Frá svörtum fjöllum til albanískra stranda

Ég sit á flugvallahóteli við Tirana, höfuðborg Albaníu. Á morgun er stefnan sett á Istanbúl þar sem við verðum fram yfir fimmtugsafmælið hans Steinars, 15. ágúst.

Útsýni af veitingastað við flugvallahótelið. Nóttin kostar bara 65 evrur og maturinn á víst að vera frábær.

Við ætluðum að koma hingað í gær og fljúga í dag en ég vaknaði með magapest sem ágerðist yfir daginn, planið var að bóka taxa gegnum albanískt-uber app, en bílstjórinn ætlaði að rukka okkur 20 evrum meira en appið sagði svo við neituðum. Hann sagði orðrétt: „Bro, the app takes 20 euros.” Sem var fyrir bestu – magapestin ágerðist og við enduðum á hóteli í Vlöre þar sem ég lá fárveik allan daginn, fegin að sitja ekki í bíl með gaur sem ávarpar mig sem Bro. Nú borgaði sig að vera ekki búin að bóka fram í tímann.

Allavega, byrjum á fyrsta stað síðan í síðasta bloggi: Ulcinj. Ástæðan fyrir því að við fórum þangað er að bærinn er sá næsti við landamærin frá Albaníu og það var auðvelt að taka rútu þangað, annars vissum við ekki neitt um Ulcinj. Það búa ekki nema 20.000 manns þar en svo koma hundraðfalt meiri ferðamenn þangað. Ulcinj er mjög sérstakur staður, þar eru flestir múslimar í Svartfjallalandi og okkur brá þegar moskurnar byrjuðu að blasta fimm sinnum á dag yfir allt þorpið – svipað áreiti og þegar kristnu kirkjurnar gjalla – nema þetta var skemmtilega framandi. Efst í bænum er „Old town”, mjög fallegur gamall sjóræningabær, sem er alveg tómur á daginn á meðan allir eru á ströndinni, annað hvort á Small beach sem er í miðjum bænum eða á Long beach, 7 km langri strönd aðeins fyrir utan bæinn.

Það sem gerir Uljinc einstakt var að í miðjum suðupotti trúarbragða og menninga er við ströndina úti-klúbbastemming sem byrjar kl. 21 og endar á slaginu 1. Þar dansar VIP-fólk á efri hæð við blastandi tónlist og horfir niður á pöpulinn, mið-klassa fólk á borðum, aðra á bekkjum á móti – svo gjalla moskurnar yfir. En ef maður er í gamla bænum fyrir ofan heyrist ekki neitt. Þetta var smá súrrealískt, eins og einhver bíómynd.

Small beach

Við fundum íbúð með svölum yfir mannlíf hjá yndislegum gestgjafa (konu, þær eru bestu gestgjafarnir, hér á Balkan-skaganum allavega) þar sem við vorum í 5 daga. Þetta voru íbúðahótel sem er innréttað eins og 4 stjörnu hótel og þjónustan eftir því. Við sátum í tóma gamla bænum á daginn að vinna og kynntumst þar tveimur ungum þjónum frá Kosovo sem báðir mæltu með því að fara suður eftir Albaníu – planið okkar var að fara til Durres – á albanísku ríveríuna svokallaða. Maturinn var frábær, samt sakna ég þess mjög að geta fengið asískan mat, eða eitthvað annað en brauðmeti, pasta og fisk, og fólkið yndislegt en eftir viku fannst okkur við vera búin að klára bæinn svo við ákváðum að hlusta á nýju vini okkar og fara suður, með stoppi í Durres, strandbænum sem mamma var í um daginn og mælti með.

Samfélagið þarna er manneskjulegra en í há-kapítalísku samfélagi eins og Íslandi, þarna var margt sem minnti mann á síðustu áratugi 20. aldar, tónlistin sem var spiluð, nostalgísk leiktæki eins og klessubílar, kassi til að boxa eins fast og (karl)maður getur, box full af böngsum með kló til að ná í. Það var samt flóknara en við bjuggumst við að halda áfram með rútu suður eftir Albaníu, það var hægt til Tirana en ekki til Durres. Í nýlegum fréttum um hversu flókið er að taka lestir á milli landa í Evrópu mætti líka bæta við að rútu- og bátsferðir eru líka ekki í boði. Góði gestgjafinn reddaði okkur leigubílstjóra sem keyrði okkur til Durres fyrir 100 evrur. Við lentum í þvílíkri umferðateppu við landamærin, keyrðum svona á 20 í klukkutíma, og sáum strax að Albanía er fátækra land. Við landamærin í Svartfjallalandi var fólk (gamlar konur, börn, menn og konur) að selja ávexti, poppkorn og olíur, en þegar við komum yfir Albaníu tóku við konur með ungbörn að betla. Umferðateppan stafar af því að samgöngur í Albaníu eru mjög slæmar og komumst við að því enn betur þegar við ætluðum að taka svo rútu frá Durres.

