Skrifað í Bangkok

Við vorum fyrstu vikuna í Bangkok á hinu fallega Shangri-La hóteli við ána. Það var fullkomið til að ná úr sér þotuþreytunni og slaka aðeins á eftir hið mikla flakk-sumar.

Við fundum svo mjög fína íbúð á besta stað í bænum og erum búin að leigja hana í hálft ár!

Allir hressir að skrifa undir leigusamning

Þessi vika er búin að fara í að klára listamannalaunaumsókn, meðfram því að vinna og gera íbúðina okkar heimilislega (vefverslunin Shopee hefur komið þar sterkt inn). Þannig að ég hef ekki mikla orku í að skrifa mikið um Bangkok í bili en læt fylgja hér með myndir frá fyrstu vikunum inn á milli þess að tala um hvað ég sé búin að vera gera annað en að ferðast.

Ég gæti svo sem skrifað heilan póst um gallana við listamannalaun, þau hafa hækkað mikið minna en launavísitala síðustu 10-20 ár. Á síðasta ári voru þau 560.000 kr. sem verktakalaun (sem er svipað og vera með 350 þús. útborgað). Umsóknin er á versta tíma ársins fyrir rithöfunda sem eru nýbúnir að klára verk fyrir jólabókaflóðið og verða þá að vera tilbúnir með hugmynd að næstu og útfæra í umsókninni, en þannig virkar ekki sköpunarferlið. Hluti vinnunnar við að gera umsókn getur gagnast til að skerpa á sögunni, hluti er bara leiðinleg handavinna. Allavega, ég hef einu sinni fengið 3 mánuði og ef ég fæ aftur 3 – eða vonandi 6 – verð ég mjög þakklát fyrir að geta tekið mér tíma í að sinna skrifunum meira.

Skáldsagan mín er búin að mjakast heilmikið áfram í sumar þar sem ég var með lítið af verkefnum, en það er alltaf meira eftir en ég held. Það er sagt í hugbúnaðarþróun að síðustu 10 prósentin taki 90% af tímanum og það á greinilega við skáldsöguna líka. Ég reyni að vera ekki með FOMO yfir því að hafa ekki gefið út neitt í 3 ár og gefa mér smá slaka þar sem ég er að vinna meðfram skrifunum og næ oft bara að taka skurk inn á milli. Ég vil líka frekar skrifa bók sem ég er fullkomlega ánægð með frekar en að gefa eitthvað út bara til að gefa út. Ég kláraði reyndar eitt prósaverk síðasta sumar sem ég hef ekki getað gefið út vegna óviðráðanlegra ástæðna, en vonandi lítur það einn daginn ljós. Bangkok er allavega ein besta borgin til að skrifa vísindaskáldsögu í.

Í vor tók ég þátt í útboði Stafræns Íslands með Aranja sem efnisstjóri og verkefnið átti að byrja í sumar. Útboðið fór þannig fram að hugbúnaðarfyrirtæki fengu öll sama verkefnið á sama tíma og fengu 4 daga til að skila (fyrir aðeins 200 þúsund krónur á heilt teymi …). 10 efstu fyrirtækin í tveimur mismunandi teymum fá svo giggið. Ferlið var krefjandi en mjög skemmtilegt, þetta minnti mig á gamla tíma sem forritari hjá Plain Vanilla. Það er langt síðan ég hef verið á vinnustað og tekið þátt í svona tækni-crunchi, og fólkið hjá Aranja er mjög þægilegt í samstarfi og ég hlakka til að vinna áfram með þeim. En útboðið var kært vegna óánægju nokkurra vefstofa sem komust ekki að vegna ósamræmis í stigagjöf (sem virðist vera alveg rétt hjá kærendunum samkvæmt fyrstu niðurstöðu kærunefndar) þannig að allt er enn í biðstöðu með það.

Annars eru alltaf einhver verkefni í gangi hjá mér. Ég vinn reglulega með Möggu Dóru hjá Mennskri ráðgjöf og Hafnarfjarðarbæ. Núna í ágúst vann ég líka skemmtilegt verkefni fyrir Umhverfis- og orkustofnun við að skilgreina Rödd og tón og skrifa efnisleiðarvísi fyrir þau. Þau voru mjög áhugasöm um að skrifa gott efni og taka þátt í að skilgreina sinn tón svo ég fékk Höllu Hrund, efnisstjóra hjá Stefnu (hún skrifaði meðal annars frábæra efnisstefnu Ísland.is), til liðs við mig til að halda vinnustofu þar sem Rödd þeirra og tónn voru skilgreind.

Vinnustofan gekk gríðarlega vel og ég vona að við Halla fáum fleiri tækifæri til að aðstoða stofnanir og fyrirtæki við að finna sína rödd og tón með þessu móti. Halla er algjör snillingur í að stýra vinnustofum á netinu auk þess að vera góður notendamiðaður textasmiður og við vinnum mjög vel saman.

Við Steinar erum líka alltaf að skapa og koma með alls konar hugmyndir að verkum sem verður gaman að segja frá þegar þau eru lengra komin.

Síðustu dagarnir í Evrópu

Þetta flakk í sumar er búið að vera skemmtilegt en það tekur alveg sinn toll að vera sífellt að skipta um hótel og vita ekki hvert stefnan er tekin næst (meðan við erum að skrifa og vinna). Það var í raun ekki planað hjá okkur að vera svona lengi í Evrópu heldur æxluðust hlutirnir þannig. Adam sótti um í háskóla í Svíþjóð og við vildum vera nálægt ef hann kæmist inn því þá ætluðum við að vera með honum þar til að byrja með. Síðan bauð Ásta, kona Gumma, pabba Steinars, okkur að koma til Danmerkur í surprise 70-ára afmælishitting hans Gumma í byrjun sept sem hefði passað vel við Svíþjóð. Svarið kom ekki fyrr en um miðjan júlí frá skólanum, en Adam komst ekki inn (það voru svo fáir erlendir nemendur sem komust) svo hann ákvað að fara í stærðfræði í HÍ. Námið og félagslífið þar á mjög vel við hann svo það var líklegast fyrir bestu. Ég leigði út íbúðina mína í langtímaleigu og Adam flutti inn á Lokastíg, í íbúðina hans Steinars, á besta stað í bænum. Ég er enn að átta mig á að litla barnið mitt búi núna einn og sé kominn í háskóla – mér finnst ekkert það langt síðan ég var í HÍ, í sömu stofum og Adam er núna.

Eftir Istanbúl fórum við til Brussel þar sem Hörður bróðir býr með Alexöndru, kærustunni sinni og fengum að vera í íbúðinni þeirra, þar sem þau voru á ferðalagi í Asíu. Við Adam heimsóttum þau á síðasta ári og borgin kom mér skemmtilega á óvart. Ég var með einhverja óljósa hugmynd um kalda borg með pólitíkusum á gangi en borgin er ótrúlega falleg, ódýr, með góðum mat, fullt af söfnum og görðum – og einstaklega gott bjór-úrval. Minnir smá á Berlín – nema bara meira næs og snyrtilegri.

