Bangkok í þotuþreytu

Við Steinar komum til Bangkok í gær, eða fyrir tveimur dögum á íslenskum tíma, og erum enn að kljást við þotuþreytuna. Rotuðumst skyndilega klukkan sjö um kvöld áðan, líkaminn hefur haldið að við værum búin að vaka heila nótt. Magnað hvað tímabeltismunurinn ruglar alltaf í manni.

3 tíma flug til London (Luton svo rúta til Heathrow) svo 12 tíma flug þaðan til Bangkok með Eva airlines, ekki-lágfargjaldsflugfélagi. Tveir málsverðir innifalnir, skjár í sæti, ágætis sæti og rakakrem inni á baði. Við vorum minnt á hversu margar slæmar bíómyndir eru til, byrjuðum á Moonfall (alveg hræðilega illa skrifuð), Bullet Train og svo kíkti ég líka á Elvis, en gafst upp á þeim öllum. Byrjaði á Driving My Car, 3 tíma bíómynd byggð á smásögu eftir Murakami, sem ég ætla að klára síðar þí ég hafi ekki enst núna – hún er á mjög rólegu tempói. Þá er nú gott að vera með bækur með sér, ég er að klára þriðju bókina í Night’s Dawn trílógíunni eftir Peter Hamilton (er að lesa hana í annað sinn) og sem betur fer er hún líka sem rafbók á Scribd, það hefði verið brösulegt að fara með 1300 bls. kilju-hlunkinn með mér. Þetta er alveg frábær geimópera – en svona við annan lestur verð ég að viðurkenna að Hamilton hefði alveg mátt skrapa 2-300 blaðsíður af hverri bók (þær eru allar af þessari lengd). Svo gluggaði ég á leiðinni í nýtt smáprósasafn eftir Gyrði Elíasson, Þöglu myndirnar, sem Steinar keypti í fríhöfninni. Ég varð fyrir smá vonbrigðum með það, þetta er meira eins og brandarabók fyrir gáfaða fólkið heldur en prósar. En það er gott að lesa íslenskuna, það er alveg nauðsynlegt þegar ég er að skrifa.

Þetta er fyrsta skipti sem ég ferðast út fyrir vestræna menningu. Tími til kominn að fara út fyrir boxið sem maður er fæddur í! Fólkið hérna er voða rólegt og kurteist, fallegt og fíngert. Engin egó eins og á Vesturlöndum. Okkur Steinari líður báðum vel í þessu umhverfi. Fyrsta kvöldið fórum við á þakbar á hótelinu og mér leið eins og ég væri í sæfæ mynd. Barinn var reyndar mjög dýr, nánast íslensk verð! Enda gerðum við vel við okkur fyrstu dagana og erum á mjög fínu Hilton hóteli við ána.

Við vöknuðum klukkan 6 í morgun og fórum á besta morgunverðahlaðborð sem ég hef farið á! Allt frá eggjum, beikonum og jógúrti til sushi og indversks matar. Smakkaði í fyrsta skipti ferskt papaya og namm hvað það var gott. Við borðuðum svo mikið að næsti málsverður var ekki fyrr en seint um kvöld, grilluð bbq spjót í lítilli kringlu hér rétt hjá, þar sem er götumatur, en samt allt hreint og fínt.

Steinar vann því miður ekki bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Truflunina, en fékk að vita sama kvöld að það er búið að ráða mjög flotta handritshöfunda fyrir Truflunina! Sömu og skrifuðu Humans. Það þýðir að það sé enn líklegra að hún fari í framleiðslu. Fyrir þá sem ekki vita er framleiðslufyrirtæki í Hollywood – eOne sem meðal annars Peter Dinklage stjórnar búið að kaupa réttinn til að búa til sjónvarpsþætti eftir bókinni. Ég verð að minnast á að þegar Steinar fékk persónulegan tölvupóst frá Peter að hrósa Trufluninni fékk ég stjörnur í augun. Við vorum sammála um að þessar fréttir hefðu verið betri en verðlaunin.

Það eru mjög þægilegar samgöngur hér, „Sky train“ lestir þar sem útsýnið yfir borgina er frábært. Þar sem það kostar 1000 krónur á dag að geta notað símanetið (það er ekki einu sinni í boði reyndar hjá Hringdu sem er símafyrirtækið mitt) erum við að prófa að vera netlaus. Þá er mjög gott að hafa góðar samgöngur! Ég er mjög háð því að nota Google maps á ferðalögum og var smá stressuð fyrir þessu, en svo er þetta lítið mál – bara smá skipulagning. Annars tókum við því rólega í dag, fórum í eina kringlu en vorum of þreytt fyrir nokkuð annað en að fara í bókabúð. Ég keypti tvær sæfæ bækur sem ég held að verði innblástur fyrir söguna sem ég er að skrifa, svo myndasögu fyrir Adam. Við ætlum svo aftur seinna að kaupa meira. Það er mjög hentugt hvað við Steinar elskum bæði jafn mikið að versla bækur!

Við lágum við sundlaugina í dag eftir verslunarferðina. Minnst í sól, það er eiginlega bara of heitt og líka gott að fara sér rólega í sólinni (Steinar er skynsamur með það, passar að ég brenni ekki). Ég fékk mér reyndar smá vorrúllur þar, ég er með lágan blóðsykur og annað hvort sóna ég út eða verð hangry þegar ég borða ekki reglulega.

Það er rúmlega 30 stiga hiti á daginn

Þetta er kannski ekkert mjög spennandi blogg enn sem komið er en ég held það verði gaman að eiga svona ferðadagbók seinna meir. 🙂

Ég verð svo að enda á mynd af hótelganginum, en hann er nánast alveg eins og í Ruben Östlund myndinni: Force Majeure!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s