið. Ákvað að fá sér og fara aftur út í veröldina sem var svo hrikaleg en samt ekkert miðað við það sem bjó innra með henni.

Kærastinn sótti hana um miðja nótt. Hún var með aleiguna á bakinu og hnút í maganum. Hún var ekki viss hvort hún elskaði hann en þráði að vera ekki ein lengur. Þráði að nota. Hann svaraði báðum bænum. Meðan þau sögðu hvort öðru hvað á daga þeirra hafði drifið fór hjartað að slá hraðar og brjóstið að verkja, annaðhvort af ást eða kvíða. Þau lögðu bílnum bak við Bústaðakirkju þar sem dópsalinn ætlaði að hitta þau. Hún svitnaði. Gat ekki talað lengur. Þau þögðu saman og hlustuðu á Placebo. Skyndilega þurfti hún að kasta upp. Rétt náði að opna bílhurðina áður en þunn ælan gusaðist út. Spýja af galli og óhug. Hjartað þoldi ekki spennuna. Það var búið að þola of mikið. Áður en hún náði að fá sér fékk hún hjartaáfall.

Hún vaknaði með slöngur fyrir súrefni ofan í sér. Það fyrsta sem hún sá var prestur og fjölskyldan að horfa á hana dapurlegum augum. Þetta hlaut að vera botninn, hugsaði hún. En hún hafði rangt fyrir sér. Nokkrum mánuðum seinna flutti hún í kofa í sumarbústaðahverfi fyrir utan borgina. Taldi fjölskyldu sinni trú um að hún þyrfti að vera í tengslum við náttúruna. Þannig myndi hún ná bata meðan í raun vildi hún bara vera í friði til að nota. Kærastinn flutti inn og byrjaði að lemja hana. Stundum lamdi hún hann til baka. Stundum skar hann hana með hníf. Meðan hann reddaði þeim efnum var henni næstum því sama. Teiknaði bara myndir af særðum dýrum, reykti skaf og stillti á Muse í hæsta:

You make me sick

Because I adore you so

I love all the dirty tricks

And twisted games you play

On me

Eitt kvöldið var óvænt bankað. Fyrir utan stóð vinkona hennar hágrátandi. Sagðist vera að deyja úr áhyggjum af henni og hvernig hún væri að fara með líf sitt. Ef hún gæti ekki hætt fyrir sjálfa sig, gæti hún ekki allavega hugsað um fólkið sitt?

Hún skildi ekki hvað var að vinkonunni. Hvernig hún gat verið svona ósvífin að eyðileggja kvöldið fyrir sér? Hún sem var að baka möffins. Hún sagði vinkonunni að vera ekki að skipta sér af. Þetta væri hennar líf. Rak hana í burtu. Fékk samt einhverja skrýtna tilfinningu um að viðbrögð sín væru ekki rétt.

Hún sér fólki bregða fyrir inni í húsinu. Er ekki viss hvort það er gott eða vont. Fylgist með því inn um gluggann. Gengur í kringum húsið. Skyndilega sér hún rauða depillinn á miðjum brjóstkassanum. Þau hafa fundið hana. Hún flýr inn í kjarrið. Mundar hnífinn. Þau munu ekki ná henni lifandi.

Á himninum blikka rauð og blá ljós. Alheimurinn hefur svikið hana. Það er kallað á hana, reynt að villa um fyrir henni. Dökkklæddar verur þyrpast að henni. Djöflar með glóandi augu og blikandi sveðjur. Hún er umkringd og aðþrengd. Hnífurinn er það eina sem stendur á milli hennar og þeirra. Hún fær högg á bakið. Öskrar. Dettur. Heimurinn snýst. Vopnið er slegið úr hendinni. Hún hefur tapað. Þetta er loksins búið.

Leave a comment