Það var yndislegt að vera komin á heimili aftur (íbúðin þeirra er líka ótrúlega næs með geggjuðum svölum) og komast í smá rútínu. Okkur fannst ekkert betra en að halda upp á 4-ára sambandsafmælið okkar á svölunum með okkar eigið kokteilboð.

Ég elska alltaf að sitja í görðum í Evrópu í sól og fylgjast með fólki. Það eru svo mikil lífsgæði að geta verið utandyra í góðu veðri, stundum skil ég ekki hvernig Íslendingar fara að í myrkrinu og rokinu. Elli, vinur Steinars, og Hulda konan hans komu til Brussel síðustu 3 dagana okkar þar í tilefni af fimmtugsafmæli Ella (og Steinars fyrr í ágúst). Það var mikið hlegið, rifjað upp gamla tíma, borðað góðan mat og drukkið bjór og freyðivín.

Við flugum ekki beint til Danmerkur heldur til Stokkhólms á smá bisness-fund varðandi verk sem við Steinar kláruðum í sumar. Meira um það síðar! Það var mjög súrrealískt að vera komin aftur til Skandinavíu eftir allt þetta ferðalag, allt kunnuglegt en samt ekki. Þar vorum við bara í 2 nætur og tókum síðan lest til Kaupmannahafnar (lestir eru svo frábær ferðamáti!) og þaðan aðra lest í sumarbústaðahverfi sem Ásta og Gummi eiga bústað. Allt þetta plan var vel þess virði til að sjá svipinn á Gumma þegar við læddumst upp að honum í garðinum! Næstu tvo daga var aftur borðaður góður matur (smörrebröd að sjálfsögðu), drukkinn bjór og spilað í góðum félagsskap.

Þetta sumar er búið að vera ævintýralegt en við vorum alltaf í biðstöðu sem er nú loks lokið. Frá Danmörku flúðum við haustið í Evrópu og fórum við til Bangkok, þangað sem ferðinni var alltaf heitið. Hér verðum við í nokkra mánuði – eða þar til ferðafiðringur fer mögulega að kitla aftur. Það er eitthvað við Bangkok sem fær okkur Steinar til að líða eins og við séum komin heim. Kop khun ka!

Istanbúl

Það var skemmtileg tilbreyting að koma til Istanbúl eftir að hafa verið lengi á Balkanskaganum enda er borgin rík af áhugaverðri sögu. Istanbúl á rætur að rekja til 660 f. Krist, síðar varð hún hluti af rómverska keisaraveldinu, þá nefnd Konstantínópel, og var mikilvægur þáttur í þróun kristni. Eftir fall Konstantínópel tóku Tyrkir borgina yfir og varð hún höfuðborg Tyrkjaveldis sem nefndu hana Istanbúl – og varð hún mikilvægur hluti af íslam. Istanbúl er líka eina borgin í heiminum sem er í tveimur heimsálfum en Bosporus-sund skiptir borginni á milli Evrópu- og Asíu.

Við sáum strax að borgin væri stór en það kom samt á óvart að það búa yfir 15 milljón manns þar! Sem gerir borgina að einni þeirri stærstu í Evrópu. Við gistum fyrst á 3 stöðum Evrópumegin en síðustu nóttina Asíumegin. Fyrstu 2 voru í Galata-hverfinu, þar sem er mjög vinsælt að taka mynd af sér með Galata-turninn í bakgrunni. Fyrsta íbúðin var fín, fyrir utan að það var bara loftkæling í svefnherberginu (og fyrstu nóttina tókum við hana óvart úr sambandi og vorum að kafna úr hita með aðeins viftu) en hún var með stórum svölum á efstu hæð með mögnuðu útsýni, meðal annars yfir á Galata-turninn.

Næst gistum við á flottu rusty-hipstera hóteli sem var með besta mat sem ég fékk í Istanbúl! Herbergið var mjög flott, en loftkælingin fór ekki niður í nema ca. 23-24 gráður þannig að maður náði aldrei að kæla sig alveg. Hverfið þar í kring var með þröngum bargötum með mjög góðri stemmingu, en þótt það sé leyft að drekka í Tyrklandi þrátt fyrir að vera múslimaland eru barir (allavega Evrópumegin) einskorðaðir við viss hverfi og meirihluti gesta erlendir. Eitt kvöldið sátum við þar og barþjónn kom aðvífandi og gaf okkur 8 staupglös (við náðum ekki að skilja hvers vegna). Við hliðina á okkur sat hópur sem var að halda upp á afmæli svo við fengum okkur sitt hvort staupið og gáfum þeim rest. Stuttu síðar fengu þau sér tertu og gáfu okkur tvær sneiðar og jiii, þetta var með bestu kökum sem ég hef fengið!

Það er mikil bakkelsis og te menning í Istanbúl, í sjónmáli er alltaf einhver með bakka með glösum af uppáhelltu tei að selja og þéttsetið á bakaríum með alls konar kökum og bakkelsi, svo ekki sé nefnt líka nammið þeirra, turkish delight.

Næst var stefnan tekin á aðal túristasvæðið við torgið þar sem Grand Sofia og Blá moskan standa. Það var yndislegt að komast í smá víðlendi og sátum við oft við þetta torg. En í kring var stemmingin aðeins öðruvísi, sífellt verið að kalla á mann til að koma inn á veitingastaði sem varð mjög þreytt með tímanum og maturinn frekar einsleitur. Við fórum reyndar á einn frábæran indverskan veitingastað sem leyndist þarna.

Á afmælisdaginn hans Steinars fórum við út að borða á mjög næs rooftop stað, síðan í 3 tíma bát-túr niður Bospor-sundið þar sem við sáum víðfeðmi borgarinnar. Það var ekki selt áfengi um borð á bátnum en ég spurði áður hvort við mættum koma með sjálf sem var leyft (bara meðan það væri ekki of mikið). En við meikuðum ekki að poppa freyðivíni þar – eina fólkið sem var að drekka. Bátsferðin var fín, en við gátum ekki annað en borið hana saman við bát sem við fórum nokkrum sinnum á í Kambódíu sem var miklu skemmtilegri, bæði hvernig báturinn var settur upp, stemmingin og þar var selt áfengi. Asíubúar slá aldrei hendinni á móti sölutækifæri! Eftir bátsferðina fórum við á grasið okkar góða fyrir framan Grand Sofia eftir á þar sem við gátum notið freyðivínsins í rólegheitum.

Hörður bróðir sagði mér að honum hafði fundist Asíu-hliðin vera skemmtilegri, og þar sem flugvöllurinn var í þá átt, ákváðum við að eyða síðustu nóttinni þar og sáum ekki eftir því. Ef ég kæmi aftur til Istanbúl myndi ég klárlega vera þar: færri túristar, ódýrara, barir út um allt, low-key þægileg stemning. Ég myndi mæla með Istanbúl við alla, þetta er alveg einstök borg og mikið að skoða (við sáum samt ekki nema brotabrot af borginni) og fólkið vingjarnlegt.

