Það var skemmtileg tilbreyting að koma til Istanbúl eftir að hafa verið lengi á Balkanskaganum enda er borgin rík af áhugaverðri sögu. Istanbúl á rætur að rekja til 660 f. Krist, síðar varð hún hluti af rómverska keisaraveldinu, þá nefnd Konstantínópel, og var mikilvægur þáttur í þróun kristni. Eftir fall Konstantínópel tóku Tyrkir borgina yfir og varð hún höfuðborg Tyrkjaveldis sem nefndu hana Istanbúl – og varð hún mikilvægur hluti af íslam. Istanbúl er líka eina borgin í heiminum sem er í tveimur heimsálfum en Bosporus-sund skiptir borginni á milli Evrópu- og Asíu.



Við sáum strax að borgin væri stór en það kom samt á óvart að það búa yfir 15 milljón manns þar! Sem gerir borgina að einni þeirri stærstu í Evrópu. Við gistum fyrst á 3 stöðum Evrópumegin en síðustu nóttina Asíumegin. Fyrstu 2 voru í Galata-hverfinu, þar sem er mjög vinsælt að taka mynd af sér með Galata-turninn í bakgrunni. Fyrsta íbúðin var fín, fyrir utan að það var bara loftkæling í svefnherberginu (og fyrstu nóttina tókum við hana óvart úr sambandi og vorum að kafna úr hita með aðeins viftu) en hún var með stórum svölum á efstu hæð með mögnuðu útsýni, meðal annars yfir á Galata-turninn.



Næst gistum við á flottu rusty-hipstera hóteli sem var með besta mat sem ég fékk í Istanbúl! Herbergið var mjög flott, en loftkælingin fór ekki niður í nema ca. 23-24 gráður þannig að maður náði aldrei að kæla sig alveg. Hverfið þar í kring var með þröngum bargötum með mjög góðri stemmingu, en þótt það sé leyft að drekka í Tyrklandi þrátt fyrir að vera múslimaland eru barir (allavega Evrópumegin) einskorðaðir við viss hverfi og meirihluti gesta erlendir. Eitt kvöldið sátum við þar og barþjónn kom aðvífandi og gaf okkur 8 staupglös (við náðum ekki að skilja hvers vegna). Við hliðina á okkur sat hópur sem var að halda upp á afmæli svo við fengum okkur sitt hvort staupið og gáfum þeim rest. Stuttu síðar fengu þau sér tertu og gáfu okkur tvær sneiðar og jiii, þetta var með bestu kökum sem ég hef fengið!



Það er mikil bakkelsis og te menning í Istanbúl, í sjónmáli er alltaf einhver með bakka með glösum af uppáhelltu tei að selja og þéttsetið á bakaríum með alls konar kökum og bakkelsi, svo ekki sé nefnt líka nammið þeirra, turkish delight.
Næst var stefnan tekin á aðal túristasvæðið við torgið þar sem Grand Sofia og Blá moskan standa. Það var yndislegt að komast í smá víðlendi og sátum við oft við þetta torg. En í kring var stemmingin aðeins öðruvísi, sífellt verið að kalla á mann til að koma inn á veitingastaði sem varð mjög þreytt með tímanum og maturinn frekar einsleitur. Við fórum reyndar á einn frábæran indverskan veitingastað sem leyndist þarna.




Á afmælisdaginn hans Steinars fórum við út að borða á mjög næs rooftop stað, síðan í 3 tíma bát-túr niður Bospor-sundið þar sem við sáum víðfeðmi borgarinnar. Það var ekki selt áfengi um borð á bátnum en ég spurði áður hvort við mættum koma með sjálf sem var leyft (bara meðan það væri ekki of mikið). En við meikuðum ekki að poppa freyðivíni þar – eina fólkið sem var að drekka. Bátsferðin var fín, en við gátum ekki annað en borið hana saman við bát sem við fórum nokkrum sinnum á í Kambódíu sem var miklu skemmtilegri, bæði hvernig báturinn var settur upp, stemmingin og þar var selt áfengi. Asíubúar slá aldrei hendinni á móti sölutækifæri! Eftir bátsferðina fórum við á grasið okkar góða fyrir framan Grand Sofia eftir á þar sem við gátum notið freyðivínsins í rólegheitum.


Hörður bróðir sagði mér að honum hafði fundist Asíu-hliðin vera skemmtilegri, og þar sem flugvöllurinn var í þá átt, ákváðum við að eyða síðustu nóttinni þar og sáum ekki eftir því. Ef ég kæmi aftur til Istanbúl myndi ég klárlega vera þar: færri túristar, ódýrara, barir út um allt, low-key þægileg stemning. Ég myndi mæla með Istanbúl við alla, þetta er alveg einstök borg og mikið að skoða (við sáum samt ekki nema brotabrot af borginni) og fólkið vingjarnlegt.

Næst var flogið til Brussel…. meira um það síðar.
Gaman að fylgjast með ferðalaginu ykkar, góða ferð áfram og bestu kveðjur.
Hjördís.
LikeLike
Takk! Gaman að þú sért að fylgjast með 🙂
LikeLike