Durres

Það var mjög mikið af fólki í Durres! Ströndin var þéttsetin alla daga og varla hægt að ganga á göngustígunum á kvöldin. Allir virðast vera á sömu dagskrá, strönd á daginn og út að borða eftir 8. Það var fínt að vera þar í nokkra daga en okkur langaði aftur í bláan sjó sem nær hærra en yfir hné og ákváðum að færa okkur eftir nokkra daga. Það er ódýrara í Albaníu en Svartfjallalandi, en maturinn var líka eftir því. Besti matur sem ég fékk var grillaður kjúklingur á lókalastað sem kostaði bara 5 evrur, með hrásalati og brauði.

Við ætluðum að taka rútu suður sem er „mögulegt, nema að þá þarf að ganga upp á hraðbraut 200 metra frá rútustöð og veifa þar minibus sem kemur á óræðum tíma. Við hættum ekki alveg á það svo við fengum leigubíl í næsta bæ, Vlöre, sem er þriðja stærsta borg í Albaníu (Duress er nr. 2). Gestgjafinn okkar reddaði bíl með settu verði, en þegar við komum að borgarmörkunum ætlaði hann að láta okkur út þar fyrir þann pening. Við báðum hann um að keyra okkur að hótelinu í korters fjarlægð og þá rukkaði hann okkur 35 evrum meira (farið átti að kosta 90 evrur). Hvorki í Króatíu né Svartfjallalandi fann maður fyrir að einhver væri að reyna að svindla á manni en það gerðist nokkrum sinnum í Albaníu. Við vorum komin enn lengra aftur í tímann.

Það eimir af toxic-karlmennsku í Albaníu, gaurar að sýna sig á bílum, alls staðar sitja lókal karlmenn á stöðum allan daginn meðan konurnar sjást ekki og starfsfólk ávarpaði reglulega Steinar frekar en mig, til dæmis þegar ég sendi fyrri gestgjafa skilaboð um vonbrigðin yfir verðinu og við værum ekki sátt sagði hann alltaf “Sir”, þótt hann vissi að þetta var Whats-appið mitt. Annað dæmi var að þjónn skildi ekki þegar ég spurði hvort hann það væri til síder og sagði: “Let’s ask your husband what you want.” Samt eru þessir menn alltaf næs þegar maður kynnist þeim aðeins, til dæmis talaði einn gestgjafinn bara við Steinar varðandi greiðslu og bætti posa-álagi ofan á verðið og kenndi bönkunum um – eitthvað sem gerðist ekki á neinum öðrum stað í landinu – og bauð Steinari að fá sér viskíglas með sér og við dæmdum hann strax sem toxic. En svo reyndist hann vera umhyggjusamur gestgjafi og þjónustan var mjög góð. Það er eins og það sé að togast á innra með körlunum þarna að sýna sig á gauralegan hátt og vera ljúfir. Kannski er þetta ekki skrýtið hjá þjóð sem var undir kommúnískri stjórn þar til í byrjun tíunda áratugarins og síðan þá hefur albaníska mafían grasserað og er viðloðin alla pólitík.

Það var alltaf eitthvað smá bogið við reynsluna í Albaníu. Við fengum oft annað en það sem við pöntuðum eða það sem við vildum panta var ekki til (eins og Crepes á crepes-stað); samgöngur gengu ekki upp, bið eftir leigubíl sem átti að taka 10 mín tók 45 mín og þannig fram eftir götunum. Það eru ekki margir vestrænir túristar þarna, einstaka Norðmenn og Þjóðverjar. Einn gestgjafinn spurði okkur beint út hvað við værum eiginlega að gera í Vlöre.

Við gúgluðum svo í fyrsta sinn almennilega albanísku ríveríunni og komumst þá að því að á síðustu árum hefur ferðamanna-búblan þar sprungið og innviðir anna ekki fjöldanum. Bláu fallegu strandirnar eru alveg jafn þéttsetnar og í stóru sandbæjunum og þar sem bæirnir eru litlir er enn troðnara og verðið víst hærra og fólk mælir ekki með að fara þangað í high-season. Hvert sem ég hef farið hér á Balkan-skaganum hefur fólksmergðin komið mér á óvart. Við erum auðvitað á high-season tíma en mig grunaði aldrei hvað væri mikið fólk að ferðast hér! Fólksfjölgun mannkyns og vandamálin við að anna því er mjög ljóst.

Við vorum orðin þreytt á öllu veseninu í Albaníu og því er stefnan tekin á Istanbúl. Suður-Albanía fær að bíða – ef við munum einhvern tímann fara þangað.

One thought on “Frá svörtum fjöllum til albanískra stranda

Leave a comment