Smá stopp í Asíu

Næst var flogið til Brussel…. meira um það síðar.

Frá svörtum fjöllum til albanískra stranda

Ég sit á flugvallahóteli við Tirana, höfuðborg Albaníu. Á morgun er stefnan sett á Istanbúl þar sem við verðum fram yfir fimmtugsafmælið hans Steinars, 15. ágúst.

Útsýni af veitingastað við flugvallahótelið. Nóttin kostar bara 65 evrur og maturinn á víst að vera frábær.

Við ætluðum að koma hingað í gær og fljúga í dag en ég vaknaði með magapest sem ágerðist yfir daginn, planið var að bóka taxa gegnum albanískt-uber app, en bílstjórinn ætlaði að rukka okkur 20 evrum meira en appið sagði svo við neituðum. Hann sagði orðrétt: „Bro, the app takes 20 euros.” Sem var fyrir bestu – magapestin ágerðist og við enduðum á hóteli í Vlöre þar sem ég lá fárveik allan daginn, fegin að sitja ekki í bíl með gaur sem ávarpar mig sem Bro. Nú borgaði sig að vera ekki búin að bóka fram í tímann.

Allavega, byrjum á fyrsta stað síðan í síðasta bloggi: Ulcinj. Ástæðan fyrir því að við fórum þangað er að bærinn er sá næsti við landamærin frá Albaníu og það var auðvelt að taka rútu þangað, annars vissum við ekki neitt um Ulcinj. Það búa ekki nema 20.000 manns þar en svo koma hundraðfalt meiri ferðamenn þangað. Ulcinj er mjög sérstakur staður, þar eru flestir múslimar í Svartfjallalandi og okkur brá þegar moskurnar byrjuðu að blasta fimm sinnum á dag yfir allt þorpið – svipað áreiti og þegar kristnu kirkjurnar gjalla – nema þetta var skemmtilega framandi. Efst í bænum er „Old town”, mjög fallegur gamall sjóræningabær, sem er alveg tómur á daginn á meðan allir eru á ströndinni, annað hvort á Small beach sem er í miðjum bænum eða á Long beach, 7 km langri strönd aðeins fyrir utan bæinn.

Það sem gerir Uljinc einstakt var að í miðjum suðupotti trúarbragða og menninga er við ströndina úti-klúbbastemming sem byrjar kl. 21 og endar á slaginu 1. Þar dansar VIP-fólk á efri hæð við blastandi tónlist og horfir niður á pöpulinn, mið-klassa fólk á borðum, aðra á bekkjum á móti – svo gjalla moskurnar yfir. En ef maður er í gamla bænum fyrir ofan heyrist ekki neitt. Þetta var smá súrrealískt, eins og einhver bíómynd.

Small beach

Við fundum íbúð með svölum yfir mannlíf hjá yndislegum gestgjafa (konu, þær eru bestu gestgjafarnir, hér á Balkan-skaganum allavega) þar sem við vorum í 5 daga. Þetta voru íbúðahótel sem er innréttað eins og 4 stjörnu hótel og þjónustan eftir því. Við sátum í tóma gamla bænum á daginn að vinna og kynntumst þar tveimur ungum þjónum frá Kosovo sem báðir mæltu með því að fara suður eftir Albaníu – planið okkar var að fara til Durres – á albanísku ríveríuna svokallaða. Maturinn var frábær, samt sakna ég þess mjög að geta fengið asískan mat, eða eitthvað annað en brauðmeti, pasta og fisk, og fólkið yndislegt en eftir viku fannst okkur við vera búin að klára bæinn svo við ákváðum að hlusta á nýju vini okkar og fara suður, með stoppi í Durres, strandbænum sem mamma var í um daginn og mælti með.

Samfélagið þarna er manneskjulegra en í há-kapítalísku samfélagi eins og Íslandi, þarna var margt sem minnti mann á síðustu áratugi 20. aldar, tónlistin sem var spiluð, nostalgísk leiktæki eins og klessubílar, kassi til að boxa eins fast og (karl)maður getur, box full af böngsum með kló til að ná í. Það var samt flóknara en við bjuggumst við að halda áfram með rútu suður eftir Albaníu, það var hægt til Tirana en ekki til Durres. Í nýlegum fréttum um hversu flókið er að taka lestir á milli landa í Evrópu mætti líka bæta við að rútu- og bátsferðir eru líka ekki í boði. Góði gestgjafinn reddaði okkur leigubílstjóra sem keyrði okkur til Durres fyrir 100 evrur. Við lentum í þvílíkri umferðateppu við landamærin, keyrðum svona á 20 í klukkutíma, og sáum strax að Albanía er fátækra land. Við landamærin í Svartfjallalandi var fólk (gamlar konur, börn, menn og konur) að selja ávexti, poppkorn og olíur, en þegar við komum yfir Albaníu tóku við konur með ungbörn að betla. Umferðateppan stafar af því að samgöngur í Albaníu eru mjög slæmar og komumst við að því enn betur þegar við ætluðum að taka svo rútu frá Durres.

Durres

Það var mjög mikið af fólki í Durres! Ströndin var þéttsetin alla daga og varla hægt að ganga á göngustígunum á kvöldin. Allir virðast vera á sömu dagskrá, strönd á daginn og út að borða eftir 8. Það var fínt að vera þar í nokkra daga en okkur langaði aftur í bláan sjó sem nær hærra en yfir hné og ákváðum að færa okkur eftir nokkra daga. Það er ódýrara í Albaníu en Svartfjallalandi, en maturinn var líka eftir því. Besti matur sem ég fékk var grillaður kjúklingur á lókalastað sem kostaði bara 5 evrur, með hrásalati og brauði.

Við ætluðum að taka rútu suður sem er „mögulegt, nema að þá þarf að ganga upp á hraðbraut 200 metra frá rútustöð og veifa þar minibus sem kemur á óræðum tíma. Við hættum ekki alveg á það svo við fengum leigubíl í næsta bæ, Vlöre, sem er þriðja stærsta borg í Albaníu (Duress er nr. 2). Gestgjafinn okkar reddaði bíl með settu verði, en þegar við komum að borgarmörkunum ætlaði hann að láta okkur út þar fyrir þann pening. Við báðum hann um að keyra okkur að hótelinu í korters fjarlægð og þá rukkaði hann okkur 35 evrum meira (farið átti að kosta 90 evrur). Hvorki í Króatíu né Svartfjallalandi fann maður fyrir að einhver væri að reyna að svindla á manni en það gerðist nokkrum sinnum í Albaníu. Við vorum komin enn lengra aftur í tímann.

Það eimir af toxic-karlmennsku í Albaníu, gaurar að sýna sig á bílum, alls staðar sitja lókal karlmenn á stöðum allan daginn meðan konurnar sjást ekki og starfsfólk ávarpaði reglulega Steinar frekar en mig, til dæmis þegar ég sendi fyrri gestgjafa skilaboð um vonbrigðin yfir verðinu og við værum ekki sátt sagði hann alltaf “Sir”, þótt hann vissi að þetta var Whats-appið mitt. Annað dæmi var að þjónn skildi ekki þegar ég spurði hvort hann það væri til síder og sagði: “Let’s ask your husband what you want.” Samt eru þessir menn alltaf næs þegar maður kynnist þeim aðeins, til dæmis talaði einn gestgjafinn bara við Steinar varðandi greiðslu og bætti posa-álagi ofan á verðið og kenndi bönkunum um – eitthvað sem gerðist ekki á neinum öðrum stað í landinu – og bauð Steinari að fá sér viskíglas með sér og við dæmdum hann strax sem toxic. En svo reyndist hann vera umhyggjusamur gestgjafi og þjónustan var mjög góð. Það er eins og það sé að togast á innra með körlunum þarna að sýna sig á gauralegan hátt og vera ljúfir. Kannski er þetta ekki skrýtið hjá þjóð sem var undir kommúnískri stjórn þar til í byrjun tíunda áratugarins og síðan þá hefur albaníska mafían grasserað og er viðloðin alla pólitík.

Það var alltaf eitthvað smá bogið við reynsluna í Albaníu. Við fengum oft annað en það sem við pöntuðum eða það sem við vildum panta var ekki til (eins og Crepes á crepes-stað); samgöngur gengu ekki upp, bið eftir leigubíl sem átti að taka 10 mín tók 45 mín og þannig fram eftir götunum. Það eru ekki margir vestrænir túristar þarna, einstaka Norðmenn og Þjóðverjar. Einn gestgjafinn spurði okkur beint út hvað við værum eiginlega að gera í Vlöre.

Við gúgluðum svo í fyrsta sinn almennilega albanísku ríveríunni og komumst þá að því að á síðustu árum hefur ferðamanna-búblan þar sprungið og innviðir anna ekki fjöldanum. Bláu fallegu strandirnar eru alveg jafn þéttsetnar og í stóru sandbæjunum og þar sem bæirnir eru litlir er enn troðnara og verðið víst hærra og fólk mælir ekki með að fara þangað í high-season. Hvert sem ég hef farið hér á Balkan-skaganum hefur fólksmergðin komið mér á óvart. Við erum auðvitað á high-season tíma en mig grunaði aldrei hvað væri mikið fólk að ferðast hér! Fólksfjölgun mannkyns og vandamálin við að anna því er mjög ljóst.

Við vorum orðin þreytt á öllu veseninu í Albaníu og því er stefnan tekin á Istanbúl. Suður-Albanía fær að bíða – ef við munum einhvern tímann fara þangað.

Hvar er Berglind?

Eftir fjöldamargar óskir um að ég segi frá ótímabundna ferðalagi mínu og Steinars er hér hafið að nýju ferðablogg (þegar maður er ekki á samfélagsmiðlum er ekki annað hægt en að verða við þessu).

Ég hitti Steinar í Split, Króatíu 24. júní þar sem við vorum eina nótt áður en við fórum til eyjunnar Hvar – já, það er ekki annað hægt en að grínast með þetta nafn 🙂 Eyjan er undurfögur, gamli bærinn glæsilegur, fallegar strendur og sjórinn alveg tær. Risastórar snekkjur leggja þarna að og ferðamennirnir keppast við að vera eins fallegir og umhverfið.

Okkar upplegg er að festast ekki í íbúð sem okkur líður ekki vel í (umhverfið skiptir svo miklu máli þegar maður er í skapandi vinnu) svo við höfum verið að panta íbúðir með litlum fyrirvara en fljótlega fór eyjan að fyllast af túristum svo það var erfitt að vera lengur en 2-3 daga á hverjum stað. Þegar við leigðum glæsilega íbúð aðeins fyrir utan gamla bæinn (nær ströndum sem við fórum á sem eru í smá fjarlægð) vorum við svo hrifin af íbúðinni, og svæðinu, að okkur datt í hug að það gæti verið magnað að eiga svona íbúð á Hvar.

En fljótlega fórum við að fá leið á öllum glamúrnum sem fylgir þessum lúxus-túrisma. Á daginn eru allir hálfnaktir, konur í rassa-bikiníum að valsa um alla leið inn í bæ, og á kvöldin allir uppstrílaðir – allir að ganga í hægðum sínum og njóta sín í fríi meðan við vorum að vinna.

Planið er að stefna til Albaníu en það kom okkur mjög á óvart hversu flókið er að fljúga eða sigla þangað frá Króatíu. Þannig að við ákváðum að mjaka okkur landleiðina með rútu og fórum til Kotor, í Svartfjallalandi.

Kotor er lítill bær inni í firði – eins konar míni-útgáfa af Dubrovnik þar sem við vorum fyrr í sumar –sem er aðeins ódýrari og með fjölbreyttari ferðamönnum. Sagt er að þar bæti fjöllin upp allar eyjurnar sem Króatía býr yfir. Við höfnina leggur einu sinni á dag risa stórt skemmtiferðaskip sem er nánast stærri en bærinn. Ég ímynda mér að þetta minni svolítið á Ísafjörð á sumrin.

Í Kotor eru kisur út úm allt sem gefur það mjög hlýlegan anda í bæinn. Ég talaði við konu sem rekur búð með kattavörum og hún sagði að það væri reyndar af því að enginn vildi taka kettina að sér – hún hefur eytt síðustu 30 árum af lífi sínu í að reka þessa búð og nota ágóðan meðal annars til að sjá um ketti sem hún tekur til að bólusetja og gelda. Þessa stundina var hún með sex kettlinga í bílskúrnum sínum, auk nokkurra annarra katta sem hún á. En fólkið í Kotor er duglegt að setja út mat og vatn fyrir kisurnar svo það allavega vel hugsað um þær.

Eftir að hafa verið í Berlín þar sem ég var að bögglast við að reyna að tjá mig á þýsku þar sem margir tala ekki ensku kom það þægilega á óvart hvað Króatar og Svartfellingar tala góða ensku, og eru mjög hjálpsamt og vinalegt fólk (sem var ekki beint stemmingin í Berlín). Það er ekki hægt að tala um ferðalag við Íslendinga án þess að minnast á veðrið. Allan tíma hefur verið 28-35 stiga hiti og alltaf sól nema eitt kvöld þar sem kom hellidemba í Hvar (sem var mjög skemmtilegt). Við höfum náð ágætis dampi í skriftum og vinnu eftir að hafa áttað okkur á hvað loftkæling og vindur eru mikilvæg til að ná einbeitingu.

Áður en ég fór til Svartfjallalands fyrr í sumar vissi ég nánast ekki neitt um landið og það kom mér mjög á óvart hversu undurfagurt er hérna og þróaður túrismi (svona er að koma frá lítilli eyju nyrst í Atlantshafi). Í Kotor var líka erfitt að finna íbúðir svo fyrir viku síðan héldum við áfram mjakinu í átt til Albaníu með rútu til Ulcinj. Sú rúta reyndist mjög lítil, ekki með loftkælingu og líklegast engum dempurum. En eftir 3 tíma ferðalag, með stoppi á landamærum þar sem við þurftum að fara tvisvar út með 50 m millibili til að sýna vegabréf, komum við til Ulcinj þar sem við erum stödd nú. Meira um það síðar.

Uppvöxtur Litla trés

Ég er kannski sein um borð í lestina en ég var loksins að lesa bókin Uppvöxtur Litla trés sem kom út 1976 (1999 í íslenskri þýðingu Gyrðis Elíasonar) og fór í ham þegar ég skrifaði umsögn á Goodreads og ákvað að henda þessu inn hér á sofandi bloggið mitt.

Uppvöxtur Litla trés er hugljúf uppvaxtarsaga ungs drengs af indjánaættum sem gerist að mestu leyti á einum vetri þar sem hann býr hjá ömmu sinni og afa, sem eru Cherokee-indjánar, og þau lifa í fjöllunum í samhljómi við náttúruna. Sagan fellur vel að framsæknum umhverfissjónarmiðum og nýaldarsiðum en á sama tíma er hún mjög íhaldsöm og í raun fordómafull. Sagan er einföld og persónurnar sömuleiðis, indjánarnir eru settir fram sem hinn göfugi villimaður gegn hinni illu siðmenningu nútímans.

Það er nauðsynlegt að lesa þessa bók í samhengi við höfundinn, Asa Carter, sem var öfgafullur kynþáttahatari. Hann var viðriðinn Ku Klux Klan og gekk svo langt að hægrið og íhaldið á áttunda áratugnum vildi ekki einu sinni bendla sig við hann. Á sínum efri árum, eftir að hann varð útskúfaður úr pólitík, byrjar hann að skrifa skáldsögur (áður hafði hann verið þekktur fyrir að skrifa áhrifaríkar pólitískar ræður) og það er ekki nóg með að hann taki upp pennanafnið Forrest Carter (Forrest í höfuðið á stofnanda KKK) heldur tekur hann upp gervið í eigin persónu, og leikur þessa persónu gagnvart agentinum sínum og í opinberum framkomum. Hann sagði að Uppvöxtur Litla trés væri hans eigin uppvaxtarsaga sem hún er sannarlega ekki, Asa Carter er ekki einu sinni af indjánaættum.

Fyrst þegar ég heyrði af ævi höfundarins varð ég undrandi yfir því hvernig hvítur kynþáttahatari gæti skrifað fallega sögu frá sjónarhorni indjána þar sem hvíti karlinn er vondi kallinn. Í fyrstu leyfði ég mér að vona að hann hefði fengið einhvers konar uppljómun á seinni árum og komist yfir fordóma sína en því miður virðist Carter hafa verið rasisti, sérstaklega gagnvart svörtum, allt fram á sinn dauðadag. Þegar aðeins er grafið í bæði söguna og ævi höfundarins sést sagan í sínu rétta ljósi og baksaga höfundar er ekki eins furðuleg og ætla mætti. Asa Carter var með íhaldssama rómantíska hugmynd um frumbyggja Ameríku enda er hugmyndin um hinn göfuga villimann uppfull af fordómum. Þetta er sannkallað menningarnám þar sem hann skáldar upp hugtök og siði Cherokee-indjána sem sýnir að hann virðir ekki menningu indjána betur en svo að hafa ekki kynnt sér þá betur.

Ég mæli með að lesa bókina og lesa síðan um höfundinn, til dæmis þessa grein. Það er góð æfing í að fá mann til að líta undir yfirborðið á því sem maður les, spá og spegulera með hver má segja hvaða sögu, er sagan gild ein og sér eða verður að taka sögu höfundarins með í reikninginn? Hvað er hið rétta og ranga sem samfélagið í dag er gjarnt á að dæma fljótt og harðlega – en hlutirnir eru oft flóknari en svo að hægt sé að flokka þá á svo einfaldan hátt.

Vaknaðu!

Í kvöld kemur fjöldi listamanna fram á neyðartónleikum í Hörpu vegna ópíóðafaraldursins sem er að stráfella fólk sem notar þessi efni. Fíkn er flókið vandamál en það hefur sýnt sig að skaðaminnkandi úrræði er ein besta leiðin til að aðstoða fólk í fíknivanda. Það er uppselt á tónleikana en hægt að styrkja Frú Ragnheiði og önnur skaðaminnkandi úrræði með einu símtali eða smsi.

Af þessu tilefni birti ég hér titilsöguna úr smásagnasafninu mínu og hvet fólk til að styrkja þetta mikilvæga málefni. Mannslíf eru í húfi.


Breytt ástand

Það er eitthvað fólk á eftir henni. Hún veit ekki af hverju, veit bara að þetta er vont fólk. Það vill meiða hana. Skuggalegt og slæmt fólk. Hún sér rauðan depil á trénu við hliðina á sér. Leiser. Þau ætla að skjóta hana. Hún hendir sér á raka moldina og skríður áfram. Jörðin og myrkrið rennur saman. Hægri hnefinn er krepptur utan um hnífinn. Þetta er spurning um líf og dauða.

Hún var fimmtán ára þegar hún byrjaði að hanga á bekk niðri í bæ með heimilislausa fólkinu. Fannst það vera lífið. Að þurfa ekki að taka ábyrgð á neinu. Áhyggjulaus. Hún gerði hvað sem var til að komast í breytt ástand. Allt var betra en að líða illa í eigin skinni. Betra en að takast á við allar tilfinningarnar; þennan taugahnykil af reiði, ótta, gremju og þrá sem var svo vandlega flæktur saman að hún vissi ekki hvað var hvað. Kringlóttar pillur með myndum af dollaramerki eða bílum, sumar í laginu eins og hús. Hvítur, gulur og brúnn hraði. Stundum eins og marsipan, oftar eins og þvottaduft. Dísur, konti, moggi og ró ró. Hvað sem þetta hét allt saman. Henni var alveg sama. Tók það sem hún komst í. Upp í nef eða ofan í maga. Skolað niður með vafasömum landa. Fyllti lungun af tímabundinni hamingju. Breyttu ástandi.

Where is my mind?

Where is my mind?

Where is my mind?

Way out in the water

See it swimming

Vinkona hennar reyndi að fá hana til að hætta. Koma með sér í menntaskóla en hún sá ekki tilganginn. Vildi vera öðruvísi. Þetta voru hennar örlög. Hún hafði vitað það frá því hún las Dýragarðsbörnin. Einhvern daginn myndi hún kannski hætta og fara með forvarnarfyrirlestra í grunnskóla. En ekki núna. Ekki strax.

Hún kynntist strák sem var með eins alltétandi svarthol innra með sér. Saman voru þau sterkari. Lífið auðveldara. Heimurinn örlítið minna ógnvekjandi. Þau hlustuðu á tónlist og hurfu upp í himingeiminn. Í fyrsta skipti sem hún hjálpaði honum að sprauta sig hvarflaði að henni að þetta væri kannski ekki lífið eftir allt saman. Þau bjuggu í herbergi með blettóttri dýnu á gólfinu, fötu út í horni og skítugu glerborði þar sem hún dundaði sér við að búa til fullkomna beina línu áður en hún saug hana upp í nefið. Kærastinn benti á að áberandi blágrænu æðarnar hennar væru fullkomnar fyrir nálina. Hans voru farnar að skreppa saman og hverfa. Þremur vikum síðar ákvað hún að slá til og sprautaði sig líka.

Hún skríður undir runna. Leggst á bakið með hendur niður með síðum. Hnífsblaðið kalt upp við lærið. Ætlar að bíða eftir að fólkið fari hjá. Ef hún liggur alveg kyrr sjá þau hana ekki. Í gegnum dökkrauð laufin sér hún stjörnurnar blika á himninum. Veltir fyrir sér hvað það þýðir. Hvort þetta sé eins og mors-kóði. Alheimurinn að reyna að gefa henni svarið. Hún er ekki viss við hverju en það hlýtur að vera eitthvað merkilegt.

Einn morguninn sat hún á bekk í Laugardalnum. Nýbúin að sprauta sig. Það var óvenju hlýtt og sólin sterk en hún sat í hermannagrænni dúnúlpu sem varði hana fyrir heiminum. Í gegnum heyrnartólin söng Placebo beint til hennar:

Day’s dawning, skin‘s crawling

Day’s dawning, skin‘s crawling

Day’s dawning, skin‘s crawling

Pure morning

Ung hjón með barnavagn gengu framhjá henni. Hún vorkenndi þeim. Þau voru svo leiðinlega eðlileg. Vissu ekki af hverju þau voru að missa. Líf þeirra var ekkert annað en steypuklumpur í Grafarvoginum sem þau þóttust eiga meðan það var bankinn sem átti þau, steisjonbíll sem átti að færa þeim frelsi en var ekkert nema fangelsi á hjólum, sjónvarpsgláp á kvöldin í staðinn fyrir kynlíf því allar hugleiðslurnar, ræktin, uppeldið, vinnan, bónusferðirnar, vinirnir, göngurnar, ferðalögin og netvafrið taka frá þeim svo mikla orku að þau hafa ekkert eftir fyrir hvort annað, þau fróa sér í leyni um leið og tækifæri gefst til en viðurkenna það aldrei fyrir neinum, barnið eignast alltof mikið af dóti, vex of hratt úr grasi, leggur önnur börn í einelti, fer í Versló, síðan í viðskiptafræði í HR og endar í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að geta haldið áfram að níðast á minni máttar.

Henni bauð við svona fólki.

Þannig leið árið. Allur tími og orka fóru í að reyna að redda næsta skammti. Nálin var betri en kynlíf. Tilfinningarnar samtvinnuðust. Kærastinn hrinti henni á stofuborðið og þar sem hún lá á glerbrotunum hló hún í fyrsta skipti í langan tíma. Sambandið slitnaði og byrjaði aftur. Stundum rúntaði hún stjörf um í hringi eða sat kyrr og starði tómum augum út í loftið. Þroskinn staðnaði. Sjálfsvirðingin og siðferðið hvarf. Líklegast hluti af henni með. Þegar kærastinn fór í fangelsi fyrir líkamsárás ákvað hún að breyta til. Fór til Póllands með fimmtán þúsund kall í vasanum og rifinn Krónupoka með fötum sem hún átti ekki sjálf. Hélt að hún gæti skilið fíknina eftir heima en fíknin elti og dró hana í miklu harðari heim. Gatan gleypti hana í sig og sýndi enga miskunn. Hún strípaði sig uppi á sviði. Dansaði og beraði sálina. Eftir nokkra mánuði kom stjúppabbi hennar út og sótti hana, gangandi beinagrind með lifrarbólgu C.

Hún stendur varlega upp. Dustar laufblöð og mold af peysunni og berum leggjunum. Tærnar moldugar. Kaldar. Dofnar. Hún heyrir ekkert nema hvíslið í vindinum. Stjörnurnar eru þagnaðar. Hún gengur áfram. Þarf að komast á öruggan stað. Í skjól þar sem hún getur varist. Skógurinn endar og í fjarska sér hún flöktandi ljós. Frá því stafar gulum, rauðum, appelsínugulum hita. Hún stefnir þangað. Ætlar ekki að leyfa þeim að sigra.

Hún vildi gera tilraun til annars lífs eftir að hafa kynnst martröð sem var verri en að vera eðlileg. Langaði til að fara í meðferð. Fékk að búa hjá mömmu sinni og stjúpa á meðan hún sprautaði sig ekki. Lét áfengið og stuðið duga meðan hún beið eftir að komast í afvötnun. Reyndi að þræta ekki undir sligandi reglunum. Siðapredikunum. Gleypti kúlur í eitt skipti þegar hún gat ekki meir og lá ber að ofan uppi í rúmi, saug ungbarnasnuð og hlustaði á Portishead.

Ohh, can’t anybody see

We’ve got a war to fight

Never found our way

Regardless of what they say

How can it feel, this wrong

From this moment

Óttinn við að lenda aftur í helvítinu hélt henni inni á Vogi. Tárin sviðu meðan líkaminn öskraði eftir efnunum sem höfðu haldið henni gangandi síðustu ár, án þeirra hafnaði líkaminn sjálfinu, vildi æla því út – hver einasta fruma þjáðist og logaði í helvíti en það var allavega helvíti sem hún sá fyrir endann á. Á hverjum degi hringdi hún í mömmu sína. Fyrirgaf. Þurfti að vita að einhverjum þætti vænt um hana. Gat þetta ekki ein.

Hún fékk inni á Krýsuvík og eftir nokkrar vikur örlaði á lífsgleði innra með henni í fyrsta sinn í langan tíma. Tilfinning sem hafði ekki látið sjá sig síðan herbergisdyrnar höfðu opnast um miðja nótt þegar hún var átta ára. Krýsuvík var síðasti séns. Það kom enginn inn í þessa sex mánaða meðferð nema hafa reynt allt annað. Hér var mikið sporaprógramm. Margt hægt að hafa fyrir stafni. Allt reynt til að koma fólki aftur á fætur. Hún gaf fiskunum og fylgdist með þeim synda um búrið. En í hvert sinn sem einhver nýr kom inn barst gustur af taugatrekkingi sem bjagaði andrúmsloftið. Eftir þrjá mánuði fór gamalkunni óróinn að gera vart við sig. Eirðarleysið í beinunum. Hatrið í hjartanu. Kliðurinn í hausnum. Loks gat hún ekki lengur haldið kyrru fyrir. Sturtaði fiskamatnum ofan í búrið. Ákvað að fá sér og fara aftur út í veröldina sem var svo hrikaleg en samt ekkert miðað við það sem bjó innra með henni.

Kærastinn sótti hana um miðja nótt. Hún var með aleiguna á bakinu og hnút í maganum. Hún var ekki viss hvort hún elskaði hann en þráði að vera ekki ein lengur. Þráði að nota. Hann svaraði báðum bænum. Meðan þau sögðu hvort öðru hvað á daga þeirra hafði drifið fór hjartað að slá hraðar og brjóstið að verkja, annaðhvort af ást eða kvíða. Þau lögðu bílnum bak við Bústaðakirkju þar sem dópsalinn ætlaði að hitta þau. Hún svitnaði. Gat ekki talað lengur. Þau þögðu saman og hlustuðu á Placebo. Skyndilega þurfti hún að kasta upp. Rétt náði að opna bílhurðina áður en þunn ælan gusaðist út. Spýja af galli og óhug. Hjartað þoldi ekki spennuna. Það var búið að þola of mikið. Áður en hún náði að fá sér fékk hún hjartaáfall.

Hún vaknaði með slöngur fyrir súrefni ofan í sér. Það fyrsta sem hún sá var prestur og fjölskyldan að horfa á hana dapurlegum augum. Þetta hlaut að vera botninn, hugsaði hún. En hún hafði rangt fyrir sér. Nokkrum mánuðum seinna flutti hún í kofa í sumarbústaðahverfi fyrir utan borgina. Taldi fjölskyldu sinni trú um að hún þyrfti að vera í tengslum við náttúruna. Þannig myndi hún ná bata meðan í raun vildi hún bara vera í friði til að nota. Kærastinn flutti inn og byrjaði að lemja hana. Stundum lamdi hún hann til baka. Stundum skar hann hana með hníf. Meðan hann reddaði þeim efnum var henni næstum því sama. Teiknaði bara myndir af særðum dýrum, reykti skaf og stillti á Muse í hæsta:

You make me sick

Because I adore you so

I love all the dirty tricks

And twisted games you play

On me

Eitt kvöldið var óvænt bankað. Fyrir utan stóð vinkona hennar hágrátandi. Sagðist vera að deyja úr áhyggjum af henni og hvernig hún væri að fara með líf sitt. Ef hún gæti ekki hætt fyrir sjálfa sig, gæti hún ekki allavega hugsað um fólkið sitt?

Hún skildi ekki hvað var að vinkonunni. Hvernig hún gat verið svona ósvífin að eyðileggja kvöldið fyrir sér? Hún sem var að baka möffins. Hún sagði vinkonunni að vera ekki að skipta sér af. Þetta væri hennar líf. Rak hana í burtu. Fékk samt einhverja skrýtna tilfinningu um að viðbrögð sín væru ekki rétt.

Hún sér fólki bregða fyrir inni í húsinu. Er ekki viss hvort það er gott eða vont. Fylgist með því inn um gluggann. Gengur í kringum húsið. Skyndilega sér hún rauða depillinn á miðjum brjóstkassanum. Þau hafa fundið hana. Hún flýr inn í kjarrið. Mundar hnífinn. Þau munu ekki ná henni lifandi.

Á himninum blikka rauð og blá ljós. Alheimurinn hefur svikið hana. Það er kallað á hana, reynt að villa um fyrir henni. Dökkklæddar verur þyrpast að henni. Djöflar með glóandi augu og blikandi sveðjur. Hún er umkringd og aðþrengd. Hnífurinn er það eina sem stendur á milli hennar og þeirra. Hún fær högg á bakið. Öskrar. Dettur. Heimurinn snýst. Vopnið er slegið úr hendinni. Hún hefur tapað. Þetta er loksins búið.

Innbyrðing á íslenskri menningu: ófagmennska og steypiboð

Áður en ég byrjaði í ritlist vann ég á vinnustöðum þar sem enska var fyrsta mál. Þetta er algengt í hugbúnaðargeiranum þar sem oft vinnur erlent starfsfólk með sérþekkingu. Þetta var sérstaklega strangt hjá Plain Vanilla þar sem var með mikið af útlendingum í vinnu og við vildum ekki að þau upplifðu sig utanveltu. Það gerðist oftar en ég hef tölu á að eftir 10 mínútur af enskumælandi fundi fattaði einhver að við vorum öll Íslendingar á fundinum. Ég las mjög mikið á ensku á þessum tíma, enda mikil áhugamanneskja um sæfæ og fantasíur og af þeim er ekki mikið til á íslensku (en er sem betur fer að breytast!).

Þegar ég byrjaði í ritlist sá ég að mig vantaði hreinlega mikla þekkingu á íslenskri menningu, var heldur ekki alin upp á menningarheimili eins og alþjóð veit (þó leyndist alveg einhver klassík í bókaskápnum hans pabba, eins og Þrúgur reiðinnar, Ilmurinn og Fávitinn eftir Dostojevksí – ég lagði reyndar aldrei í þá síðastnefndu). Þannig að ég tók mig til og las mikið af íslenskum bókum og gleypti í mig menningarþætti eins og Kiljuna og Lestina og heyrði fyrst um útvarpsþáttinn Orð um bækur – þáttur sem ég held að margir utan bókmenntakreðsunnar viti hreinlega ekki af. Eftir 2 ár af þessari innbyrðingu gat ég loks farið að mynda mér mína eigin skoðun á mörgu í íslenskri menningu og geta sigtað út það sem mér finnst aktjúallí gott.

Ljóðabókahillan mín og hluti af vísíndaskáldsögunum mínum

Ég hef annars eiginlega ekkert hlustað á Lestina síðan kúltúrbarnaumræðan hófst. Fyrir utan hvað mér finnst bókmenntir fá litla athygli í þætti sem fjallar um menningu blöskraði mér hversu ófagmannlega var staðið að þeirri umræðu. Eftir að Auður Jóns svaraði bloggpóstinum mínum málefnalega á sínu Facebook hringdi Lóa Björk hjá Lestinni í mig og stakk upp á eins konar panel-umræðu um efnið. Ég var til í það, og við vorum báðar sammála um að fá einhvern annan en Auði svo að umræðan yrði ekki persónuleg því þetta málefni og gagnrýni mín er svo miklu stærra en ein manneskja. Daginn eftir, 2 tímum fyrir viðtalið, hefur Lóa Björk svo samband, segist vera búin að skipta um skoðun og vilja fá Auði líka og var búin að hafa samband við hana! Við skulum halda því til haga að ég er nýkomin út á ritvöllinn en Auður er búin að spila þar í 25 ár og ég treysti mér ekki til að tala við hana í útvarpinu um þetta. Lestin hafði stuttu áður verið með mjög málefnalega umræðu um aðgengi og birtingarmyndir fatlaðs fólks í leiklistinni og þá fengu þau EKKI Nínu Hjálmarsdóttir gagnrýnanda og Unni Ösp leikstjóra til að ræða málin. Eftir á að hyggja hefði ég ekkert endilega verið sú besta í þetta heldur. Síðan fór eins og ég óttaðist – umræðan varð persónuleg og svo fór sem fór.

En í dag ákvað ég að hlusta til að heyra pistil frá Jakubi Stachowiak, pólsku ljóðskáldi sem ég kynntist á ljóðahittingum og í ritlist og er algjört gull af manni, og þátturinn í gær var stórgóður! Pistillinn hans Jakubs er mjög flottur, besti gestapistill sem ég hef heyrt þar um langa hríð: um reynslu hans í Covid af lögregluríkinu Abú Dabí þar sem hinsegin fólk fremur glæp með því einu að stíga á jörðina í landinu, síðan var áhugaverður pistill um Tom Waits (sem ég er alltaf á leiðinni að fara að hlusta meira á) og síðast var það umfjöllun Lóu Bjarkar og Hugrúnar Snorradóttur um steypiboð, eða baby-shower, sem mér finnst stórmerkilegt fyrirbæri og er eiginlega bara svolítið á móti.

Það eru að verða 17 ár síðan ég átti Adam og þá var þessi hefð ekki komin til Íslands. Ég hef aldrei farið í steypiboð svo fyrir mér er þetta konsept framandi og kjánalega bandarískt. Ég var mjög sammála umræðunni í Lestinni um að þessi hefð væri líka skref til baka í jafnréttisbaráttunni: konur að halda boð fyrir mömmuna. Eins og væntanleg barneign komi pabbanum eða öðrum körlum í lífi barnsins ekkert við. Svo eru víst líka einhverjir sem halda steypiboð fyrir pabbann, eða daddy-shower, en þá er víst minni áhersla á barnið og meiri á pabbann. Ég hef engan áhuga á barneignum og mjög takmarkaðan áhuga á ungbörnum og finnst alveg nóg að gefa sængurgjöf og/eða nafnaveislugjöf, sem getur bara verið peningur (en mér skilst að gjafirnar í steypiboðum séu frekar hlutir sem barnið þarf að nota og maður þarf þá að setja sig inn í). Mér finnst líka pirrandi með þessa kynjaskiptingu að það sé verið að gera þá kröfu á konur að taka þátt í þessu (og hafa áhuga) meðan karlmenn fá að sleppa (svo eru líka til karlmenn sem hafa mikinn áhuga á barneignum og börnum). Það galnasta sem ég hef heyrt er að samstarfskonum á vinnustað sé boðið í svona steypiboð (sem eru btw alltaf haldin óvænt fyrir mömmuna). Ég myndi mæta í steypiboð hjá mínum nánustu vinkonum en aldrei hjá neinum öðrum. Við þurfum ekki enn eitt klassíska íslenska fermingarboðið sem engan langar til að fara í né halda.

Að „skrifa“ skáldsögu

Ég er að vinna að minni fyrstu skáldsögu og ferlið er allt öðruvísi en að skrifa ljóð eða smásögur. Þegar fólk spyr mig hvernig gengur veit ég eiginlega ekki hverju ég á að svara. Ég byrjaði með þessa hugmynd fyrir rúmlega ári og skrifaði rúmlega 20.000 orð. Ég var alveg komin með allt í lagi beinagrind og nokkrar spennandi senur en var ekki alveg að ná að skrifa nógu áhugaverðar persónur eða söguþráð og rakst á vegg. Síðan breytti ég hugmyndinni þó nokkuð og er núna komin með mjög spennandi söguþráð, heim og aðalpersónu og hennar baksögu. Við Steinar áttum mjög góða hugmyndavinnu á Tene (oft með freyðivíni, mjög góð leið til að fá hugmyndir) og nú er ég að reyna að koma þessu niður á blað.

Tenetásur og dúfa í hugmyndavinnu

Sumir rithöfundar setjast alltaf niður á morgni og skrifa X mörg orð, aðrir taka tarnir og skrifa fram á rauða nótt, sumir handskrifa (sem mér finnst algjör geðveiki) og enn aðrir gera eitthvað allt annað. Ég er enn að finna út hvernig mín rútína er (fyrir þessa bók allavega). Eftir að við komum frá Tælandi náði ég ágætis rútínu og skrifaði 1000 orð fyrir hádegi og vann svo í launuðu vinnunni minni eftir hádegi. Ég tók líka þriggja daga helgi ein í sumarbústað í janúar og skrifaði 5000 orð – sem var markmiðið mitt.

Í þessum skrifum var ég ekki að skrifa vel heldur að skrifa út söguþráðinn. Það er mjög erfitt að skrifa ekki vel, en það er alltaf möguleiki á þessu stigi að ég muni henda því sem ég er að skrifa svo mér finnst meika sens að eyða ekki of miklum tíma í eitthvað dútl. „Kill your darlings“ segir Stephen King um að skrifa og það hef ég sannarlega verið að læra. Það er bara partur af ferlinu að henda texta (eða geyma hann í öðru skjali í tölvunni í þeirri von að eitthvað í honum verði nothæft síðar). Eftir Tene-hugmyndavinnuna er ég líklegast að fara að henda öllu sem ég skrifaði í des og jan. EN það var samt ekki til einskis, hugmyndin mín er að þróast og ítrast í hvert skipti sem ég sest niður og vinn að henni og ég trúi að með því að eyða nógum tíma í hugmyndina (og gera góða beinagrind) verði lokaútkoman betri.

Ég er heldur ekki að ráðast á garðinn sem hann er lægstur þar sem ég er að skrifa sögu sem gerist í framtíðinni. Ég gæti örugglega sest niður og skrifað raunsæja bók sem gerist í samtímanum og gefið út um jólin en mig langar til að skapa nýjan heim þar sem ég get ákveðið hvernig allt er, samfélag og umhverfi. Stundum verð ég að minna sjálfa mig á það þegar ég stend frammi fyrir enn einni ákvörðuninni um smáatriði í heiminum mínum.

Suma daga get ég sest niður að morgni og skrifað samkvæmt rútínu, en aðra er það bara ekki svo létt. Andinn kemur ekki alltaf þegar kallað er á hann. Núna ætla ég að taka mér tveggja mánaða „ritleyfi“, það er að segja að einbeita mér bara að skrifum og lifa á sparifé og smá airbnb og sjá hvort ég komist ekki á fullt með söguna þá – með allan daginn fyrir mér í að skrifa! Kona verður að bjarga sér þar til hún kemst á ritlaun.

Annars finnst mér vanalega áhugaverðara að heyra um ferlið að skrifa frá rithöfundum sem hafa skrifað margar bækur heldur en nýjum. En það er líka gott að muna hvernig það var að skrifa þá fyrstu – kannski verður ferlið fyrir hverja bók öðruvísi. Vonandi hefur einhver gaman af því að lesa þetta raus í mér. Allavega ég seinna meir.